Stokkhólmsferð síðustu helgina í september

Við lögðum af stað heim frá Stokkhólmi um  hádegisbil i dag, þriðjudag, og ætluðum að stoppa eftir þriðjung leiðarinnar heim og taka olíu og fá okkur kannski eitthvað að drekka. Þegar við komum á þennan ákveðna stað var Valdís sofnuð og mér fannst ekki spurning um að við héldum áfram á stað þar við yrðum komin tvo þriðju hluta leiðarinnar. Þegar þangað kom ákváðum við í sameiningu að fara bara alla leið og taka olíu í Örebro þegar við værum næstum komin alla leið heim. Þessi síðasta ákvörðun gekk eftir. Síðustu 20 til 30 kílómetrana varð mér mikið hugsað til þess hversu "rosalega" það yrði notalegt að koma heim og fá sér svolítið í svanginn.

Svo þegar heim kom fengum við okkur fiskisúpu, harðfisk, jógúrt og að lokum kaffi og mjólkurkexið gamla ferkantaða frá Íslandi. Valgerður kom nefnilega færandi hendi og okkur datt ekki í hug að taka það upp fyrr en við værum komin heim. Svo vorum við mett og svo voru nokkur atriði sem við þurftum að sinna og nú er ég sestur hér við tölvuna og byrjaður að blogga. Það er eins og fyrri daginn að ég get ekki þagað yfir neinu.


Upp úr klukkan níu á sunnudagsmorgun lögðum við Valdís af stað til Arlanda til að taka á móti Valgerði dóttur okkar sem var að koma í stutta heimsókn til Stokkhólms. Við vorum vel í tíma og gátum fengið okkur bláberjapæ með kaffibolla á flugvellinum áður en fólk frá Íslandi fór að tínast inn í gegnum tollinn. Vert þú með myndavélina sagði Valdís og svo stilltum við okkur innan við innganginn. Og þarna kom Valgerður og mamma hennar hálf hljóp á móti henni og ég smellti af mynd. Svo héldum við með það sama af stað til Stokkhólms.


Þegar við höfðum heilsað upp á fólkið, fengið okkur gott kaffi og góðgæti með því átti að skipta um föt á barnabarninu Hannesi Guðjóni. Hann slapp frá smá stund og það stóð ekki á því að hann byrjaði að atast í afa sínum og reyndi að hræða hann með hestinum sem amma gaf honum um daginn. Afi var auðvitað skíthræddur við hestinn og Hannesi fannst það alveg dásamlega gaman.


Þessi atburður var tekin á filmu og Valgerður móðursystir fylgdist með. Hannes var dálítið á varðbergi móti henni til að byrja með og vildi fá tilfinningu fyrir þessari frænku sinni áður en hann gaf sig nokkuð á hennar vald.


Það var aðeins meiri friður yfir fyrsta fundinum milli Hannesar og ömmu en það var milli Hannesar og afa. Þessar ömmur eru þannig að litlir drengir vilja gjarnan halla sér móti þeim og bara finna fyrir mannlegri hlýju.


Það kvöldaði og Pétur stóð í eldhúsinu og annaðist matargerð með aðstoð hjálpsamra handa. Ég, sjálfur afi, reyndi að vera aðeins með í þessu og lagði á borðið. Svo var að taka mynd. Hannes hjúfrar sig að mömmu með handleggina um háls hennar, mæðgurnar sitja hlið við hlið og Pétur fylgist með þessu fólki sem á rætur að rekja til Hríseyjar. Þegar ég var búinn að taka tvær myndir færði ég diskinn minn og tók mér sæti við endann móti Pétri. Svo borðuðu allir glaðir.


Nóttin milli sunnudags og mánudags var að baki og við fórum í bæinn en Pétur í vinnuna. Hannes var byrjaður að kynnast frænku sinni frá Vestmannaeyjum og svo brugðu þau á leik á gangstéttum Stokkhólms, mamma, Hannes og Valgerður frænka. Afi gamli varð að hálf hlaupa til að geta verið á undan og tekið myndir og amma átti fullt í fangi með kerruna að hafa við þessu fríska fólki. Það var gaman, gaman.


Við komum við á leikvelli þar sem Hannes og fjölskylda eru tíðir gestir. Hannes var eins og heima hjá sér og þarna er hann skipstjóri og stendur framan við brúna og kynnir fleyið sitt fyrir konunum sem eins og áður eiga rætur að rekja til Hríseyjar, eyjarinnar þar sem sænsku síldarhúsin stóðu áður og fiskur var og er dreginn að landi og gerður að gjaldeyri. Sænsku húsin sagði ég, og þarna erum við á sænskri grund og í nánum tengslum við landið sem eitt sinn byggði hús í eyjunni þar sem við öll eitt sinn bjuggum.


Doktorinn frá Hrísey settist á bak fílnum á leikvellinum meðan sonurinn lék sér undir eftirliti ömmu og Valgerðar frænku.


Skömmu síðar vorum við komin að afar blaðfögru kastaníutré og forstöðumaður Visku í Vestmannaeyjum, einnig frá Hrísey, ásældist ávexti kastaníutrésins og hristi greinar þangað til ávextirnir féllu niður. Innan í þessum ávöxtum eru fallegar hnetur og nokkrar þeirra voru settar í plastpoka til að skoða síðar. Svona hnetur eru seldar í Svíþjóð fyrir jólin.


Svo auðvitað komum við í heimsókn til "höfuðstöðva" Pinkpuffin, fyrirtækisins hennar Rósu. Þetta er líka vinnustaður Péturs þegar hann er ekki í Uppsala eða að kenna við háskólann þar, og einmitt þennan dag var hann að vinna þarna. Þeir sitja þarna við tölvu feðgarnir Pétur og Hannes Guðjón. Hannes er ennþá svolítið minni og því í hvarfi við föður sinn. Þrjár mæðgur eru þarna innst í salnum.


Bíddu nú við? Hver er ekki þarna á hlaupum fyrir miðri mynd á miðju Sergilstorgi, aðaltorginu í Stokkhólmi. Heyrðu, það er enginn annar en barnabarnið mitt hann Hannes Guðjón Pétursson. Mikið var hann búinn að hreyfa sig og hlaupa þennan dag þessi drengur. Ég var nú bara svolítið öfundsjúkur.


Það var dags að fá sér sæti og góðan kaffibolla. Við fengum okkur kaffibolla þarna á kaffihúsinu hans Magnúsar Jökulssonar frá Islandi. Við höfðum ekki verið á Rhodos, Kanarí eða Mallorca. Við höfum bara verið á rölti á götum Stokkhólms, heimalands flestra okkar sem vorum þarna saman komin þennan dag. Stundum varð ég ögn latur á göngunni en svo sagði einhver eitthvað eða eitthvað bar fyrir augu sem kom mér í gang að nýju. Þegar ég nú hugsa til gærdagsins þarna á götum Stokkhólms finnst mér sem þetta hafi verið einn virkilegur sólskinsdagur. Ég veit ekki hvernig minningin mundi vera frá Rhodos, Kanarí eða Mallorca, en minningin um þennan Stokkhólmsdag er afar góð.

Ps. Það voru margar myndir að velja úr. Hún Valdís kemur líka til með að setja myndir á Flickrsíðuna sína.


Kommentarer
Anonym

Þetta er góð skýrsla um veruna í Stokkhólmi. Við Valgerður fórum til Ushu í gær og borðuðum góðan mat. Og núna er ég í lest á leið til Gävle.



Kveðja,



R

2011-09-28 @ 08:13:43
Guðjón

Gangi þér vel í Gävle.



Kveðja,



pabbi

2011-09-28 @ 08:37:59
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

og ég að loka töskunni og tölvunni og á leið út á Arland.

2011-09-28 @ 12:41:00
Anonym

Gangi thér vel í Króatíu Valgerdur mín.



Kvedja,



pabbi

2011-09-28 @ 18:10:47


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0