Andi kyrrðar

Í morgun var Valdís á kóræfingu í Fjugesta en ég tók að vanda ruslakassana með og fór á litlu endurvinnslustöðina. Dagblöð í einum kassanum, plastumbúðir í einum, pappaumbúðir í einum og samansafn í einum. Betur er ekki hægt að gera nema þá aðeins með því að láta sem minnstar umbúðir koma inn á heimilið. Það eru orðin mörg árin síðan fólk fór með tómu mjólkurflöskurnar með víða stútnum í mjólkurbúðina og skilaði þeim og fékk mjólk á nýjum flöskum. Eða þá að það var farið með mjólkurbrúsann og svo mældi búðarfólkið í lítratali í brúsana.

Alveg rétt, svo var ég líka mjólkurpóstur árið 1956. Það var á Síðunni vestan við Klaustur, við Fjaðrá hjá Holti, þar sem við unnum við að byggja brú yfir ána. Ég var sendur að Hunkubökkum á hverjum morgni ef ég man rétt og þetta var all nokkur gönguferð og mikið á fótinn því að þá var bærinn langt upp í brekkunni fyrir ofan núverandi bæjarstæði. Svo fékk ég mjólk og kökur hjá henni Ragnheiði frænku minni og Herði bónda og svo spjölluðum við saman um stund, stundum all lengi. Svo tók ég áfylltan mjólkurbrúsann og lagði af stað að Fjaðrá og þá hallaði undan fæti.

Valmundur brúarsmiður og verktaki talaði eitthvað um að ég væri stundum lengi í mjólkurferðunum en mér var nokkuð sama. Mér fannst gaman að tala við Hunkubakkahjónin þó að ég væri bara 14 ára stráklingur og svo fannst mér líka að ég mokaði svo mikilli möl í hrærivélina að mér væri þetta leifilegt. Við vorum þrír um að moka í vélina þegar steypt var og við mokuðum fyrst í hjólbörur til að mæla malarmagnið. Svo sturtaði ég úr hjólbörunum í hrærivélarskúffuna.

Hundmjór var ég og slánalegur og ekki sterkur. Svo kom Valmundur og sagði mér að ég yrði að moka meiru en hinir mokstursmennirnir því að þeir væru svo gamlir. Svo reyndi ég að gera það og dreymdi allan tímann um matar- og kaffitíma og borðaði alveg gríðarlega mikið loksins þegar Bjarni Bárðar flautaði í mat og kaffi. Svo horfði ég af mikilli öfund á strákana sem voru þremur og fjórum árum eldri en ég, en þeir fengu að aka tilbúinni steypunni í hjólbörum og sturta í mótin. Þar er þessi steypa enn þann dag í dag. Svitadroparnir sem láku af mér eru hins vegar löngu gufaðir upp. Þessir hjólbörustrákar urðu síðar prestar, bændur og aðstoðarmenn ráðherra svo eitthvað sé nefnt.

Nú held ég að það sé alveg ljóst að ég hafi ekið útaf veginum því að ég ætlaði alls ekki að fara að skrifa um eitthvað sem skeði á miðri síðustu öld. En nú er það bara búið og það bara kom alveg af sjálfu sér svona eins og þegar menn keyra útaf veginum því að ekki stendur það til, það bara skeður. Ég veit varla hvað ég ætlaði að skrifa, það gleymdist í þessari brúarvinnu og ég held að það hafi gufað upp með svitadropunum.

Ég veit hins vegar að á morgun ætlum við Valdís að skreppa til Vingåker og hitta töfrakonuna. Hún ætlar að nudda okkur og setja í okkur einhvern helling af nálum. Síðan fáum við okkur væntanlega kaffi og og eitthvað hollt með því á Vingåkerskaffi og svo höldum við heim eins og nýjar manneskjur. Þá verðum við líka komin svo nálætgt Vornesi að ég skrepp þangað meðan Valdís liggur á bekknum hjá töfrakonunni, lítandi út eins og broddgöltur með nálar standandi út í allar áttir. Ég þarf að skila tímum sem ég vann síðasta mánuð til hennar Lenu á skrifstofunni. Ég fær ekki útborgað þann 27. ef ég skila ekki af mér tímunum. Svo þegar ég kem til baka frá Vornesi verður meðferðinni á Valdísi væntanlega lokið og þá verður það mitt að komast í hlutverk broddgaltarins.

Nú er kominn tími fyrir mig að leggjast á koddann. Ég heyri að Óli Lokbrá er mættur hjá konunni sem sefur í hinum helmingnum af rúminu. Ég finn fyrir pínulítilli afbrýðissemi þegar ég heyri þetta en ég veit að hann kemur til mín líka þegar ég er kominn í rétta stellingu. Síðan við komum heim frá Fjugesta um hádegisbil hefur andi kyrrðar ríkt á heimilinu og kyrrðin mun einnig ríkja í félagsskapnum með Óla.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0