Ja, drengur! þetta lítur út eins og bit

Það var nú meira hvað mig klæjaði í hægri fótinn hérna um daginn, alveg frá ökla og rúmlega hálfa leið upp undir hné. Svo voru þarna rauðir flekkir og flekkurinn sem var utan á öklanum var svolítið sporöskjulaga og ljósari innan við næstum blárauða jaðrana. Sá flekkur fékk mig til að taka þetta svolítið alvarlega. Ef ég lét eftir mér að klóra í þessa flekki nálgaðist það brjálæðisástand svo að það var best að láta það vera.

Ég sá á Feisbókinni um daginn að fólk talaði um nýtt snýkjudýr sem væri búið að sýna Íslandi þá virðingu að nema þar land. Það var líka talað um að þetta snýkjudýr gæti alls ekki talist saklaust því að því gætu fylgt sjúkdónmar eins og bórelía og heilahimnubólga. Íslenska nafnið er skógarmítill. Hér í landi heitir þetta snýkjudýr fästingur og er hluti af náttúrunni og afar fáir láta fästinginn meina sér aðgöngu að henni. Á tímabili í sumar voru plokkaðir af mér nokkrir skógamítlar á viku hverri. Ég hef sagt að það sé minni hætta á að skógamítill verði fólki að meini en ferð á milli staða á bíl og það er ennþá mín skoðun.

Ef bórelía fær að setjast að í líkamanum án afskipta getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar. En það er hægt að vera vakandi fyrir því án þess að setja allt á annan endann. Ég hafði samband við heilsugæslustöðina í Fjugesta vegna flekkjanna og kláðans á hægri fætinum og fékk þar tíma hjá hjúkrunarfræðingi fjórum dögum seinna. Þangað kom ég á þriðjudaginn var og settist á biðstofuna. Systir Anna kom fram á biðstofuna eftir stutta stund og leit á mig og spurði ekki hvort ég væri Guðjón. Hún bara leit á mig og bað mig að gjöra svo vel.

Rauður á fætinum eða hvað? Já, svaraði ég og lyfti upp buxnaskálminni og dró lítillega niður sokkinn. Anna skoðaði þetta með ábyrgum svip og sagði svo: Ja, drengur, þetta lítur út eins og bit. Hvers konar bit? spurði ég. Fästingsbit svaraði systir Anna. En hún sagðist ekki vera nógu viss þannig að það væri best að ég hitti líka Dr Ewu. Svo sendi hún Dr Ewu orðsendingu gegnum tölvuna og svo spjölluðum við saman um daginn og veginn svolitla stund. Hún kallaði mig dreng hugsaði ég. Ég tók því sem hrósi og og var harð ánægður með. Systir Anna gat verið einum tíu árum yngri en ég.

Ég var sestur aftur fram á biðstofuna þegar Dr Ewa kom hress og skærbrosandi fyrir horn og leit á mig. Mín fyrsta hugsun var að mikið væri hún þægileg og hjálpleg þessi pólska kona sem var kannski rúmlega fertug. Svo fórum við inn á stofuna til hennar og þar var það sama sagan; upp með buxnaskálmina og niður með sokkinn. Nú varð Dr Ewa alvarleg litla stund og svo sagði hún að systir Anna væri bæði þrá og eftirtektarsöm og það væru hennar bestu kostir. Þetta getur mjög vel verið bórelía sagði svo Ewa og við gerum ráðstafanir út frá því. Þú færð fúkalyf sem eyðir þessu ef það er bórelía en ef það er ekki bórelía skaðar fúkalyfið þig ekki. Ég sé líka að þú notar engin lyf sagði hún ennfremur. Svo gaf Ewa sér svolítinn tima til að spjalla og spurði meðal annars hvort það væri ekkert fleira sem ég vildi láta hana athuga.

Þetta var eiginlega að verða tilbreyting í hversdagsleikanum. Þessar konur voru svo glaðar og hjálplegar og það var einnig unglingurinn frammi í afgreiðslunni sem tók við 80 krónunum af mér og vísaði mér áfram. Þetta glaðværa og hjálpsama viðmót byrjaði satt best að segja frammi í andyrrinu þegar ég var að koma og mætti miðaldra manni sem var á leiðinni út með aldraða konu í hjólastól. Ég opnaði hurðina upp á fullt og hélt henni þannig til að auðvelda þeim leiðina út. Þá sagði sú aldraða glaðlega að ég gæti líka ýtt á hnappinn þarna, þá mundi hurðin haldast opin. Reyndar vissi ég það en ég er víst meira gamaldags en þessi aldraða kona því að ég nota þessa hnappa ekki svo oft.

"Ég sé líka að þú notar engin lyf" sagði Dr Ewa. Reyndar hef ég fengið fólinsýrutöflur út á resept í meira en tvö ár og ég sagði að reseptið væri gengið úr gildi og hvort hún mundi vilja skrifa nýtt. Hún sagði það enga ástæðu að ég notaði þetta meira, alla vega ekki um sinn, og það var greinilegt að hún kallaði fólinsýru ekki lyf. Hún virtist horfa á mig og dæma mig frískann. Þetta var nú að verða aldeilis meiri dagurinn. Það var næstum að verða lán að skógarmítill hafði bitið mig.

Á leiðinni út og á leiðinni heim var ég að velta þessari heimsókn til læknisins fyrir mér. Ég er 69 ára, vinn fulla vinnu sem stendur og ég held að ég kvarti aldrei vegna heilsu minnar. Mér finnst að meðan ég var hvað haltastur fyrir meira en tveimur árum að ég hafi kvartað minna enn nánasta fólkið mitt. Fólk sem ég hitti og hafði farið í mjaðmaaðgerð gaf rosalegar lýsingar á ástandinu. Mér datt stundum í hug að það væri ennþá allt í lagi með mig. Samt skrifaði læknirinn i skýrsluna eftir að gerðina að það hefði alls ekkert brjósk verið eftir. Stundum dettur mér í hug að hugur minn sé of þungur. Og stundum dettur mér í hug að það sé nú meiri árans vitleysan.

Ég hef val. Sé ég spurður hvernig ég hafi það daginn eftir að ég hef barið með hamri í fingur get ég sagt að verkurinn sé alls ekki horfinn -en ég get líka sagt að ég sé mikið betri en í gær. Það er munur á. Eitt sinn fór Valdís til læknis og fékk lyf við einhverju eins og gengur. Þegar við komum heim lagði hún sig. Meðan hún hvíldi sig hringdi kona og ég sagði henni að við hefðum verið hjá lækni og nú hefði Valdís lagt sig. Fékk hún lyf? sagði konan. Já. Hvað heita töflurnar. Ég vissi það ekki. En veistu hvað þær eru mörg milligrömm? spurði hún þá. Nei, ég vissi það ekki heldur. Það er alveg merkilegt að ég skuli ekki vera meira veikur en ég er. Nei, ég er mikið stoltur af heilsu minni. Ég fékk nýjan mjaðmalið en svo er ég líka eldhress.

Fyrir einhverjum mánuðum lét Ewa taka röntgen af hálsliðunum í mér. Svo fékk ég bréf frá henni um það að hálsliðirnir væri gróflega slitnir. Mér brá og einhverja stund fann ég fyrir einhverju mjög ónotalegu og framtíðin varð myrk. Svo hugsaði ég sem svo að ég hefði alls ekki vitað af þessu utan að ég dofnaði í vinstri handlegg. Átti ég þá að fara að verða veikur í hálsinum bara vegna þess að ég vissi að hálsliðirnir væri slitnir? Neei! Svolítið er ég stirður í hálsinum en dofinn í vinstri handlegg hvarf fyrir mörgum vikum. Hugur minn er ekki þungur.

Skógarmítill hagar sér þannig að hann stingur í húðina þar til hann fær blóð. Síðan festir hann sig við staðinn og hefur það gott. Hann stækkar hratt, það kemur lítill rauður blettur í kringum hann og oft má sjá hvernig hann spriklar með fótunum ef hann fær að vera nógu lengi í friði og stækka. Það klæjar í blettinn. Skógarmítill deyr fullur því að hann er baðaður í spritti áður en hann er fjarlægður með töng. Eftir áramót fer ég í bólusetningu við heilahimnubólgu þannig að ég á ekki að geta smitast af henni gegnum skógarmítla.

Góðar stundir

Ps. Valdís er búin að taka bláber út úr frystinum og hún er búin að taka utan af granatepli. Það verður góður og hollur eftirréttur í kvöld.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0