Haust

Fyrstu tvö árin okkar í Örebro, það er að segja 1997 til 1999, bjuggum við í bæjarhluta sem heitir Brickebacken. Í Brickebacken býr mikið af fólki langt sunnan úr álfu og reyndar frá öðrum álfum líka. Sem sagt mikið af útlendingum. Okkur Valdísi fannst stundum sem það væri full mikið af þeim þar sem við sáum okkur eiginlega ekki sem raunverulega útlendinga. Líklega var það svolítið hrokafullt. En hvað sem útlendingum líður þá er Brickebacken mjög grænn og á vorin er þar mikið blómahaf á margs konar blómstrandi runnum og trjám, svo mikið að ég held að enginn annar bæjarhluti í Örebro jafnist að því leyti á við Brickebacken
 
Umhverfis þennan bæjarhluta liggur líka afar skemmtileg gönguleið í gömlum skógi með burknum, klöppum og ýmsum skemmtilegheitum. Á árum okkar þarna gekk ég þessa leið mjög oft og raunar mjög oft eftir að við fluttum þaðan. Á þessum tíma gat ég orðið svo slæmur í vinstri mjöðminni að það kom fyrir að mér fannst sem ég ætlaði ekki að komast til baka heim. Í einni slíkri ferð þegar ég bara varð að setjast niður og hvíla mig dró ég mig að bekk sem ég vissi um, og þar fékk ég mér mjög þráð sæti.
 
Umhverfis þennan bekk var og er mikið burknahaf og í þetta skipti var farið að líða að hausti. Burknarnir voru farnir að gulna mjög og þar sem ég sat þarna á bekknum og reyndi að safna kröftum til að komast heim, horfði ég á burknana og hugleiddi nálægð haustsins. Ég man svo vel að það flaug gegnum huga minn að líf mitt væri líka komið að hausti eins og mér leið þarna. Ég fylltist trega og fannst sem ég sæti þarna mitt á meðal félaga minna og að leið okkar væri sameiginleg.
 
Eftir þetta haust og fylgjandi vetur kom vor á ný. Bæði ég og burnknarnir tókum þátt í þeirri vorkomu og smám saman breyttist þetta með mjöðmina og ég fékk ekki lengur þessi vondu tilfelli en samt var ekki um neinn bata að ræða. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að ég minnist þessarar stundar á bekknum í Brickebacken hvert einasta haust þegar litirnir fara að breytast og burknarnir hér út í skógi verða gulbrúnir. Og þegar útlitið er orðið eins og á meðfylgjandi myndum velti ég því líka fyrir mér hvort ég hafi tekið þátt í sumrinu eins og mér bar að gera. Sú hugsun snertir mig hvert einasta haust.
 
 
 
 Þessar eikur tóku alveg örugglega þátt í sumrinu eins og þeim bar að gera. Hvers vegna önnur er komin með haustliti en hin ekki hefur væntanlega ekkert með það að gera. Ég var að lesa mig til um mismun á eikum en vil þó ekki láta ljós mitt skína í því sambandi. Svolítið eru blöðin ólík milli þessara trjáa, en enn meiri munur er á greinabyggingunni eins og auðvelt er að sjá á myndinni. En það sem þessar eikur eiga mjög sameiginlegt er að margir reyniviðir voru búnir að gera þeim lífið leitt í fjölda ára. Þegar við felldum þessa reyniviði fyrir sjö árum stóðu eftir tveir sárir einstaklingar. Sú til vinstri hafði meðal annars mitti þar sem krónan er mjóst núna. Núna eru þær báðar á leiðinni að verða voldug tré með hvelfdar krónur. Það er mikill áburður djúpt niður í jörð þar sem þær standa og þær munu vaxa vel á komandi árum ef þeim verður ekki illt af þessum næringarríka jarðvegi. Og svo eitt við þessa mynd; rabbarbarabeðið hennar Valdísar er nær okkur fyrir miðri mynd. Loksins tókst okkur að velja rabbafrbaranum góðan stað.
 
 
 
 Þær vita það ekki bjarkirnar tvær sem eru með nakta stofna upp eftir öllu heldur til hægri á myndinni að dagar þeirra eru senn taldir. Fleiri tré þarna eru komin á þennan biðlista. Ung tré með fallegar krónur eru nú tilbúin að taka við af þeim. Það eru bjarkir, beyki, eikur, hlynir og fleiri tré sem við höfum hlúð að og beykið gróðursettum við sjálf. Það felst ekki allt í hæðinni. Ung tré með fallegar krónur er mikið eðlilegri framtíð. Lengra út í skóginum getum við látið náttúruna hafa sinn gang. Það grillir í bláberjabekkinn milli þessarra tveggja bjarka. Hálfgerð felumynd.
 
 
 
Snúran er sjálfri sér lík hvort heldur það er vetur, sumar, vor eða haust utan það að á veturna getur hún verið hrímuð eða hlaðin snjó. Svo getur það verið horfið um miðjan dag og snúran verður aftur eins og hún hefur alltaf verið. Það er augljóslega haust á þessari mynd, sérstaklega hægra megin á myndinni þar sem lauffallið er um garð gengið. Ég var á flakki með myndavélina í gær og reyndi að fanga haustlitina. Hér er árangurinn sem þó stóð eiginlega ekki undir væntingum. Haustmyndirnar verða betri árið sem við verðum 75 ára. Þá verða ungu trén búin að taka yfir með sínar ósködduðu, hvelfdu krónur. Ég held bara að ég sé farinn að hugsa til næsta sumars.


Kommentarer
Björkin.

Alltaf jafn fallegur skógurinn hvort er sumar eða haust......vor eða vetur.Knússssssssssss.

Svar: Alveg rétt mágkona.Kveðja frá sveitafólkinu.
Gudjon

2012-10-19 @ 14:03:09
Bára

Sæll Guðjón

Gott að sjá að þú ert farin að blogga aftur, og notalegt að sjá sveitina ykkar. Hlakka til að fylgjast með. Kær kveðja til þín og Valdísar frá okkur mæðginum.
Bára og Halldór Stefán

Svar: Já, sveitin hefur verið falleg og er falleg þessa haustdaga. Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni
Gudjon

2012-11-04 @ 20:14:42


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0