Bláber 18. mars 2012

Fyrir nokkrum árum kom Rósa með tvo berjarunna, hindber og bláber, og sama ár gáfu þær systur mér kirsuberjatré í 65 ára afmælisgjöf. Þessi bláberjarunni gerði það gott og næstu tvö árin bættum við Valdís við bláberjarunnum og nú eru þeir orðnir sjö talsins. Kulda- og snjóaveturinn í fyrra átu ferfætlingar öll brum af þessum bláberjarunnum þannig að þeir báru engin ber. Þess vegna, og vegna þess að ég ímyndaði mér að ég hefði ekki tíma til að sinna þeim síðastliðið sumar, þá lentu þeir í hálfgerðri óhirðu. Að gera vel fyrir þessa runna var á verkefnalista í dag og það var gert af alúð og því er lokið utan að við þurfum að kaupa nokkra sekki af berki í viðbót til að verja þá fyrir öðrum gróðri. Þessi vinna kallaði fram minningar.


Það var í ágúst árið 2010 sem yngsta barnabarnið, hann nafni minn, var hér í sinni fyrstu heimsókn. Hann var þá tæplega eins árs. Þá var nefnilega bláber að finna á runnunum. Í fyrstu vildi hann ekki sjá að smakka á þessum skrýtnu bláu smá kúlum, en þegar okkur tókst að fá hann til að smakka á fyrsta berinu var ekki að sökum að spyrja, þau voru svo rosalega góð. Svo lærði hann að tína bláber og hann tíndi þau ekki í krukku, hann tíndi þau beint upp í sig. Það var líka meiningin. Á myndinni er hægt að sjá bæði þroskuð og óþroskuð ber. Það tók töluverðan tíma frá því fyrstu berin þroskuðust og þangað til þau síðustu voru tilbúin. Svoleiðis þarf það að vera því að þá er hægt að fara oft í ber. Skórinn minn sem sést þarna á myndinni er til ennþá. Þetta eru mjög sterkir skór en eru nú orðið notaðir í lakari verk eins og til dæmis í dag þegar ég skreið á blautri jörðinni kringum runnana.


Þessi mynd er tekin um svipað leyti og hin fyrri. Við keyptum bekk til að hafa í berjalundinum. Þarna situr elsta barnabarnið, Kristinn, með yngsta barnabarnið á þessum bekk og eru þeir að rækta sín fyrstu kynni ef ég man rétt. Kristinn var eina viku í heimsókn hjá okkur þetta sumar. Við erum búin að gefa þessum bekk nafn og heitir hann nú bláberjabekkurinn. Eftir þá alúð sem við sýndum þessum stað í dag eigum við von á að bláberjabekkurinn dragi fólk til sín í ágúst í sumar.


Kristinn veit nokkuð hvar hluti er að finna á Sólvöllum. Hér er hann búinn að klæða sig í buxur og stígvél sem tilheyra keðjusöginni. Hann er þarna á leið til að fella tré og þessi mynd er frá sömu heimsókn. Göngulagið er ákveðið og líflegt. Hann er sterkur þessi ungi maður og gæti vel tekið afa sinn í bóndabeygju.


Svo fór Kristinn til Íslands en Hannes Guðjón var eftir hjá afa og ömmu ásamt mömmu sinni. Þá var nýbúið að grafa niður nýjan rafmagnskapal á Sólvöllum og afi hreinsaði steina úr sárinu af ofurnatni fyrir fræsáninguna. Hannesi leist ekki alveg á vinnubrögðin og kom hér til hjálpar. Hann tók við mörgum steinum úr hendi afa, rannsakaði þá, og henti sumum í fötuna en fannst að margir þeirra gætu vel verið þarna áfram og henti þeim því í jörðina aftur.

Ég er viss með að birta nokkrar myndir af berjarunnunum okkar þegar við verðum búin að bæta á þeim berki sem vantar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0