Það var bellís sem lýsti upp lífið

Ég kom heim úr vinnu rétt fyrir hádegi í gær, fimmtudag, og taldi mig þokkalega á mig kominn þó að ég hefði ekki sofið meira en tæpa fimm tíma. Það voru líka margir í húsinu og það voru óvenju margir ónógir sjálfum sér kvöldið áður þannig að það var mörgu að sinna. Ég var ánægður með sjálfan mig fyrir að vera svo hress, ég segi ekki montinn, en vel ánægður.

Seinni partinn í gær skiptist veður í lofti og ég varð þreyttur. Í gærkvöldi ætlaði ég því einfaldlega að horfa á sjónvarp og slappa vel af. Ég horfði ekkert á sjónvarp en svaf og hraut sessunaut mínum væntanlega til mátulegrar ánægju. Ég undurbjó mig því einfaldlega fyrir að leggja mig í rúmið en vantaði þó eiginlega burði til þess. Mér tókst þó að ljúka því sæmilega af og þegar ég lagðist á koddann um tíu leytið ákvað ég að láta klukkuna ekki hringja þó að rafvirkinn Patrik ætlaði að koma um hálf áttaleytið að morgni til að ljúka hér nokkrum smáverkefnum. Svo sofnaði ég.

Nokkrum sinnum rumskaði ég í nótt og var ekki nógu ánægður með svefninn. Þegar mér fannst morgun vera að nálgast leit ég á klukkuna og sá þá að koma rafvirkjans nálgaðist óðfluga. Klukkan var að ganga átta. Ég dróst lúinn fram úr rúminu og ákvað að líta í tölvuna og vakna yfir nokkrum fyrirsögnum á RÚV.is og Eyjan áður en ég gerði fleira. Fyrirsagnirnar voru um vitlausar ákvarðanir, ósætti, uppsagnir og vandræði. Ég tók ákvörðun um að steinhætta að opna RÚV.is á morgnana því að það væru bara óþægilegar fréttir að hafa þar. Ég var alls ekki í góðu skapi fann ég og ætlaði að bæta það á annan hátt -vera jákvæður.

Þegar ég var búinn að draga upp um mig sokka og buxur og girða niður skyrtuna sá ég að ég mundi fá svolítinn tíma til að undirbúa komu rafvirkjans því að hann kom greinilega ekki á tilsettum tíma. Ég sagði honum líka í gær að það væri í lagi mín vegna. Svo fór ég út með umbúðir til að setja með öðru rusli á kerruna. Það var hrein veðurblíða en þó ekki bjart yfir. Ég komst ekki hjá því að skynja það þrátt fyrir allt. Svo sneri ég mér frá kerrunni til að ganga til baka og þá skeði það.


Þessi bellis, önnur uppskera þessa árs, blasti við mér þarna í grængresinu og smáranum í hinni sönnu haustblíðu. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að eyða deginum í fýlu. Svo lítið blóm, aðeins á stærð við lítið auga, tekur völdin og segir að dagurinn sé góður. Svo verður hann góður.

Patrik kom og eitt og annað smávegis komst í lag og það breytti svo miklu hér heima. Gaman. Patrik var ekki alveg á sömu fleygiferðinni og oft áður, en hann vann verk dagsins af iðjusemi. Með hádegismatnum smakkaði hann á harðfiskinum sem Valgerður færði okkur um daginn og hann alla vega fölnaði ekki, en hann sagði heldur ekki að hann væri sérstaklega góður. Svo fékk hann sér aðra smá flís og svo vann hann klárt það sem fyrir lá að gera.

Lars eldri og Lennart litu við í hinni daglegu gönguferð ellilífeyrisþega byggðarlagsins. Lars var með æxli í höfðinu og hluti af því var fjarlægður á sjúkrahúsi í Uppsala í vor. Hann var aftur orðinn stöðugur á göngu og nánast búinn að eindurheimta jafnvægið. Við Lennart skoðuðum útihurðina sem var svolítið föst í karminum. Hann skrapp þá heim og sótti sérstök áhöld og svo lagfærði hann hurðina. Góður kall Lennart og það er ekki í fyrsta skipti sem hann er okkur hjálplegur. Svo töluðum við um Jämtland og sumarhúsið hans þar. Hann fékk stjörnur í augun að vanda þegar talið berst þangað. Þegar allir voru farnir fórum við Valdís út að anda að okkur veðurblíðunni. Valdís fór að slá og ég fór að bera alls konar greinar í gryfju út í skógi.

Ég sagði í bloggi um daginn að "ég gæti það" en ég væri ekki spenntur fyrir því. Það er að segja að vinna fulla vinnu í fjóra mánuði. Stundum verkar það vera afar mikilvægt sem ég inni af hendi í vinnunni og stundum er það bara mátulega mikilvægt. Það var afar mikilvægt sem ég ann af hendi í fyrradag og í gærmorgun, það sem gerði mig svo þreyttan. En nú er það búið og gert og það eru nýjir dagar framundan. Það er einn ákveðinn dagur sem ég verð að fá fyrir okkur sjálf og fá þá frí í vinnu. Það er síðasti vinnudagurinn af þessum fjórum mánuðum. Það er föstudagurinn 30 desember.

Þann dag erum við Valdís búin að vera gift í 50 ár. Þetta ræddum við í dag og þegar ég var í einni ferðinni út í skóg með fangið fullt af greinum datt mér í hug það sem stendur í Heimsljósi um öldruðu hjóninn á Giljum þegar Ólafur Kárason gekk fram á þann bæ sem hann  vissi ekki að væri til. Þegar við hættum úti tók ég fram Heimsljós og las.

"Þegar bóndinn var spurður hve leingi hann hefði búið, leit hann á konu sína og sagði:
Mamma, hvað eru árin orðin mörg?
Við höfum hokrað hérna í rösk fjörutíu ár pabbi minn, sagði konan.
Þá svaraði bóndinn gestinum og sagði:
Og fjörutíu höfum við bollokað árin."

Og ég gat ekki að mér gert að lesa svolítið meira og þá næstum því í bókarlok og það er sama kona sem þar er talað um.

"Þegar börnin hennar gáfu upp öndina eftir erfitt dauðastríð færði hún þau í hvítan hjúp og slétti úr hverri fellíngu með samskonar umhyggju og hún væri að búa til veislu. Hún grét þegar hún stóð yfir moldum þeirra, síðan fór hún aftur heim til þeirra sem lifðu. Önnur kvaddi hún í túngarðshliðinu þegar þau lögðu á stað útí heiminn. Beinunum af Helgu dóttur hennar skolaði upp á eyri rúmu ári eftir að hún hvarf. Gamla konan gekk sjálf á eyrina og tíndi upp beinin, og það voru önnur lítil bein, hún saumaði utanum þau öll og lagði þau í kistustokk og fylgdi þeim til grafar og gekk síðan aftur heim til að elska þá sem lifðu. Í þessu húsi ríkti elskan. Þannig var mannlífið að eilífu stærst, - brosa með barni sínu þegar það hlær, hugga það þegar það grætur, bera það dáið til moldar, en þerra sjálfur tár sín og brosa á nýaleik og taka öllu eftir röð án þess að spyrja fram eða aftur; vera öllum góður.
Þegar ég lít yfir mína umliðnu ævi, sagði gamla konan, þá finnst mér það hafi allt verið einn langur sólskinsmorgunn."

Hvað segir maður svo. Að sjálfsögðu byrja ég sjálfur að vera hljóður. Ég geri ráð fyrir því að skáldið hafi talað út frá því sem hann vissi að hefði verið líf margra. Lífið er sterkt og heldur áfram þó að oft blási á móti. Þegar ég hugsa til gömlu konunnar hef ég hef haft svo gott líf að ég hef ekki leyfi til að vera í morgunfýlu. Þeir sem standa fyrir hinum endalausu neikvæðu fyrirsögnum hafa heldur ekkert leyfi til að haga sér eins og þeir gera.

Þegar ég var að skrifa þetta ætlaði ég að lesa vísdómsorð dagsins í dag í bókinni Kyrrð dagsins. En ég rakst á vísdómsorðin frá 19. september og gat ekki sleppt þeim. Þau minna mig á að ég fann bellis út á lóð í morgun. Þau eru sögð af E. B. White ( 1899 - 1985) og hljóða svo:

"Sólargeisli er lýsir inn í rökkrið, ljúfir tónar, angan úr hálsakoti ungbarns. . . .
Þetta er það sem skiptir máli í lífinu."

Þetta skipti gömlu konuna á Giljum máli og það skiptir okkur öll máli og ætti að minna okkur á hugtakið "gildismat".


Kommentarer
Þórlaug

Takk Guðjón.



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2011-10-01 @ 13:05:31


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0