Glósubók

Seinni partinn í gær atti sér stað langþráður atburður hér á bæ. Ég tók mér bók í hönd í bókaskáp í nýja herberginu og lagði hana á skrifborð sem er þar inni. Síðan sótti ég eitt blað af ljósritunarpappír, sænsk-sænska orðabók og að lokum penna. Síðan settist ég við skrifborðið og byrjaði að lesa. Þar áður var ég búinn að vera all langa stund í erindum í Fjugesta og svo auðvitað var svolítil vinna við fasteignina líka búin að vera í gangi um miðjan daginn.

Ég sagði að þetta hefði verið langþráður atburður og ég meina það. Ég er oft búinn að blogga um það þegar ég sest í Varsam stól í nýja herberginu með bók í hönd og byrja að lesa góðar bækur. Það hafa verið stærstu verðlaunin sem fundist hafa í mínum huga eftir byggingarvinnu undanfarinna ára. Ég er aðeins að byrja að smakka á þessu. En ég held að ég verði að útskýra þetta með Varsam stólinn. Inn í Örebro er verslun sem heitir Varsam. Varsam selur margs konar hjálpartæki svo sem hækjur og stafi. Þar keypti ég göngustafinn sem ég gekk með síðustu mánuðina fyrir mjaðmaaðgerðina.

Varsam selur líka stóla sem eiga vel við eldra fólk og fólk sem hefur til dæmis fengið nýjan mjaðmalið. Stólarnir eru í fyrsta lagi góðir að sitja í og svo eru þeir frekar háir og með háum örmum sem eiga að vera til hjálpar fyrir þá sem meiga ekki og geta ekki reist sig upp úr stól nema styðja sig við góða arma. En nú er það bara svo að ég er alls ekki nógu gamall til að þurfa þetta og ég er svo frískur eftir mjaðmaaðgerðina að Varsam stóll er með öllu óþarfur fyrir mig. Við eigum alveg skínandi góða stóla sem eru góðir fyrir bókalestur. Valdís segir hins vegar að það komi að því að hún vilji stól frá Varsam.

Aftur að bókalestri. Það er langt síðan ég ákvað að lesa þessar bækur á sænsku og um leið að auka sænskukunnáttu mína. Þá á ég við að auka orðaforða minn og svo að hreinlega fá betri tök á málinu. Ég get talað reiprennandi í Vornesi allt sem ég þarf að segja og haft samtöl við fólk án nokkurra hnökra, en ef ég kem í allt annað umhverfi og er með allt öðru fólki kemur fyrir að það verði hnökrar á tjáningaskiptunum. Bjarni Steingrímsson fyrrum leikari og leikstjóri sagði mér forðum tíð að hvorugur okkar gæti átt von á því að komast jafn langt í sænskunni og á okkar gamla móðurmáli.

Það eru allt of margir, hef ég heyrt hjá sæsnkukennurum, sem komast á það stig að geta skilið og geta tjáð sig þannig að það dugi svo sem og verða þar með ánægðir og hætta að æfa nýja tungumálið. Ég hef aldrei sætt mig við það, ég vil halda áfram. Ég vil líka geta skrifað nokkuð óhindrað á sænsku og geta gert mér grein fyrir því hvort það er þokkalega skrifað eður ei. Ef ég er ekki að flýta mér skrifa ég að vísu jafn vel eða betur en margur Svíinn og það er vegna þess að ég hef nánast aldrei stoppað í sænskunámi mínu. Nánast aldrei stoppað er kannski full mikið sagt því að ég hef ekki æft mig af ásettu ráði síðustu tvö til þrjú árin. Samt er ég þó alltaf að læra meðan ég tjái mig við fólkið í þessu landi.

En aftur til bókarinnar um Ayla, Þjóð bjarnarins mikla, sem við lásum löngu áður en við fluttum til Svíþjóðar ásamt öðrum þeim bókum sem þá höfðu verið skrifaðar um Ayla. Í minningunni voru margar lýsingar í þessum bókum sem ég hreifst af. Lýsingar á fólki, atburðum og landslagi. Í minningunni fannst mér sem ég væri með á ferðalagi, ég stæði andspænis manneskju og ég upplifði landslagið þannig að ég mundi geta þekkt það að nýju ef ég sæi það. Svo þegar ég byrjaði að lesa í gær og aftur í dag sýndist mér sem þetta væri í gildi ennþá. Til dæmis þegar höfundurinn lýsir trjánum á gresjunni hinu megin árinnar segir hún eitthvað á þessa leið: "Þau fáu tré sem stóðu þar, snúin og skæld af vindinum, á þann hátt sem þau hefðu stoppað mitt í hreyfingu, gáfu bara frekari dýpt í landslagið og undirstrikuðu áhrifin af tómleika." Ég hefði ef til vill átt að velja bók eftir eitthvert nóbelskáldanna en ég er ekki kominn þangað ennþá. :)

Svo tók ég með blað til að skrifa á og orðabók. Ég er aftur byrjaður að glósa eins og í Skógaskóla haustið 1956. Eftir helgina ætla ég að kaupa mér skrifblokk og skýra hana glósubók. Ný tíð er runnin upp.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0