Þankar um lífið


Þessi mynd er tekin af Valdísi og Rósu Kára frá Hrísey þar sem þær standa á heimkeyrslunni heim að Vornesi einn svo hlýjan og fallegan snemmsumardag í seinni hluta maí. Nú, þremur mánuðum seinna, lítur þetta svipað út. Nú er ég á ferðinni í Vornesi alla virka daga og suma helgardaga líka í einn mánuð. Ég er í gamla starfinu mínu og það er nokkuð svo skemmtilegt. Ég veit hvað ég er að gera þó að langur tími sé liðinn og allt meðferðarheimilið virkar. Ég mundi samt ekki vilja byrja í gamla starfinu mínu til frambúðar. Sjálfsagt er ég orðinn ofdekraður af að vera ellilífeyrisþegi í eitt og hálft ár með kannski 60 % vinnu að jafnaði. Svo er það orðinn svo stór hluti af lífinu að vera á Sólvöllum að eftir nokkurra daga fjarveru fæ ég heimþrá. Í morgun var mikið veikur maður í Vornesi og hann var sóttur af sjúkrabíl. Hjúkrunarfræðingurinn var í fríi en kom til að annast að allt gengi samkvæmt kröfum. Hún kom beint úr sveit og hafði gengið yfir ný sleginn bala á leið sinni út í bílinn þar heima. Þegar sjúkrabíllinn hafði ekið úr hlaði gekk ég eftir gangi þar sem hjúkrunarfræðingurinn gekk eftir þegar hún kom. Þar lá sterkgræn, rök grastugga á gólfinu sem hafði dottið af skónum hennar þegar hún kom. Þessi grastugga minnti mig á myndina hér fyrir neðan og þar með fór ég að hugsa um Sólvelli, og að hugsa um Sólvelli gerði það að verkum að ég fór að hlakka til næstu helgar. Ég varð himin lifandi glaður yfir að þessi staður finnst fyrir okkur og mér varð hugsað til skemmtilegra verkefna sem við ætlum að vinna við þar um helgina. Þökk sé manninum sem varð veikur og að hjúkrunarfræðingurinn var í fríi svo að hún þurfti að ganga yfir ný slegna blettinn við húsið sitt í sveitinni á leiðinni til Vornes, þá fékk ég upplifa þessi hamingjuaugnablik. Svo hélt vinnan áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Þessa mynd hér fyrir ofan tók Valdís á Sólvöllum eftir að hún hafði á skömmum tíma geystist með sláttuvélina yfir 2000 fermetra grasflötinn þar. Hún bar á í vor og grasflötin varð sællega græn um tíma. Síðan tók við hita- og þurrka tímabil og flötin varð brún á köflum af þurrki. Í rigningunum nú í ágúst hefur grasflötin hennar Valdísar orðið fallegri en nokkru sinni síðan við komum til Sólvalla.





Glugginn hér fyrir ofan var ákveðinn seint og síðar meir og löngu eftir að húsið var reist. Þessi gluggi er á norðurstafni og bak við gluggann er væntanlegt svefnherbergi á Sólvöllum. Við ætlum að innrétta herbergið upp í þak og hafa stíl á því samkvæmt okkar skilningi á hugtakinu. Glugginn á að veita birtu inn undir þakið og gefa þægilega birtu í herbergið sem gott verði að vakna við á fallegum morgnum. Þarna á myndinni var ég búinn að sníða gereftin á gluggann. Síðan tók ég þau niður til að mála vandlega og eitt af verkefnum næstu helgar verður að negla gereftin upp til frambúðar.



Og að lokum, hér er unnið af fullum krafti við innréttingu á þessu framtíðar svefnerbergi á Sólvöllum, herberginu sem er innan við stafngluggann á næstu mynd ofan við. Til hægri sést út um austurgluggann móti skóginum. Nú þegar ég er búinn að ganga frá þessari mynd sé ég að hún er líka næsta mynd fyrir neðan. Ég nenni ekki að breyta því og hugga mig bara við það að stóru fjölmiðlarnir gera þetta líka. Þeir nota oft sömu myndirnar hvað eftir annað þegar þeir fjalla um alla mögulega ólíka hluti.
GB


Kommentarer
Brynja

Falleg færsla um grastugguna, minnir mig á sögu listamanns sem kenndi mér eitt sinn, þegar hann sá appelsínubörk liggja og lýsa upp annars leiðinlegt umhverfi. Það er lán að sjá smáatriðin í tilverunni sinni og leyfa þeim að minna sig á það sem er gott og fallegt. Ég á t.d. trébút frá Sólvöllum, mér þykir vænt um hann.

2008-08-27 @ 17:36:24
Starri

Sæll Guðjón og til hamingju með starfsamt sumar í sveitinni! Get ekki stillt mig um smá mont í leiðinni og bendi á heimasíðu Æskunnar (ungmennafélags okkar Svalbarðsströndunga), aeskan.blogcentral.is, þar sem sjá má myndir af framkvæmdagleði okkar sveitamannanna.

bestu kveðjur

Starri

2008-08-27 @ 22:34:20
URL: http://aeskan.blogcentral.is
Guðjón

Gaman að fá þessar línur frá ykkur krakkar mínir. Við lítum oft á bloggsíðuna þína Brynja og við munum líta á ungmannafélagssíðuna líka Starri. Það var svo fyrirvaralaust að fá kveðjuna frá þér Starri að það var bara eins og það hefði fallið loftsteinn á akrana vestan við Sólvelli. Brynja er hins vegar öllu nær okkur.

Kveðja, Guðjón

2008-08-28 @ 19:28:01
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0