Nálastungudagurinn 2. mars 2012

Það er hundlágt á  mér risið núna. Eftir fjöldan allan af nálum hingað og þangað um líkamann nokkru eftir hádegi í dag get ég ekki sagt að ég sé allur á nálum þetta kvöld. Ég hef bara áhuga á einu og það er að leggja mig undir ullarfeldinn og fara að sofa. Ég sé þetta sem svo að töfrakonan sem við Valdís heimsóttum í Vingåker í dag hafi gert eitthvað mikilvægt fyrir mig með kunnáttu sinni. Hún er hversu hversdagsleg sem helst þessi kona en hún býr nú greinilega yfir einhverju skal ég segja ykkur.

Ég ætlaði að horfa á sjónvarp og slappa þannig vel af en í fyrsta lagi sofnaði ég og í öðru lagi fannst mér sem ég yrði fljótt mettur af dagskránni. Kannski er það bara hroki í mér að segja það en það verður þá bara að hafa það. Ég heyri að Valdís er farin að horfa á þátt með Skavlan og ég sé hann fyrir mér skrúfa sig til í stólnum og þar kom hrokinn upp í mér aftur. Ég vona bara að hrokinn sé ekki svo mikill að Óli vinur minn Lokbrá neiti að vera nálægur þegar ég legg mig á koddann.

Það skemmtilegasta sem ég upplifi á þessun augnabliki er hugsunin um það hversu nýr maður ég verði þegar ég vakna í fyrramálið eftir nálastungumeðferð og djúpan, læknandi svefn. Ekki það að mér finnst ég vera hinn hraustasti maður miðað við aldur, en hver veit; kannski verð ég ennþá léttari á fæti í fyrramálið. Og kannski leika orðin þá við hvern sinn fingur í huga mér og bloggsíðurnar fyllast hver af annarri. Valdís þurfti á nálastungunum að halda en ég fyrir mitt leyti tók þetta sem viðhaldsatriði svipað og þegar maður lætur yfirfara og smyrja bílinn sinn án þess þó að hann sé bilaður.

Þetta blogg er eiginlega sjálfskönnun. Það getur vel verið að mér finnist það óttalega vitlaust við yfirlestur á morgun. Við sjáum til. Ég kemst ekki að því nema gera tilraunina.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0