Með báða fæturna á jörðunni 8. mars 2012

Nú er ég búinn að vera ákveðinn í því síðan seint í fyrrakvöld að í næsta bloggi ætli ég að vera með báða fæturna á jörðinni. Nú er ég kominn að þessu næsta bloggi. Það sem ég meina þegar ég segi með báða fæturna á jörðinni er að í síðustu tveimur bloggum hefur það fjallað um lífið og tilveruna og svolítið um andlegu hliðina. Þó að lífið og tilveran sé að vísu hluti af hversdagsleikanum, þá ætla ég nú að tala um hin daglegu verk sem við höfum verið að sinna upp á síðkastið hér á Sólvöllum. Dagurinn í dag byrjaði á því að Valdís fór á söngæfingu hjá Hafðu það gott kórnum í Fjugesta. Síðan fór ég í endurvinnsluna eins og svo oft á fimmtudögum og svo í Colorama þar sem yfirleitt er hægt að fá góða aðstoð.

Ég var nefnilega afar ákveðinn í að slípa eikarplöturnar á eldhúsbekknum í dag og bera svo á olíu. Allt sem til þurfti var til utan eitthvað áhald til að slípa með. Ég hreinlega nennti ekki að gera það með höndunum. Nú, Emil í Colorama var ekkert á því að selja mér neina slípivél. Hann vildi leigja mér hana. Og nú er eldhúsbekkurinn svo ótrúlega fínn að ég tek til baka það sem ég var farinn að hugsa; að það hefði verið vitleysa að hafa eik í bekkplötunni í staðinn fyrir harðplast. Bekkplöturnar eru bara svo ómótstæðilega fínar núna.

En nú fer ég út í aðra sálma til að viðra verkefni síðustu daga.


Það var um það samið fyrir mörgum vikum að hann Arnold bóndi kæmi til að aðstoða okkur við að fella tré sem sum voru heim undir húsi og máttu hreint ekki falla nema á nákvæmlega réttan stað. Svo kom hann á mánudaginn var. Ég hef oft talað um Arnold en við höfum enga almennilega mynd af honum. Hér er hann þó að fella mjóan ask sem er búinn að vera dauður síðan í fyrrahaust. Það voru engar kúnstir með askinn og það var bara að beina honum í rétta átt með annarri hendi. Það kom eitthvað sníkjudýr undir börkinn á askinum í fyrra og það uppgötvaði höggspætan. Hún fletti berkinum af á stuttum tíma og át snýkjudýrið með góðri lyst. Nú var þessi askur orðinn svo þurr og léttur að það hefði verið hægt að bera hann beint inn og kynda með honum þegar í dag. Annars þarf viðurinn að þorna á annað ár ef gott á að vera.


Það er fljótlegt að fella tré en þegar að því kemur að hreinsa greinarnar af, þá byrjar vinnan. Þessi mynd er ekki af trénu á fyrstu mynd, þetta er af stórri ösp.


Á einu grenitré eru alveg feykilega margar greinar. Þetta grenitré var fellt af því að það var líka snýkjudýr í því eins og askinum áðan.


Valdís var dugleg við að taka myndir en hér er hún búin að setja upp vinnuvetlingana og safnar greinum í hauga. Mér sýnist hún vera að taka dansspor þarna konan.


Svona lítur 18 metra hátt birkitré út þegar búið er að hreinsa af því greinar og brytja niður í hæfilega langa eldiviðarbúta.


Það eru nokkur kílówött í hverrjum svona bút af birkitré. Þetta verður góður eldiviður veturinn 2013 til 2014


Svona lítur 24 metra há ösp út þegar búið er að fella hana og hreinsa. Það er svolítið villandi að það stendur björk nákvæmlega við endann sem fjær er. Þar er Valdís við hreinsunarstörf.


Og þegar búið er að lima niður öspina lítur hún svona út. Það verða margar ferðir með hjólbörurnar áður en þetta tré verður komið heim undir hús.


Allt amstur og slit eða hvað? Það var gaman að sjá þessa mynd á sínum tíma og er enn. Fólkið í Hafa það gott kórnum fór út að borða skömmu fyrir jól. Ég var að vinna það kvöld, svo vel hittist á, og þá þurfti Valdís ekki að vera ein heima. Hún virðist ánægð með lífið þarna sýnist mér og það er mikið vel. Kórstarfið er henni mikils virði.

Þegar hann Arnold var hér á mánudaginn barst söngur í tal. Ég syng ekki sagði Arnold og eins gott að ég reyni ekki að gera það sagði hann. Þá mundu allir fara út. Ég sagði þá að við værum bræður í þessu og ég talaði um að það væri líklega mikið atriði hvað fólk ælist upp við. Ég sagði frá því að í bernsku hefði útvarpið verið heima til að hlusta á fréttir, veður og útvarpsmessuna. Svo var slökkt á því. Við vorum að fá okkur kaffi og vöfflur eftir að hafa fellt trén þegar þetta barst í tal. Arnold leit á mig og sagði: Og við heima þurftum að stelast til að hlusta á fótboltaleiki því að þar var útvarp bara notað fyrir fréttir og veður. Svo var slökkt á því. Hann sagði að afi sinn hefði aldrei kynnst rafmagni og pabbi hans hefði verið eitthvað á eftir tímanum þegar um nýjungar eins og útvarp var að ræða. Þarna kynntumst við Arnold betur en fyrr.


Kommentarer
Hanna Ek

Älskar verkligen din blogg, glad att jag hittade den. Följer dig på bloglovin nu, hoppas att du följer tillbaka!

2012-03-09 @ 04:06:54
URL: http://hnny.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0