Óveðursdagur

Klukkan er orðin hálf fimm og það er að sjálfsögðu komið svarta myrkur. Í dag er hið versta veður í Suður-Svíþjóð og átti líka að verða það hjá okkur hér á Örebrosvæðinu. En veðurguðinn áttaði sig auðvitað á því að Sólvellir eru ennþá í byggingu og eigendurnir eru ennþá svolítið óöruggir gagnvart fellibyljum. Ég var einn á Sólvöllum í gær og fór heldur ekki þangað fyrr en á fjórða tímanum. Kl 10 í gærmorgun fór ég að hjálpa honum Tryggva Þór og henni Svanhvíti að flytja. Áður en því lauk laumaðist ég í burtu og fór á Sólvelli til að klæða rúmlega helminginn af vesturveggnum með panel. Ég þorði alls ekki að hafa vegginn óklæddan ef veðrið skyldi verða virkilega vont. Ég var búinn að undirbúa verkið með því að sníða allan panelinn á lengdina og svo grunnmálaði ég endana þar sem ég geri ekki ráð fyrir að setja gerefti og horn upp á næstunni. Þið vitið þessi hvítu gerefti og horn sem gera rauðu stugurnar svo endemis fallegar. Það er ekkert afdrep á Sólvöllum þar sem hægt er að mála annars staðar en í sjálfri stugunni. Það var því ekkert um annað að gera en að hlíta því. Og svo pjattaður sem ég get verið notaði ég alla mína pjatthæfileika til að ekki skyldi einn einasti dropi lenda á gólfi eða mublum og það tókst, ekki einn dropi lendi á öfugum stað. Enn sem sagt; panell á vesturvegginn fór upp í gær og gerði húsið reiðubúið fyrir hið versta veður. Svo varð það líka mikið, mikið fallegra við þessa framkvæmd.

Í dag fórum við svo á Sólvelli til að sjá hvernig eignum okkar þar liði. Húsið stóð sig með prýði og ekkert dót var á ferðinni í vindgusunum. En eitt tré féll meðan við vorum þar. Það var selja sem var nálægt húsinu eða nokkra metra bakvið eldiviðargeymsluna fyrir þá sem til þekkja. Nokkrir aumingjar féllu í Sólvallaskóginum í hvassviðri fyrir fáeinum dögum. Þ e a s léleg tré sem þörf var að fjarlægja en ekki hefur unnist tími til. Þessi tré verða öll að eldiviði. Þá féll líka stórt grenitré um daginn, grenitré sem getur orðið að einum fimm gólfbitum og nokkrum útveggjastoðum í gestastuguna sem á að byggja eftir tvö ár. Ég vildi ekki fara í eftirlitsferð inn í skóginn í dag þar sem það var all hvasst en samt ekki svo hvasst sem hafði verið spáð. Menn hafa kálað sér á að gera svoleiðis. Kannski er núna fallið meira af byggingarefni en við vitum um. Ef svo er verður að taka höndum um það, fá það sagað, þurrka fram eftir sumri og koma því svo í geymslu hjá einhverjum af þessum vingjarnlegu bændum sem við höfum fyrir nágranna. Þessir bændur hafa alveg gríðar stór húsakynni margir hverjir sem þeir nota ekki að fullu.

Af hverju fellur svo mikið af skógi. Jú, jarðvegur er alveg gegndrepa af vatni eftir allar þær rigningar sem yfir hafa gengið í margar vikur. Svo er jarðvegur líka ófrosinn í allri sunnanverðri Svíþjóð. Hvort tveggja er afbrigðilegt miðað við árstíma og svo koma óvenju miklir stormar og hvernig á þessi fljótandi skógur að standa þetta af sér?

Klukkan er fimm. Valdís lagði sig og sefur. Hún er búin að vera lasin um skeið og var hjá lækni í vikunni. Hún greindist með lungnabólgu þrátt fyrir að hún er hitalaus. Hún fékk pensilín og nú vonum við bara að batinn komi með stormhraða. Það er hljótt og það er rótt hér heima. Í gær skrifaði ég út af netinu umsóknareyðublöð fyrir ellilífeyrisumsóknir. Ég ætla að líta á þau í kvöld. Það eru tímamót hjá mér. Ég hlakka til að þurfa ekki að keyra 126 km á dag úr og í vinnu. Ég hlakka líka til að geta ráðið tíma mínum meira sjálfur og ég hlakka til að geta gert allt mögulegt sem ekki er hægt er að gera með fullri vinnu. Ég hlakka til að geta setst niður og velt vöngum yfir svo mörgu og svo hlakka ég mikið til að geta klárað viðbygginguna á Sólvöllum. Svona get ég haldið áfram. Þrátt fyrir þetta allt er ég líka á varðbergi. Eitthvað mun koma mér á óvart á hinum nýja og óþekkta vegi. Þetta heldur þó ekki fyrir mér vöku en ég veit af því. Það var spennandi að flytja til Svíþjóðar á sínum tíma en það var líka að hætta sér inn á óþekktar lendur. Það kom líka í ljós að það lentu björg í götu okkar. En nú er gatan greið og svo mun það líka verða með ellilífeyrisgötuna. Ég vil gjarnan vinna eitthvað áfram en aksturinn sem ég gat um er ekki réttlætanlegur lengur. En ég mun sakna sjúklinganna mikið. Ég veit að ég mun geta fengið eitthvað að gera nær heimaslóð en ég læt það koma seinna. Nú er mál að linni. Betra væri að skrifa minna en jafnara. Já, það verður auðvitað ein af ellilífeyrisumbótunum. GB


Kommentarer
Rosa

pabbi minn, þú ert duglegur bloggakall! r

2007-01-14 @ 23:08:14
Valgerður

Sæll pabbi!

Hér er boðið upp á námskeið undir nafnnu "starfslokanámskeið". Það er til þess ætlað að kenna fólki sem er að hætta störfum að takast á við þær breytingar sem það hefur í för með sér að ljúka starfsævinni en finna sér jafnframt flöt í lífinu sem menn geta verið sáttir við. Þú ættir að spyrja Tryggva hvrt ekki er til eitthvað álíka í Svíþjóð/Örabro. Þessi námskeið eru sniðin af BSRB hér og hljóta að eiga sér einvherja fyrirmynd eða hliðstæðú á Norðurlöndum.
Annars er hér snjór yfir öllu og sólskin sem segir þér að hér er afar fallegt veður og sér langt inn á jökulinn í austri. ég var að koma frá Akureyri í morgun en þar var kalt í fyrradag og var kaldast inni í Bárðardal eða 29 stiga frost. Á Akureyri sá ég nokkuð sem ég hef ekki séð á Íslandi fyrr, en það var frostþoka. Kuldinn á Akureyri var -15 en Pollurinn var einar +4 gráður þannið að það myndaðist frostþoka á láglendinu. Fallegt en afar kalt að ganga í gegnum þessa svölu þoku. Ekki var síðra þegar við sátum uppi á Strikinu (fyrrum Fiðlarinn)og snæddum kvöldverð,því þá sáum við ofan á þessa einkennilegu þoku.

Kveðja til ykkar duglegu bloggarar
Valgerður

2007-01-18 @ 16:46:10


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0