Frá Kóreu til Afganistan

Undir kvöldið í gær horfði ég á glefsur úr minningarathöfn um þá sem dóu í árásinni á tvíburaturnana í New York. Þetta var afar falleg og löng athöfn og miklu kostað til. Margir grétu innilega þegar Paul Simon spilaði á gítar og söng og grátandi fólkið var sýnt í nærmynd. Alvörugefnir fyrrverandi og núverandi ráðamenn gengu prúðbúnir um marmarann og voru súmmaðir inn.

Ég varð snortinn af ýmsu sem ég sá þessa stuttu stund sem ég horfði á sjónvarpið. Svo talaði ég um það við Valdísi að það þyrfti að minnast margra sem hefðu dáið í Kóreu, Víetnam, Írak, Afganistan og í öllum stríðunum sem Bandaríkjamenn hefðu háð þar á milli. Til hvers voru öll þau stríð og voru þau öll réttlætanleg? Ég hef alla vega mínar hugmyndir um það.

Stuttu eftir að ég sagði þetta kom glefsa úr viðtali sem fram fór á sama tíma í sjónvarpssal SVT1. Þar var talað við Mona Salin og sænskan rithöfund sem heitir Jan Guillou. Og viti menn; Jan hélt nákvæmlega því sama fram og ég og hann hafði sínar hugmyndir um það líka.

Ég man vel eftir því fyrsta af þessum stríðum sem ég nefndi, Kóreustríðinu, og mikið var ég hræddur þegar pabbi og Sigmundur frá Núpum ræddu um það og spáðu í hvort þetta stríð mundi leiða til þriðju heimstyrjaldarinnar. Þeir áttuðu sig ekki á því að ég, smá strákur, var með stór eyru þar sem ég lék mér í kringum þá þegar þeir unnu við að slá upp steypumótum fyrir súrheysturni heima á Kálfafelli. Það var langt á milli Kálfafells og Kóreu en hræddur var ég samt og dreymdi vonda drauma á nóttunni. Hvernig voru þá draumar barnanna í Kóreu og kringum vígvelli allra styrjalda síðan.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0