Áskorun

Að ég er búin að skrifa fyrirsögn að bloggi er einungis áskorun á sjálfan mig um að lyfta mér upp úr béaðri eymdarstemmingu og gera eins og Laxness sagði eitt sinn í einhverju viðtali: Eigum við ekki að lyfta þessari umræðu upp á svolítið hærra plan. Og fyrst ég nefndi Laxness; ég var ögn stoltur af henni Steinunni frænku minni Sigurðardóttur þegar hún hafði afmælisviðtal við hann og spurði hvað hann gerði fyrst af öllu þegar hann vaknaði á morgnana. Nú, hann svaraði einfaldlega að það væri að opna augun og geyspa. Hún lét hann ekki setja sig út af laginu og hélt þættinum áfram eins og hún hefði bara átt von á þessu svari. En þetta kannast sjálfsagt allir Íslendingar við sem eru um og yfir miðjan aldur.

Í fyrrakvöld var sýnt úr sænskri íshöll þar sem kona reið Íslandshesti, á ís að sjálfsögðu. Hún sagði þetta vera íslensk hefð sem menn kölluðu ísreið. Stundum kunna Svíar meira um Ísland en ég, því að ég man ekki eftir þessu sem neinu sérstöku utan að ég kannast við að menn riðu á ís og get ímyndað mér að í snjóalögum hafi verið mikið betra að ríða á ís en að troðast gegnum djúpa skafla. Í viðtali um íslenska hestinn eftir sýninguna sagði þessi kona að hann væri alls ekki lítill, hann væri stór hestur í litlum líkama og það væri ekkert einfalt að ríða Íslandshestum. Þeir væru hins vegar mjög góðir til reiðar. Raddblær Svía verður hátíðlegur þegar þeir tala um Íslandshestana.

Ég féll nokkuð fyrir framhaldsþætti í sjónvarpi um nokkrar fjölskyldur frá Stokkhólmi sem settust að hvert á sínum stað út á landi í fjórar vikur til að sjá um eitthvað. Tvær tóku að sér að reka á eigin spýtur lítil veitingahús, ein tók að sér að reka bensínstöð út í Stokkhólms skerjagarði og ein tók einfaldlega að sér að sjá um kúabú. Ekkert af þessum fjölskyldum var vön að vinna við það sem þær tóku sér á hendur. Það hefur verið gaman að sjá áhrifn sem börnin urðu fyrir við að mæta þessu algerlega nýja umhverfi og þeim verkefnum sem því tilheyrðu. Allir unnu nefnilega að öllu.

Í gær var lokaþátturinn. Bóndinn sem átti kúabúið kom í heimsókn til fjölskyldunnar sem annaðist búið hans og hann hélt á gæs í annarri hendinni og hafði byssu um öxl. Hann stakk upp á að fjölskyldan matreiddi nú gæsina og svo kæmi hann og borðaði kvöldverð með þeim. Það var samþykkt. En áður en hann fór slaktaði hann gæsinni. Meðan hann var skera, slíta og rífa í sundur, horfði ellefu ára gömul stúlka á þetta með augu á stærð við augu Íslandshests. Hún mótmælti ekki en hún sagði að þetta væri svo hræðilegt. Hún dró hendina niður frá hálsi, yfir bringuna og magann og sagði: Og allt þetta sem rétt áðan var hér inni og verkaði svo frábærilega, það er bara búið, og það er búið að slíta það burt. Já, það voru hugsanir og orð sem svo mörgum eldri hefði aldrei tekist að raða saman. Ég hugsa að hún verði heimspekingur.

Ég gekk fram að sjónvarpi fyrir um hálftíma. Það var verið að segja fréttir og mér finnst búið að vera svo mikið um fréttir en þó bara eins og venjulega. Ég veit að margt hefur tekist vel á mörgum sviðum í Svíþjóð í dag, en allar fréttir hafa samt verið um það sem farið hefur illa og það hefur verið endurtekið hvað eftir annað. Einn þáttur sem er fyrir klukkan sex síðdegis á virkum dögum hefur samt fjallað um hið gagnstæða. Þáttastjórnandinn, Sverker, hlýtur að vera ánægður með þáttinn sinn. Þar eru jákvæðu viðhorfin.

Ég hefði líka getað valið að blogga um leiðindamál en ég vil lýkjast Sverker. Áskorunin á sjálfan mig um að ljúka einu bloggi eftir nokkurra daga hlé var líka sú að hitta það jákvæða. Ég er á öruggum batavegi eftir flensuna og þó að ásláttarvillurnar hafi verið fleiri en venjulega hugsa ég að mér takist að leiðrétta þær flestar. Nú finnst mér sem ég sé búinn að gera eitthvað í dag. Það er hins vegar konan mín sem er búin að gera allt hitt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0