Á Sólvöllum

Halló halló!
Stífri vinnuviku er lokið og við erum komin í sveitina. Þegar ég kom frá Vornesi var Valdís tilbúin með allt sem við þurftum að hafa með okkur. En áður en við fórum af stað þurfti ég að færa yfir peninga af lífeyrisgreiðslunum mínum frá lífeyrissjóðum. Það var ekki létt að gera þetta fyrir nokkrum mánuðum. Þá var ég reiður þeim íslendingum sem höfðu spanderað peningum svo í óhófi að tekjurnar okkar Valdísar frá Íslandi höfðu rýrnað um meira en þriðjung. Svoleiðis er bara ekkert grín. En nú er það svo að ég vil ekki láta þessa íslendinga skaða mig á sálinni og því er ég ekki lengur reiður þegar ég flyt peningana. Hins vegar lít ég ekki upp til þeirra. Hér með lýkur fjármálaþætti mínum og ég fer yfir á hollari umfjöllunarefni.

Sumarið er búið að standa yfir frá því í seinni hluta apríl og þegar ég skrifa þetta finnst mér sem ég sé búinn að skrifa það áður. Það verður ekki fyrr en ég skrifa það í fimmta sinn sem ég fer að hiksta í alvöru. Skógar eru óvenju fallegir og þeir virðast safaríkir eftir ríkulega rigningu í mánuðinum. Ég tók saman úrkomu mánaðarins hér á sólvöllum í ágúst og reyndist hún vera 189 mm. Það þýðir að það hafa fallið niður 1550 tonn af vatni á Sólvallalandið í þessum mánuði. Þessir 189 mm á einum mánuði verða ekki mikið ef borið er saman við mestu sólarhringsúrkomu á Íslandi sem féll á Kvískerjum árið 2002, en það voru 293 mm. Í gær rigndi líka 111 mm á Kvískerjum en bara 27 mm á Sólvöllum í Krekklingesókn.

Eftir að við komum hingað dreif Valdís í að ganga frá farangri okkar en ég málaði nokkra lista sem ég ætla að nota á morgun. Síðan fór Valdís að horfa á sjónvarpsþátt sem heitir Dubido. Maður getur spurt sig hvað það þýði og það þýðir bara svipað og þegar steinaldarmaðurinn Fred Flintstone öskraði dúbbiddidú í myndinni Steinaldarmennirnir eða hvað hún nú hét.

En meðan Valdís horfði á þennan þátt fór ég í nauðsynlega hringferð í skóginum. Það verður að hafa eftirlit með því hvernig trjánum gengur að búa sig undir haustið og veturinn. Það er fróðlegt að fylgjast með margumtalaða beykinu sem við ræktum hér í tilraunaskyni. Eiginlega finnst mér sem elsta beykið, það sem nú er búið að ljúka sínu þriðja sumri hér í skóginum, sé komið yfir tilraunatímabilið og sé búið að sanna að það getur vaxið hér. Þetta þriggja sumra beyki óx upp í 65 sm í vor. Meðan á vaxtartímanum stendur er vaxtarsprotinn hálf gegnsær, horgrænn á litinn og lafir þannig að það er næstum sem hann komi kannski til með að leka til jarðar. En svo þegar líður á sumarið fær vaxtarsprotinn á sig lit, trénar og fær börk. Og ekki bara það. Þessir hangandi veiklulegu sprotar rétta úr sét og fara að nálgast að standa beint út fyrir utan einhvern af efstu sprotunum sem hægt og rólega fer að teygja sig mót himni. Núna þegar ég fór hringferðina í skóginum sá ég að efstu sprotarnir höfðu breytst mikið frá því um síðustu helgi. Þeir stóðu nánast beint upp. Nú var þetta farið að líkjast einhverju sem gladdi mig, eða með öðrum orðum; beykin sem við fluttum í hitteðfyrra höfðu hækkað um allt að 65 sentimetra. áður höfðu þau aðallega breikkað.

Nú er farið að líða á kvöld og mál fyrir smið að fara að sofa þar sem ég ætla að smíða mikið um helgina. Svo vinn ég í Vornesi mánudagskvöldið og fram á þriðjudagsmorgun því að dagvinnutímabili mínu í Vornesi er lokið að sinni, eða þangað til næst eins og forstöðukonan orðaði það þegar ég kvaddi í dag. Á miðvikudag kemur rafvirki til okkar á sólvelli og þá þarf ég að vera búinn að gera ákveðna hluti.

Nóg að sinni, kveðja, Guðjón


Kommentarer
Rosa

Gott að heyra að þið eruð komin í bústaðinni.



Kveðja,



R

2008-08-30 @ 09:03:35
Ármann Sigurðsson

Sæll frændi.



Takk fyrir bloggið.



http://www.facebook.com/



Ef þú skráir þig inn hér getur þú séð nokkrar myndir af okkur.



Kær kv. Ármann

2008-08-31 @ 23:31:34
Guðjón

Sæll frændi! Langt síðan en gaman! Er að fara í vinnu, skoða svo myndirnar.



Kveðja, Guðjón

2008-09-01 @ 10:05:39
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Þórlaug

Ég segi enn og aftur: Mikið er gaman að fylgjast með ykkur á Sólvöllum.



Kveðja til Valdísar.

2008-09-04 @ 19:59:33
Guðjón

Gaman að heyra þórlaug. Sólvellir er góður staður og verður bara betri og betri. Var þar í gær að vinna upp á lofti út undir súð í gamla hlutanum. Fann þá að ég er stirðari við svo þröngar aðstæður en ég var þegar ég var að vinna við svipaðar aðstæður í Hrísey fyrir 40 árum. Fer núna um hádegi á föstudegi til að vinna tvo daga um helgina á mínum gamla vinnustað svo að ég fái gjaldeyri til fjárfestinga á Sólvöllum. Kveðja til Jóhanns.



Guðjón

2008-09-05 @ 09:56:58
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0