Myglustopp

Það er letidagur á Sólvöllum í dag þannig að ég hef ekki einu sinni farið í vinnugalla og þaðan af síður gert nokkurn skapaðan hlut og það er komið hádegi. Við skruppum til Örebro í morgun þar sem Valdís fór til heyrnartækjatæknis (þetta orð varð til bara núna í augnablikinu, fínt orð eða hvað?). Þar átti að fara yfir stillingu á heyrnartækjunum hennar og svo átti hún að fá eitthvað sem hér er kallað slynga og er haft undir púða í stólnum þar sem horft er á sjónvarpið. Svo á Valdís framvegis að geta horft á sjónvarpið og hafa svo hátt sem hún vill án þess að ég heyri nokkuð. Oft er það svo að ég vil ekki horfa á sjónvarp en ég heyri þá gjarnan í því gegn vilja mínum. Við þekkjum fólk sem hefur þennan útbúnað og þar er það maðurinn sem horfir meira á sjónvarp. Þau hjón, sem eru á okkar aldri, eru alsæl með fyrirkomulagið.

Eftir heyrnartæknisheimsóknina fer Valdís í nudd hjá naprapatinum eða hnykkinum Magnúsi og svo ætlar hann að sýsla eitthvað við liðamót og stífa vöðva sem hrjá hana og reyna að liðka svolítið fyrir með daglega vellíðan. Hann er glúrinn þessi maður og ég hef líka verið hjá honum og mér fannst meðan ég var haltur að hann sæi hvað hrjáði mig áður en hann leit upp til að heilsa mér -meira að segja í fyrsta sinn sem ég heimsótti hann. Ég velti fyrir mér hvort hann væri smá göldróttur. En hvað um það, ég fór heim á meðan Valdís fer í þessar heimsóknir en hún er afar þolinmóð við að koma sér með strætisvögnum milli staða í Örebro. Það er nú heill kapítuli út af fyrir sig.

----------------------------------------------

Nú er áliðið dags.

Um daginn notaði ég orðið myglustopp  á FB. Hún Sigga Páls skólasystir mín frá því fyrir rúmlega hálfri öld spurði þá; "hvað er myglustopp Guðjón"? Ég sagðist mundi svara því. Íslenskur maður sem ég þekki ekki en veit hver er, hringdi einu sinni í mig og sagðist lesa með áhuga bloggið mitt sem hann hafði fundið af einhverri tilviljun. Hann sagðist vera að byggja sumarhús og þess vegna hefði hann gaman af því að lesa um byggingarframkvæmdir á Sólvöllum. Einhver sendi e-póst um sama efni og einn og annar hefur heyrt af sér á einhvern hátt og sagt svipað. Málið er einfaldlega að það er til slatti af fólki sem gjarnan les aldeilis hversdagslega og einfalda hluti um daglegt bjástur og hefur gaman af. Þar þekkja margir sjálfa sig. En nú ætla ég reyndar að gefa skýrslu um myglustopp.

Sigga Páls, einfalt er að líta bara á þriðju myndina því hún er af "myglustoppi" einu sér og án langrar orðaflækju minnar.


Á þessari mynd sjáum við upp í þakið á gamla hluta Sólvallahússins. Sperrurnar sem áður voru 12 sm breiðar eru þarna orðnar 22 sm. Steinullin sem við sjáum í þakinu er 175 mm þykk en ofan við hana er masónit. Á milli sjálfrar þakklæðningarinnar og masonitsins er loftrúm sem er 5 sentimetrar. Ætlast er til þess að raki sem stígur til lofts í öllum íbúðarhúsum þrátt fyrir plastdúka og tilheyrandi, viðrist burt í þessu loftrými. Annars gæti hann setst að efst í einangruninni þar sem frost og hiti mætast og myglað og frosið á vetrum og endað í fúa.

Ég kynntist þessu í fyrsta skipti hér í Svíþjóð enda var ég ekki vanur að vinna við hús þar sem innréttað var alla leið upp að sperrum. Smiðurinn sem hjálpaði okkur í fyrra var jafnframt vinnunni hjá okkur að skipta um þak á húsi þar sem þakklæðningin var orðin svo fúin að það fannst hvergi naglhald. Þar var ekkert loftrúm til að annast rakann. Endanleg einangrun í þakinu hjá okkur var 30 sm sem gerir að verkum að þetta er ennþá mikilvægara en áður þegar einangrun var kannski 1/3 af því sem notað er í dag..


Út undir þakskeggi á langveggjunum er loftrás eins og allir smiðir þekkja, bæði íslenskir og sænskir. En þegar byggt er eins og við gerum hér á Sólvöllum að hafa hallandi loft sem fylgir þakinu, þá þarf líka að vera öndunarmöguleiki upp að mæni eins og áður er sagt. Um daginn var ég að ganga frá myglustoppum og þá byrjaði ég á að taka burtu þakpönnurnar og bora göt sem voru 90 mm í þvermál. Masónitið sem við sáum innan frá á fyrstu myndinni sjáum við hér utan frá í gegnum götin. Nú er þessi þáttur tilbúinn og þá er að framkæma þann næsta.


Hér er búið að festa myglustopp ufir annað gatið sem við sáum áðan. Myglustoppið húsar frá að neðan en lokar vel að ofan með hjálp af kítti þannig að vatn skal ekki geta runnið inn um opið. Gataplata er á myglustoppinu neðanverðu. Hún nær út fyrir gatið og hindrar mýs og skordýr að komast inn undir klæðninguna á þakinu.


Svo þegar verkinu er lokið er bara að horfa á og vera glaður yfir góðum verklokum og plokka svo þakpönnurnar á að nýju. Þó að ég hafi aldrei séð þetta á Íslandi hefur það kannski verið notað í 20 ár eða meira. Ég er líka viss um að þetta finnst undir einhverju öðru nafni, en ég bara þýddi beint sænska heitið "mögelstopp", það á að koma í veg fyrir myglu og fúa.


Á þessari mynd gefur svo að líta ellilífeyrisþega sem er að böglast upp á þaki við að setja upp myglustopp. Það er eins og ég sé hræddur en sannleikurinn var samt sá að ég var orðinn full kaldur við myglustoppavinnuna mína um daginn. Skórnir sem ég er á þarna eru nú hreinlega bestu þakskór sem ég hef eignast. Þegar við innréttuðum upp í risið í vetur var svo þykkur snjór á þakinu að það kom ekki til umræðu að gera þetta þá. Síðan er þetta búið að liggja svolítið á mér og ág átti von á að ég ætti erfiðara með að gera þetta en raun varð á. Það er nú meiri vitleysan þegar ég er að láta mér detta í hug að ég sé að eldast. En hvað um það, Sólvallahúsið er vel undirbúið til að taka á móti vetri


Bara svo að þið vitið þá er ég ekki einn um að gera eitthvað á Sólvöllum í Krekklingesókn og því nota ég aftur þessa mynd þegar Valdís var að mála á fullu fyrir einum tveimur vikum. Nú situr hún frammi og horfir á sjónvarp með nýju græjunum sínum og það er svo lágt í sjónvarpinu að ég bara heyri óminn frá því. Ja, flest er nú til.

Gaman væri að heyra frá einhverjum hvað myglustoppin mín raunverulega heita á íslensku og hvort þau séu ekki hversu venjuleg sem helst á byggingum. Ef þessi lýsing gæti orðið einhverjum að gagni væri það jú alveg frábært.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0