Góðar fréttir 3. mars 2012

Upp úr hádegi í dag, laugardag, sá ég á textavarpinu að þriggja ára drengur hefði hrapað ofan í klettasprungu niður á Skáni. Fólk komst ekki niður til hans þar sem sprungan var svo þröng og ekki sást heldur niður til hans þar sem sprungan var djúp, en það heyrðist til hans. Foreldrar sex ára gamallar stúlku buðu aðstoð sína, en stúlkan er vön klifri. Þegar reynt var að láta hana síga niður var sprungan líka of þröng fyrir hana. Ég gekk að textavarpinu og tölvunni með tíu mínútna millibili eða svo til að athuga hvernig gengi því að mér fannst þetta ástand hræðilegt, hreinlega óbærilegt.

Ferðamaður sem kom á staðinn til að krifra sá að eitthvað mikið var að gerast og spurði hvort hann gæti hjálpað. Hann er 184 sm á hæð og vegur 66 kóló þannig að ekki er sverum kropp fyrir að fara. Þegar hann var látinn síga niður með höfuðið á undan komst hann ekki niður frekar en sex ára stúlkan. Mikil örvænting! Hvað er hægt að gera!?! Sótari kom með myndavél sem notuð er í skorsteina og með henni var hægt að sjá til drengsins. Honum var sendur matur og drykkur og ofni var rennt niður til að reyna að hlýja honum. Rétt um klukkan fjögur í eftirmiðdaginn komu svo fréttir um að drengnum hefði verið bjargað og mér stór létti. Björgunarmenn hreinlega grétu. Ég gat nú farið að snúa mér að því sem var á dagskránni hjá mér í dag.

Svo var önnur frétt í dag sem hafði mikil áhrif á mig. Reyndar heyrðum við um það mál þegar í gær, en í dag hefur verið mikil umræða um það og ég skil það vel. Sú frétt var um það að sænskur maður að nafni Jan Eliasson hefði verið ráðin sem nánasti samstarfsmaður framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Það er einfaldast að segja það að ég varð afar stoltur vegna þessa. Þessi gæðalegi maður sem hefur starfað mikið við málamiðlanir og samninga, starfað mikið við skipulagningu hjálparstarfs og fleira, hann hefur einhvern veginn alltaf eitthvað gott að segja þegar hann er til viðtals í fjölmiðlum.

Hefur alltaf eitthvað gott að segja, segi ég. Það eru miklir harmleikir sem hann hefur fengist við gegnum áratugina, en það er eins og ég segi, hann hefur mitt í öllum harminum eitthvað gott að segja. Hann kemur oft í viðtöl þegar stórsafnanir standa yfir vegna náttúruhamfara og fátæktar og Jan Eliasson, sem hefur augum litið svo voðalega mikla eymd, hefur alltaf eitthvað gott fram að færa. Þegar hann tók við sem utanríkisráðherra í stjórn Socialdemokrata seint á kjörtímabili, þá klappaði allt ráðuneytið fyrir honum og fólk virtist gleðjast mikið yfir þeim nýja verkstjórnanda sem þá gekk inn í húsnæði ráðuneytisins. Já, ég er stoltur yfir þessum manni sem er einu ári eldri en ég.

Þetta fékk mig til að hugsa til manns sem að hluta hefur hefur unnið við sömu störf og Jan Eliasson, það er að segja við hjálparstörf. Sá maður heitir Karl-Axel Elmquist. Hann skrifaði eftirfarandi Texta.

Ég hef ferðast mikið um aðra hluta heimsins.
Hitt fólk í stríði. Fólk sem sveltir.
Manneskjur sem eru pyntaðar. Manneskjur sem hafa flúið að heiman.
Það er erfitt, sérstaklega þar sem ég hef það svo gott heima í Svíþjóð.
Mér finnst það óréttlátt.
Á hótelherberginu mínu legg ég mig oft
endilangur á magann á rúmið.
Hugsa um konu mína og börn
og um þá sem ég hef hitt þann daginn.
Mér þykir það svo rangt. Ég skil ekki Guð.
Ég er glaður yfir börnunum mínum og vinunum heima.
En ég verð miður mín þegar ég hugsa um flóttafólkið sem ég hef hitt.
Ég kreppi hnefana. Gleði og sorg blandast.
Einmitt þá verð ég að "hitta" Guð minn.
Ég kem ekki til með að skilja hann. Ég fæ nú ekkert svar.
Samt verð ég að finna að hann er nálægur.
Að ég samt sem áður verð að fá að trúa á hann. Þegja með honum.
Liggja endilangur á maganum. Á rúminu.
Stundum á gólfinu.
Þá legg ég sjálfan mig í hendur hans.
Þá finnst mér að hann taki í hönd mína og reisi mig upp.
Svo segir hann:"Þú skilur ekki. Stríddu samt alltaf móti öllu vondu sem þú sérð.
Ekki tapa kjarkinum. Ég finnst jú þrátt fyrir allt."

*

Í gær las ég ótrúlega fallega frásögn konu sem varð veik snemma á meðgöngutíma og fæddi barnið löngu fyrir tímann. Barnið lifir og hún var svo þakklát fyrir þá hjálp sem hún hafði fengið á þriggja mánaða tímabili. Hún hvatti fólk til að safna fjármunum svo hægt yrði að bæta aðstöðu þeirra sem lenda í slíkum erfiðleikum. Í fyrradag las ég fallega grein ungrar konu um það hvernig frásögnin hans Eiríks Inga hefði breytt lífsviðhorfi hennar.

Í staðinn fyrir að segja frá litla drengnum sem bjargaðist úr klettasprungu og að hann Jan Eliasson hefði verið ráðin sem hægri hönd framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þá hefði ég getað sagt fréttir um ósætti, morð, slys og ófarir.

Ps. Eitt sinn heyrði ég nítján ára gamla konu segja að flest fólk væri trúað. Hins vega skammaðist fólk sín svo mikið fyrir það, að það gæti ekki viðurkennt það. Það er svo oft klókt unga fólkið þegar það kemur að sársaukamörkum í lífi sínu. Svo var það með þessa konu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0