Í dagsins önn

Þann 21. ágúst talaði ég um hann Arne sem gekk frá frárennslinu hjá okkur árið 2006. Þá var hann 62 ára og við 64 ára. Tilefnið til þess að ég nefndi hann þarna um daginn var að frárennslið hætti allt í einu að virka. Þegar Arne var hjá okkur 2006 hafði hann erfiðleika með hjartað. Það var eins og það væri allt í lagi meðan hann var upp í gröfunni sinni en þegar hann þurfti að gera eitthvað með skóflu eða járnkalli á jörðu niðri varð annað uppi á teningnum. Einhverjum árum eftir að hann vann þetta hjá okkur vantaði okkur mold og Arne færði okkur mold. Hann kom aðeins inn hjá okkur og maðurinn leit mikið betur út en áður. Skýringin á því var sú að hann hafði fengið hjártaáfall og í framhaldi af því var hann látinn fara í hjartaaðgerð sem gerbreytti heilsu hans. Hann er nú búinn að vera ellilífeyrisþegi á þriðja ár.

Nú var það svo að ég leitaði til Arne þegar frárennslið hætti að virka og leitaði ráða hjá honum. Hann sagði að hann skyldi bara koma í heimsókn og líta á þetta með mér. Ég var þá búinn að grafa holur sem gerðu okkur mögulegt að rannsaka málið svolítið. Ég sagði honum einnig að við þyrftum knnski á líttilli gröfu að halda, lítilli vegna þess að við vildum ekki skemma umhverfið með stóru tæki. Arne sagðist skyldi sjá um það. Hann ætlaði bara að fara í sumarhúsið sitt sem er sunnan við Gautaborg og vera þar í eina viku. Svo skyldi hann koma. Eitthvað hefur gert það að verkum að mér hefur alltaf verið hlýtt til þessa manns, allt frá því að við hittumst fyrsta sinni.

Vikan leið og ekkert heyrðist frá Arne. Við höfðum fullt að gera þannig að við rákum ekki á eftir. Svo leið önnur vika og ekkert heyrðist frá honum þá vikuna heldur. Haustrigningarnar byrjuðu að ganga yfir ein af annarri og jörðin varð mjúk af bleytu og áfram liðu dagarnir. Hátt í þrjár vikur voru nú liðnar og þá hringdi Valdís til mín í vinnuna og sagði að Arne hefði komið. Hann hafði litið í holurnar sem ég gróf og sagðist svo koma daginn eftir þegar ég yrði heima. Þegar hann kom daginn eftir og við gengum út að holunum var komið talsvert vatn í þær eftir rigningu næturinnar.

Við spígsporuðum þarna og skeggræddum og skipulögðum framhaldið. Báðum var okkur ljóst án þess að ræða það að þarna yrði engri gröfu beitt fyrr en næstsa sumar. Þetta yrði allt að gerast með skóflu. Arne leit á mig meðan við vorum þarna úti og sagði með hluttekningu að hann hefði ekki líkamlega burði til að hjálpa mér við það. Ég sagði sem var að mér hefði aldrei dottið það í hug, ég hefði bara viljað leita ráða hjá honum sem reynds manns í faginu. Svo fórum við inn til að líta á teikninguna sem ég gerði af sandsíunni eða sandbeddanum á sínum tíma þegar umsóknin var send inn til umhverfisnefndarinnar.

Meðan við sátum frammi við matborðið tók ég eftir því að Arne var svolítið álútur og ég spurði hvernig vikan hefði verið í sumarhúsinu. Hann svaraði því til að það hefði ekki orðið nein vika í sumarhúsinu þar sem sonurinn, sem er rúmlega þrítugur, hefði verið svo veikur. Nú, hvað hafði komið fyrir hann? Jú, svaraði Arne, hann var skorinn upp vegna heilaæxlis snemma í vor og síðan hefur hann búið hjá okkur gömlu. Hann getur fengið flog og má alls ekki vera einn. Hann er búinn að vera í gríðarlega mikilli geislameðferð og mótstöðuaflið er mjög lágt. Svo fékk hann kvef sem hann varð mjög veikur af í hálfan mánuð þannig að það varð ekkert sumarhús.

Þetta var nú bara einum of mikið og ég tók upp annað umræðuefni og spurði hann hvort hann ynni mikið ennþá. Hann sagðist vinna talsvert en ekki eins mikið eftir að hann varð ellilífeyrisþegi. Ég spurði hann hvort hann ætti gröfuna ennþá og hann sagði svo vera. Hins vegar sagði hann að hún væri ónothæf eftir að hafa farið á hvolf ofan í skurð. Ja hérna. Hann sagðist hafa verið að dýpka skurð í Hakkvads Via og bóndinn hefði gert kröfu til að hann setti efnið hinu megin við skurðinn og þar að auki yfir hestagriðingu sem var þar. Venjulega setjum við efnið sömu megin við skurðinn og grafan er sagði Arne og svo var það þessi girðing. Skurðbakkinn gaf sig og grafan fór á hvolf. Ég hefði ekki átt að hlýða kallinum. Hann gat sjálfur tekið sig út úr gröfunni en hún var mikið skemmd.

Það var því ekki von að Arne hefði komið á tilsettum tíma og það var ekki við neinn að sakast. Í gær var ég á kafi í skurðgrefti með skóflu og járnkall og planka til að vega upp steina. Svo kom Valdís og setti sig á plankann meðan ég hlóð undir steininn og svo var bara að lyfta aftur. Svo var steinninn brátt á bakkanum. Þannig leið gærdagurinn og ég var eiginlega orðinn mikið hissa á hvað ég hélt lengi út. Ég vonaði að klukkan hefði stoppað og tíminn með. Svo kallaði Valdís út og spurði hvort ég ætlaði ekki að fara að hætta, klukkan væri hálf átta. Það lá við að ég reiddist yfir því að vita hvað klukkan væri orðin mikið. Svo fór ég inn. Mér var oft hugsað til Arne meðan á þessari jarðvegsvinnu stóð. Það var mikið sem á hann hafði verið lagt að undanförnu.

Ég lagði mig full seint í gær eða rétt fyrir hálf tólf. Svo svaf ég í einum dúr til klukkan sjö í morgun. Þá vaknaði ég til að velta mér á hina hliðina og svaf til klukkan átta. Þá leit ég á allar tilgengilegar veðurspár og þær gerðu ráð fyrir því að það færi að rigna upp úr hádegi. Ég ákvað að byrja eftir sjónvarpsmessuna. Valdís sagði að ég hefði hrotið miskunnarlaust í nótt, engum kæfisvefni, en þessum jöfnu malandi hrotum sem geta farið með allar meðalmanneskjur á taugum sem á þurfa að hlýða. Það finnast eyrnatappar á heimilinu og það hjálpar vissulega.

Svo byrjaði sjónvarpsmessan sem var kynnt sem norræn messa og var sjónvarpað frá Sundsvall. Það voru sálmar, og meira að segja var líka dansað. Hvít kona og hálfdökkur maður dönsuðu, fólk af ólíkum þjóðernum var með í tónlist og þetta var í fyrsta skipti sem mér fannst dans við messu bara allt í lagi. Erkibiskupinn sem gaf okkur Valdísi oblátuna í Uppsaladómkirkju um næst síðustu jól predikaði. Hann talaði alvarlega, ekki af svartýni, en hann flutti hins vegar fagnaðarboðskap af alvöru. Hann talaði um hið mannlega samfélag þar sem válegir hlutir ske og hann talaði um að fulltrúar hins góða verði fyrir áföllunum ekki minna en aðrir. En Guð er nálægur sagði hann. Hann sagði að Jesús hefði gefið loforð; að hann yrði að eilífu með öllum sem tækju móti skírninni í hans nafni. Svo var Faðir vorið sungið og það var líka í fyrsta skipti sem mér fannst það fallegt.

Ég stóð upp áður em messunni var lokið þar sem mér lá á í skurðgröftinn áður en rigningin hæfist. Ég þurfti að þurrka mér undir vinstra auganu og það hægra var líka eitthvað vott bakvið augnlokin. Ég fékk mér vatn að drekka, skipti um föt og svipti upp útihurðinni -það var byrjað að rigna. Þá fór ég í regnjakka og dreif mig síðan ákveðið niður í skurðinn til að skrapa í drullunni. Ég vonaði að Jesús væri með mér þó að ég hefði farið frá messunni áður en hún var búin. Ekki kom hann með skóflu en mér fannst þetta allt í lagi þrátt fyrir að allt væri blautt og drullugt og lyktandi ögn af klóaki. Verkið sóttist sæmilega og að lokum horfði ég á rennslið koma undan sanddýnunni eins og það á að gera. Síðan breytti ég heilu röri í framrærslurör með því að bora á það gríðar mörg göt og ég sá vatnið frá dýnunni renna inn í þetta drenrör. Síðan fyllti ég yfir með möluðu grjóti og allt byrjaði að líta vel út.

Verkið er hálfnað og það verður aðveg dásamlegt þegar því verður lokið. Heil mikil vinna en með jákvæðu hugarfari er þetta bara nauðsynleg vinna sem tekur enda. Samt alls ekki neitt eftirsóknarvert. Ánægður er ég með að hafa heilsu til að gera svona hluti. Ég fæ tvo frídaga um næstu helgi og vissulega vona ég að það verði þurrt. Þegar ég hætti klukkan fjögur bauð Valdís upp á síðdegiskaffi sem bara gat kallast veisla. Og gúllasið sem hún bauð upp á í kvöldmat var líka veisla. Mínar raunir voru litar miðað við það sem Arne stóð í og ég verð að segja að messan fylgdi mér allan daginn.


Fyrstu föturnar af mulningnum komnar á rörið og mörg göt eru komin á það. Síðan er bara að hreinsa af næsta meter og koma með nýjar fötur af mulningi. Síðan gekk að sturta beint úr hjólbörunum. Sandbeddinn er vinstra megin. Ástæðan fyrir öllu saman var að þegar verið var að koma frárennslinu frá nýja húsgrunninum út í skurð í fyrrahaust grófu þeir í sundur rör. Þeir spurðu mig hvort ég vissi hvaða rör þetta væri. Ég sagðist ekki vita það og engum datt í hug framræslurörið frá sandbeddanum. Svo var það nú samt. Þeir settu venjulegt frárennslisrör (drenrör) í staðinn og enginn gáði að því hvort rörið sem þeir grófu burt væri með vatnsraufum.


Sjáið bara hvað fínt það varð. Fimm metrar eru búnir og fjórir eru eftir. Nei, þetta lítur ekki sóðalega út.

Ps. Það sem ég sagði um messuna og áhrif hennar var ekkert grín heldur full alvara. Og svo; ég veit að það var minna skrifað um byggingu Hörpunnar en framkvæmdir okkar á Sólvöllum.


Kommentarer
Rósa

Duglegur þú! Er hægt að setja mynd á Flipper þar sem maður sér aðeins meira, þ.e.a.s. hvar þetta er?



Og svo datt mér í hug að þú værir heppin að hafa verið á staðnum þegar "ruglið" átti sér stað.



Kveðja,



R

2011-09-12 @ 08:41:23
Guðjón

Myndina skal ég taka og senda.



Að hafa verið á staðnum skiptir kannski ekki öllu máli. Ég varð þátttakandi í ruglinu sjálfur. Það er ósýnilegur munur á frárennslisröri sem dregið er upp úr jörð og framræsluröri við sömu aðstæður. Annað er með örmjóum raufum en hitt er heilt. Ég sýndi þessu lélegan áhuga þá og datt ekki í hug afleiðingarnar. Ég hefði átt að segja að það væri þeirra að greiða úr þessu og fara svo. Ég var að koma heim úr vinnu og hafði ekki verið sjónarvottur að því hvernig allt fór fram. Ég hefði líka getað fellt eitt tré til að komast lengra frá sandbeddanum.



Kveðja,



pabbi afi

2011-09-12 @ 09:55:50
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0