Að lifa lífinu þann 6.mars 2012

Þegar nokkur tré hafa blásið um koll á litlu svæði liggja þau dálítið þvers og kruss. Ég var að búta svona tré niður í eldiviðarlengdir í dag og úr því urðu gríðarlega margir bútar dreifðir út um allt á litlu svæði. Valdís var með sem öryggisventill ef eitthvað kæmi fyrir mig. Svo tíndi hún upp í hjólbörur og hún tíndu líka minni bútana saman í hrúgur. Inn á milli velti ég því fyrir mér hvort það væri að vera bjáni og einfeldningur að lifa svona lífi. En ef svo, þá er bara gaman að vera bjáni. Það er þriðji dagurinn sem við erum að sýsla við þetta í tandurhreinu vorvetrarloftinu.

Eftir að hafa hreinsað af greinar og brytjað niður tré á því svæði sem við höfðum sett okkur sem markmið í dag, fengum við okkur síðbúinn hádegisverð og fórum síðan inn í Marieberg. Við skiptum liði. Valdís tók að sér að annast innkaupin en ég fyllti bílinn af hráolíu og ætlaði svo að þvo hann. Þegar ég kom að þvottastöðinni var ungur maður þar inni að yfirfara búnaðinn þannig að það varð enginn þvottur í það skiptið. Ég fór þá inn í stóra verslunarmiðstöðvarhúsið í Marieberg þar sem ég vissi að Valdís var. Ég tók stefnu á apótekið þar sem ég reiknaði út að hún væri þar á þeirri stundu. Þegar ég kom svo langt að ég sá innganginn að apótekinu hægði ég ferðina og leit í kringum mig.

Allt í einu sá ég hvar hún kom út úr símabúðinni, létt á fæti, og svo hratt gekk hún að ég bara hugsaði að hvað hefði eiginlega komið fyrir þessa konu. Svo frísklega hafði ég ekki séð hana ganga síðan . . . . . ja, ég veit bara ekki hvenær. Nú fór ég í hálfgerðan feluleik til að geta fylgst lengur með þessu, njósnaði um hana, en ég sá rétt, hún gekk fislétt þvert yfir breiðan gang og hálfgert innitorg og stoppaði svo við hraðbanka. Jú, það var Valdís sem var í fötunum hennar, það var enginn umskiptingur.

Ég hugsaði hvort það gæti virkilega verið aukin útivera og hreyfing undanfarna daga sem ylli þessu og hvort það gæti virkilega virkað svona fljótt. Eitthvað var það alla vega. Svo núna í kvöld giskaði Valdís á að ferðin til töfrakonunnar með nálarnar í Vingåker á föstudaginn var hefði gert muninn. Kannski, að hluta, en ég vil samt trúa á að útiveran og holl samvera með náttúrunni eigi ríkan þátt í þessu. Ég finn líka að ég er sjálfur farinn að bregðast öðru vísi við eftir skammdegið. Þegar við svo komum heim frá Marieberg fór ég út og sótti átta hjólbörur af eldiviði, þungum aski, og það var svo notalegt að verða móður og draga útiloftið djúpt niður í lungun og finna það streyma út í líkamann. Ég vildi ekki hætta og hætti ekki fyrr en það var orðið aldimmt.


*

Ég tek mér tíma flesta daga til að hugleiða eitthvað og finn mér þá oft eitthvað stutt að lesa til að beina huganum inn á einhverja braut. Ég nota oft það sem ég kalla vísdómsorð. Sjálfsagt eru ekki öll vísdómsorð byggð á neinum sérstökum vísdómi, en þó eru mörg þeirra sögð af miklum rithöfundum, heimspekingum, hugsuðum, fólki sem hefur afkastað einhverju um dagana og hvað það getur nú heitið allt saman. Það má segja að mörgum þessara vísdómsorða er það sameiginlegt að þau tala um kyrrð, að vera hljóður, að hlusta frekar en tala, að taka eftir náttúrunni og almennt að vera eftirtektarsamur. Eins og svo oft áður ætla ég að nota hér vísdómsorð úr Kyrrð dagsins.

Þar sé ég að Cicero, rómverskur ræðusnillingur, rithöfundur og pólitíkus, sem var uppi 106 - 43 F.KR sagði þetta: "Indælast í lífinu er hið kyrrlátasta . . . lífshamingjan felst í hugarró."

Jane Austen, breskur rithöfundur, sem var uppi 1775 - 1817, sagði: "Ekkert er eins hressandi og endurnærandi og að sitja í forsælu á fögrum degi og horfa á grænan gróðurinn."

Thomas Edison, uppfinningamaður, var uppi 1847 - 1931. Hann sagði: "Menn hafa hugsað skýrast í einveru en skjátlast mest í öngþveiti."

Hér eru afar ólíkar manneskjur sem voru uppi á ólíkum tímum og náðu ólíkum aldri, manneskjur sem þurftu að umgangast fólk mikið, en þær eiga það þó sameiginlegt að sjá stærstu verðmætin í einveru, hugarró, kyrrð og náttúru. Ég gæti tekið svo ótrúlega mörg fleiri dæmi sem byggja á því sama. Þetta fólk hafði ekki þotur, farsíma, iPad eða sjónvarp og þá spurning hvort það sé marktækt í þessu samhengi. Því tókst samt að lifa og það án þess að geta keypt þunglyndislyf í apótekinu.

Ég tel mig umgangast mikið af fólki en finna mig líka í því sama og þetta fólk sem allt er þekkt fyrir sín ævistörf. Ég er ekki þekktur fyrir mitt ævistarf en get upplifað það sama. Ég sagði í upphafi að ég hefði velt því fyrir mér hvort ég væri bjáni og einfeldningur. Miðað við ofansagt tel ég mig ekki vera það. Ef til vill er ég hundleiðinlegur en Valdís kvartar þó ekki nema bara þegar eitthvað fer úrskeiðis milli okkar. Svo drögum við allt svoleiðis til baka.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0