Ég hef sem sagt ekki hætt að vinna ennþá

Þegar ég ók heim frá Vornesi einn marsdag árið 2007 fannst mér lífið leika við mig þar sem ég sat bakvið stýrið. Ég var hættur að vinna og ég hlakkaði til ellilífeyrisáranna. Svo var ég hreinn ellilífeyrisþegi í nokkrar vikur og leið afar vel með það. Svo hringdi síminn og Ove dagskrárstjóri, hann sem tók við starfinu mínu, spurði hvort ég gæti komið í vinnu. Ég fór og næstu mánuðina var ég öðru hvoru í vinnu í Vornesi en ekkert í sjálfu sér meira en ég hafði hugsað mér. Síðan varð efnahagshrun á Íslandi og lífeyrisgreiðslur okkar Valdísar þaðan féllu að verðgildi um helming miðað við sænsku krónuna. Eftir það fór ég að vinna á ný í svo sem 65 % starfi og hef gert síðan. Það varð líka allt í einu þessi ógnar þörf fyrir mig í Vornesi á þeim tíma. Ég hætti sem sagt aldrei.

Þrátt fyrir svo mikla vinnu "eftir að ég hætti" varð aksturinn ekki lengur svo afgerandi sem áður hafði verið, enda hef ég oftast unnið nætur þannig að ég hef farið í vinnu í björtu og komið heim í björtu og það munar miklu á ísköldum og snjóugum desemberdegi. Hver nótt sem ég vinn er líka á við rúmlega tvo venjulega dagvinnudaga. Oft þegar ég hef séð til dagskrárstjórans á hans þeytingi varðandi vinnuna hef ég notið þess að vera ekki í sporunum hans. Ef það koma ekki upp óvæntir atburðir á meðferðarheimili sem Vornesi, þá veit ég ekki hvar það óvænta ætti frekar að ske. Það mesta af þessu lendir á dagskrárstjóranum.

Fyrir nokkrum vikum þegar ég var að vinna kom Ove til mín og spurði mig hvort ég væri fáanlegur til að leysa hann af í tvær og hálfa viku. Mín fyrsta hugsun var; ne-hei! aldrei! Svo horfði ég á Ove og sá hvernig hann skrúfaði sig í stólnum og beið eftir svari. Kærastan hans á foreldra í Bandaríkjunum og ég vissi að hún hafði boðið honum þangað og þau áttu að fá alla nauðsynleg aðstöðu hjá foreldrum hennar. Hver mundi ekki vilja þiggja svoleiðis? Hins vegar er ég svo lítill framagosi að dagskrárstjórastaða freistaði mín ekki.

Svo hugsaði ég sem svo að á þessum stutta tíma mundi auðvitað ekkert sérstakt ske sem þyrfti sérstaklega að takast á við svo að þetta yrði leikur einn. Það er í lagi Ove, svaraði ég, og hann spratt upp úr stólnum og fór að sinna sínu. Síðan fór hann til USA og ég í stólinn hans. En svo bara fór það svo að það sem ekki átti að ske, það skeði. Upp kom leiðinda mál og ég varð að takast á við það. Það voru símahringingar fram og til baka, reiðir foreldrar, síðan leiðir foreldrar og að lokum alveg ringlaðir foreldrar. Það var símafundur og umræður og svo bara allt í einu; málið var svo farsællega leyst og allir voru sáttir og ánægðir eftir því sem aðstæður leyfðu.

Ég hugsaði mikið um þetta á leiðinni heim úr vinnu þann dag og líka eftir að ég kom heim og ég var ánægður með sjálfan mig. Eiginlega fannst mér sem ég hefði ekki hætt 2007 og þetta hefði bara verið beint framhald á venjulegri vinnu minni eins og hún var þá. Ég virtist kunna vinnuna mína. Mér fannst líka sem ég hefði tekið þetta af meiri yfirvegun en ég tók hlutina áður.

Svo minntist ég sjónvarpsviðtals við mann nálægt áttræðu, mann sem hafði leitt stórt fyrirtæki og í staðinn fyrir að verða ellilífeyrisþegi í fullu starfi tók hann að sér nýja vinnu í næstum fullu starfi. Hann lifði mjög litríku og ánægjulegu lífi.

"Ég get þetta ekki" eru sorgarorð á hvaða tungumáli sem er. Þetta las ég á Facebook stuttu eftir atvikið sem ég nefndi áðan og er úr bókinni "Vegur til farsældar". Ég geri ráð fyrir að einhver vitur og þekktur maður hafi sagt þetta en ég veit ekki hver eða hvenær. Ég á bók sem heitir "Kyrrð dagsins" og daginn sem fyrrgreint mál leystist í Vornesi segir texti dagsins í þeirri bók: Fátækir menn þrá auðævi, ríkir menn himnaríki en vitrir menn þrá friðsæld. Þessi orð eru höfð eftir manni sem hét Swami Rama og lifði frá 1873 til 1906, indverskur maður.

"Ég get það" en ég er ekki gríðarlega spenntur yfir því að gera það -en ég ætla samt að vinna næstum fulla vinnu síðustu fjóra mánuði ársins. Ég blessunarlega þrái ekki auðævi og ég er ekki ríkur og ég vil sannarlega skipa mér í hóp þeirra sem þrá friðsæld. Hversu vitran ég tel mig vera ætla ég að hafa fyrir sjálfan mig en ég vil gera greinarmun á vitur og gáfaður. Ef ég vinn þessa fjóra mánuði skapa ég betri aðstæður til að lifa friðsælu lífi eftir það og í leiðinni get ég kannski stuðlað að því að barn fái heim pabba eða mömmu, að kona fái heim manninn sinn, eða maður konuna sína. Að velja friðsæla veginn er besta leiðin inn í himnaríkið. Svo á ég svo duglega konu að hún leggur á sig að vera ein heima meðan ég er í vinnu. Ég haga mér dálítið eins og ég hafi loforð um að lifa áfram í áratugi en ég er bara lítill maður og tek því sem mér verður gefið og reyni að spila úr því á minn besta hátt.

Íslenska kreppan teygir sig langt út fyrir landsteinana fyrir suma. Væri ég yngri maður í fullri vinnu fynndi ég ekki fyrir henni. Ég hef möguleika á að takast á við kreppuáhrifin og geri það og því lifum við ekki í kreppu að öðru leyti en því að við verðum vör við umræðuna. Að skrifa þetta hefur verið einskonar sálkönnun fyrir mig. Ég er búinn að taka langan tíma í það og breyta því mikið á leiðinni. Ég hef svo sem enga ástæðu til að birta það en það er alla vega blogg sem inniheldur engin leyndarmál og ekkert sem ég skammast mín fyrir.

---------------------------------------

Ps. Annar indverskur maður að nafni Swami Rama var uppi á árunum 1925 1996. Báðir virðast þeir hafa verið hugsuðir og fræðimenn -vitrir menn. Sá fyrri varð ekki nema 33 ára.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0