Samtíningur þann 20. mars 2012

Í dag er kominn 20. mars, en það var þann 16. mars sem ég vistaði nokkrar myndir inn á bloggið mitt. Það var orðið áliðið kvölds þegar ég gerði það og mál að fara að sofa. Daginn eftir leit ég á þessar myndir og hugsaði sem svo að ég hefði verið með einhverja ofurdellu þegar ég vistaði þær. Hvað ætlaði ég eiginlega að gera við þessar myndir? Nú var ég farinn að ganga of langt með eldivið, tré, skóg og allt það hugsaði ég. Ég var nærri því að henda út þessari síðu með öllum myndunum en lét það þó bíða. Kannski mundi mér detta eitthvað í hug.

Svo núna í kvöld fór ég inn á ríkisútvarpið og las fyrirsagnir. Þar sá ég að það var einhver uppákoma á alþingi. Ég klikkaði á fyrirsögnina og horfði á upptöku frá Alþingi Íslendinga. Þá komst ég að því að hversu vitlaust sem blogg dagsins yrði ef ég nú mundi skrifa texta við þessar myndir, þá yrði það varla verra en uppákoman á þinginu.

Annars fór ég í vinnu í gær, en þar hef ég ekki verið í tæpar fimm vikur. Þó að mér finndist á leiðinni þangað að ég væri alveg dottinn út úr meðferðarstarfinu, þá komst ég að því að ég er alveg heima þar ennþá um leið og ég geng inn úr dyrunum. Og móttakan af þeim innrituðu er alltaf jafn frábær. Meira að segja þeir sem ég hef aldrei hitt áður koma svo forvitnir til að líta á þennann undarlega mann sem flestir hafa heyrt talað um. Eins og venjulega hitti ég margar klókar manneskjur, yngri sem eldri, sem töluðu frá hjarta sínu á þann hátt að það mundi koma mörgum í bobba sem allt í einu kynnu að hafna í slíkri umræðu. Ég segi eins og ég hef sagt áður að heimurinn mundi líta öðruvísi út en hann gerir ef einfaldur sannleikurinn gæti legið jafn létt á vörum allra manna og kvenna.

Svo skeði nokkuð skemmtilegt í morgun. Trönurnar voru mættar á akrana kringum Vornes. Þær höfðu hátt, snemma, og einhver sagði að þær hljóðuðu eins og tropmet og það var ekki fjarri sanni. Þetta er eitt af voreinkennunum sem nú eru um allt í kringum okkur. Á leiðinni heim í morgun sá ég svo trönur og gæsahópa á túnum og vorfiðringurinn gerði lundina glaðari. Mér datt þá í hug að þegar ég var að ljúka strangri vinnutörn um áramótin, þá hefði ég verið orðinn dálítið slitinn. Ég skildi það ekki þá, en ég áttaði mig á því í morgun að lífið var allt í einu svo ótrúlega mikið léttara.

Nú ætlaði ég að skrifa texta með myndum en datt bara sí svona út í allt aðra sálma. Það er kannski best að ég fari að draga mig heim aftur og koma mér að verki.


Ég hef einhvern tíma talað um þetta sem við sjáum á myndinni, en það er sterkasta sönnun þess að elgurinn er stundum alveg inn á gaflli hjá okkur. Hann skítur hér í kring í virðingarskini við okkur. Mikið vildi ég að hann kæmi í þessar heimsóknir sínar að degi til, en þá ætti ég ennþá auðveldara með að fyrirgefa honum eikarplöntuátið. Annars er kannski gróft að birta svona mynd. Ég yrði alla vega ekki glaður ef einhver birti svona mynd af mínum afurðum.


Elgurinn tilheyrir skóginum en hér gefur að líta afrskstur grisjunar okkar í skóginum undanfarið. Eiginlega ekkert þeirra trjáa sem við höfum fellt voru felld vegna stærðarinnar, heldur vegna þess að þau voru eitthvað bjöguð eða uxu of nærri fallegri eða stærri og tígullegri trjám. En alla vega; hér eru einir sjö m3 sem verða til upphitunar eftir meira en ár. Svo eigum við álíka mikið af fyrningum frá í fyrra og hitteðfyrra. Við erum vel sett með við en þurfum líka að fella ögn meira þegar laufgunin verður um garð gengin og við sjáum heilsufar vissra trjáa sem við erum ekki örugg með að svo stöddu. Almennt fara menn með dráttarvélar út í skóg til að sækja viðinn, en skógarbotninn og hjólbörustjórinn hafa mikið betra af því heilsufarslega að nota heiðarlegar hjólbörur til þessa.


Svona lítur hrúgan út þegar búið er að stafla saman tuttugu og fjögurra metra hárri ösp. Einar tvær hjólbörur af mjóstu greinunum eru svo á öðrum stað. Annars er kannski venjulegra að nota öspina í eldspýtur en eldivið.


Hvað ætli hann sé nú að spekúlera maðurinn þarna? Jú, ég var að spekúlera í því hvaða tré væri mikilvægast að taka úr kraðakinu sem er þarna fyrir framan mig. Eitthvað varð að láta undan þar.


Þetta beyki verður ekki fellt þar sem það er eftirlætistré gróðursett af okkur sjálfum. Mikið af laufi fyrra árs er ennþá á ungbeykinu. Það fellur ekki af fyrr en nýtt lauf er út sprungið.


Þessa krókusa fann Valdís að húsabaki fyrir fjórum dögum. Þeir eru orðnir margir vorboðarnir og velkomnir eru þeir. Krókusarnir uxu þarna upp í gegnum eikarlauf eins og sjá má.


Það nálgast tími gönguferðanna hjá sumum. Það eru nokkrir kílómetrar sem Valdís leggur að baki þegar hún skeiðar yfir grasflatirnar með sláttuvélina. Við hliðina á henni er alparós.


Ég tók eldhúsbekkinn um daginn, slípaði hann með vél og bar svo á þrjár umferðir af olíu með dags millibili eða svo. Það er fínt að sjá eldhúsið svona. Nú er búið að bera til baka kaffivélina, hraðsuðuketilinn og allt hitt sem þarna verður að vera, en til þess eru eldhúsbekkir.

Að lokum: Á sunnudaginn var fórum við í Blómsturland í Marieberg til að kaupa trjábörk með meiru. Svo fór ég þangað aftur í dag til að kaupa meiri börk. Það var búið að stilla upp svo miklu af runnum, blómum og trjám að ég þurfti mikinn sjálfsaga til að detta ekki í innkaup sem voru bara alls ekki á dagskránni. Það er næstum hægt að verða smá galinn þegar komið er í svona umhverfi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0