Eitthvað að hugsa um þann 5. mars 2012

Síðdegið þennan dag hefur ekki alveg verið minn dagur og ég hef reynt að sporna við þessu en ekki tekist það almennilega. Að skrifa hefur ekki verið alveg það sem hefur hentað mér en einmitt þess vagna skora ég á sjálfan mig og legg hér með fingurna á lyklaborðið.

Í gær þegar ég las texta dagsins í bókinni Kyrrð dagsins hreifst ég af honum. Ekki nægði það samt til þess að gera síðdegið í dag leikandi létt, en textinn er á þessa leið:

Leyndardómur framtíðarinnar er hér í nútíðinni.
Ef þú bætir hana, batnar það sem á eftir kemur.
Sérhver dagur, einn og sjálfur,
færir með sér heila eilífð.
Paulo Coelho, úr "The alcemist." (Gullgerðarmaðurinn)

Að hlakka til morgundagsins er mikið hnoss. Að hafa góðar minningar um gærdaginn er líka mikið hnoss. Það var inn á Vogi og síðar austur á Sogni sem ég kynntist í alvöru hugtakinu "að lifa einn dag í einu", að lifa í núinu. Ég fann líka að það var auðvelt að gera þetta að frasa og svo ekkert meira þó að það kannski geti líka fært mig að markinu. Notaði ég frasann beinlínis í því skini að ná þessu marki, þá kannski væri það til hjálpar, en ef ég notaði hann bara til að sýnast, þá mundi það skipta sköpuðu utan að sumir myndu vissulega brosa að ofnotkun minni á frasanum.

Ég átti mér vissulega þann draum að fara nú að gera daginn í dag svo góðan að ég mundi eiga góðar minningar um hann daginn eftir, og því mundi líka fylgja sá vinningur að geta hlakkað til morgundagsins. Ég vissi að lengst fram í bók sem nefnd er Tuttugu og fjögurra stunda bókin fannst mjög fallegur texti, orðskviður úr Sanskrít. Ég varð mér því úti um bókina og opnaði hana næstum því með titrandi hendi og las þennan texta sem fjallar um að gæta þessa dags. Orðskviðunum lýkur á þessum línum:

Því að gærdagurinn er draumur
og morgundagurinn hugboð
en þessi dagur í dag
sé honum vel varið
umbreytir hverjum gærdegi
í verðmæta minningu
og hverjum morgundegi
í vonarbjarma.

Gæt þú því vel
þessa dags.

Svo varð ég bara klökkur af að lesa þessa gömlu visku og las textann aftur og aftur - dag eftir dag. Þessu marki skyldi ég ná. Það skeði ekki daginn eftir og ekki heldur daginn þar á eftir, en síðar meir, hægt og sígandi, minnkaði kvíðinn fyrir morgundeginum og óttinn út af gærdeginum gaf sig. Jafnvægi komst á. En svo koma svona dagpartar þegar ég næ því ekki að gæta þessa dags, afar sjaldan heilir dagar. En hvað um það, ég hélt mínu striki í dag og við Valdís hjálpuðumst að við að afgreina tvær all stórar bjarkir sem voru felldar í dag. Svo eftir það sagaði ég stofnana í hæfilegar eldiviðarlengdir og tíndi síðan saman í huggulegan bing. Ég hefði líka getað sagt við Valdísi að þetta væri ómögulegur dagur og ég ætlaði ekki að gera neitt annað en að eiga svolítið bágt. En mér fannst betra að "gæta þessa" dags og ef ég gæti það ekki sjálfur, gæti enginn gert það fyrir mig.

Nú er þessi dagur liðinn, akkúrat á þessu augnabliki. Það er miðnætti. Ég sé núna að ég hefði átt að setjast mikið fyrr við tölvuna og byrja að skrifa það sem byrjaði að koma upp í huga mér í gær þegar ég las textann í Kyrrð dagsins. Svo hefur þetta verið að koma upp öðru hvoru í allan dag að "Sérhver dagur, einn og sjálfur, færir með sér heila eilífð". Já, þeir eru verðmætir þessir dagar.

*

Talandi um bókina The alcemist, Gullgerðarmanninn, þá las ég hana fyrir all nokkrum árum og notaði hana einnig til að auka sænska orðaforðann minn. Ég las hana sem sagt mjög nákvæmlega og rýndi í orðin. Alls ekki mundi ég þó eftir þessum ofannefnda texta, en óljóst man ég eftir öðrum texta sem hnippti við mér og ég veit fleirum sem hafa lesið bókina. Ég man þetta auðvitað ekki orðrétt, en það fjallaði um að fjárhirðirinn og gullgerðarmaðurinn riðu hestum í útjaðri eyðimerkur og voru þá að nálgast ófriðarsvæði. Þá sáu þeir allt í einu tvo hermenn koma flengríðandi á hestum og fjárhirðinum varð þá að orði að nú dræpu hermennirnir þá. Gullgerðarmanninum varð þá að orði að þeir mundu einhvern tíma deyja hvort sem væri og þessi dagur væri líklega ekki verri til þess en hver annar dagur.

Nái maður að hugsa þannig hefur maður komið langt í æðruleysi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0