Helgi í Stokkhólmi, 11. mars 2012

Eftir hádegi á föstudag lögðum við af stað til Stokkhólms. Meiningin  var að fara þessa ferð á þriðjudaginn var og hitta þá Valgerði um leið, en hún ætlaði þá að koma til Stokkhólms. En það lá þá annað og óvænt fyrir henni þar sem hún var úlnliðsbrotin, með vonda verki og flóknar umbúðir um úlnliðinn og hendina. Hún hélt sig sem sagt heima. Við Valdís frestuðum því ferðinni til helgarinnar.

Við fórum frá Sólvöllum til Örebro, norður gegnum Örebro og þaðan til austurs móti Stokkhólmi. Þessa leið frá Örebro til Stokkhólms fórum við í fyrsta skipti í mars 1997, og þá við sérstakar aðstæður að mér fannst, en það fer ég ekki inn á núna. Ef til vill er ég líka búinn að blogga um það áður þó að ég muni ekki til þess. Það er svo sem ekki mikið um svona ferð að segja á þessum árstíma, en að vori eða sumri til er hver kílómeter nánast upplifun. Einnig má segja að svo sé þegar allt liggur undir nýföllnum, tandurhreinum snjó.

Þegar við vorum komin upp stigana tvo heima hjá Rósu og stóðum á pallinum við dyrnar inn til þeirra, þá heyrðum við til Hannesar og það duldist ekki að hann átti von á gestum. Ég fékk strax að taka hann upp en síðan vildi hann niður á gólfið á ný og svo teygði hann hendina til okkar og benti okkur að koma. Hann ætlaði að sýna okkur eitthvað. Hann vildi sýna okkur leikföngin sín. Svo lékum við okkur að lestinni hans, eimreiðarnar suðuðu, fóru yfir brýr og undir brýr og sannelikurinn er sá að fullorðnir geta alveg fallið fyrir þessu leiktæki.


Það er bara hið skemmtilegasta annríki að bjástra við þetta. Það þarf að breyta teinum, gera við eftir að lítill maður hleypur skyndilega yfir teinana, bæta inn í vögnum og segja vááá þegar eitthvað tekst sérstaklega vel.


En við stoppuðum líka inn á milli og það var þetta með bíllyklana, það var svo gaman að ýta á lítinn silfurlitan hnapp á handfanginu og þá small lykilinn út. Þá hlógum við.


Svo fórum við öll í gönguferð, fundum bát sem Hannes kannaðist við og hann fór beint í brúna og tók höndum um stýrið. Mamma stóð frammi í stafni og steig ölduna en pabbi ljósmyndaði.


Amma beið á bryggjunni og þegar Hannes var búinn að leggja að og láta binda steig hann frá borði og leitaði nýrra ævintýra.


Öðru hvoru þarf maður að slappa af og að hafa þak yfir höfuðið er jú alveg meiri háttar munaður.


Nú er kannski hætta á óhreinindum og þá er bara að galla sig og vera vel búinn í slaginn.


Amma! amma! haltu nú í hendina á mér, þetta verkar svo svakalega hátt.


Eftir mikil hlaup, báta, rólur, rennibrautir, kastala og sandkassa verður maðurn auðvitað þreyttur. Mikið var gott þegar mamma og pabbi buðu upp á ávaxtasafa og pylsu. Namm, namm, og svo var svo gott að hvíla sig. Kinnarnar rauðar og augun frískleg.


Ekki veit ég hvort hann fann á sér að við mundum brátt fara, en alla vega, allt í einu hljóp hann inn í herbergið sitt og sótti leikföng. Við vorum þá að borða morgunverðinn í morgun og hann vildi sýna mér leikföngin sín. Og hvað gerir afi þá? Jú, honum finnst leikföngin alveg sérstaklega athyglisverð. Svo sótti hann fleiri leikföng og sýndi afa, og svo enn fleiri. Afi hafði áhuga á leikföngunum hans og þetta var svo gaman. Hann hljóp hratt og rak aldrei tærnar í þröskuldinn.


Það nálgaðist brottför og afa og ömmu leiddist að yfirgefa Hannes Guðjón og fjölskyldu. Ég fór inn í herbergið hans og horfði á lestarteinana, eimreiðar, málmvagna og fleiri græjur sem allt var tilbúið að fara í ferðir. Ég hugsaði að þetta væru svo skemmtileg leikföng og tók mynd til að geta horft á nokkuð þegar ég kæmi heim sem fullorðnir geta haft gaman af líka -það er bara að geta viðurkennt það. Á þessari mynd er aðeins einföld útfærsla af járnbrautarkerfinu en í fyrradag, þá var sko hægt að segja að járnbrautarkerfið væri flókið. Það var næstum því hægt að villast á því.


Svo vorum við komin út að bíl og settum tösku og fleira dót í farangursrýmið. Það var líklega þá sem Hannes Guðjón sá hvað verða vildi, varð alveg viss. Síðast tók Valdís mynd af okkur hinum þarna á stéttinni en nú tók ég mynd af þeim. Þá sá ég að lítill maður var dapur á svip og hann fékkst alls ekki til að líta upp og brosa, ekki til að tala um. Ég gekk að honum, kyssti hann á kynnina og sagði bless. Hann var hljóður en byrjaði að vinka með hendina við eyra mömmu sinnar. Hann hreyfði hendina lítið og hægt, eins og hann væri eiginlega að vinka í laumi en hann vissi að ég sá það. Svo kvaddi amma hans hann.

Við afi og amma vorum hnuggin þegar við ókum áleiðis suður úr Stokkhólmi og ég var svo fastur við þessa hægu hreyfingu þegar hann nafni minn vinkaði bless en treysti sér ekki til að líta upp. Við hefðum nú getað farið með þeim í aðra gönguferð eins og við fórum í gær og tekið eftir því þegar hann gerði eitthvað nýtt, klappað fyrir honum þegar hann þorði því sem hann hafði ekki gert áður og bara haft með þeim einfalda góða dagstund og komið seinna heim. Svo þegar við vorum komin suður úr Stokkhólmi hringdi Rósa og sagði að Hannes Guðjón hefði spurt hvað eftir annað eftir afa. Stundum kallar hann okkur bæði afa

Í bæ skammt sunnan við Stokkhólm setti ég hraðastillinn á 105 km á 120 km vegi. Þannig ókum við um það bil 100 km vegalengd án nokkurra minnstu hræringa annað en að stýra bílnum eftir veginum. Aftur og aftur sá ég fyrir mér litlu hendina sem vinkaði svo lítið bar á. Ég hugsaði um ábyrgð og að bregðast ekki, ég hugleiddi framtíð lítils drengs og fann fyrir löngun til að hitta hann sem fyrst aftur.

Þegar við komum til Örebro fórum við inn á Maxi hamborgarastað til að kaupa hamborgara í kvöldmatinn. Mér finnst alltaf sem ég sé á öfugum stað þegar ég kem inn á slíka staði. Þegar svo unglingurinn sem afgreiddi okkur setti franskar kartöflur niður í pokann sem við fórum með heim, fannst mér sem tæplega sjötugur kall ætti ekki að gera þetta. Ég sem hafði hugsað svo mikið um þá ábyrgð sem foreldrar og afar og ömmur bera á þessum minnstu ungviðum bar nú út í bíl tvo hamborgara og pappírsumbúðir sem hafa sennilega vegið meira en innihaldið. Hamborgararnir eru nú étnir utan frönsku kartöflurnar mínar sem fóru í ruslið og umbúðirnar bíða þess að fara á endurvinnslustöðina.


Kommentarer
Rósa

Takk fyrir komuna. Hannes jafnaði sig þegar hann var búinn að vera úti í smá stund og fékk pulsu :-)



Kveðja,



R

2012-03-15 @ 11:02:57
Rósa

Takk fyrir komuna. Hannes jafnaði sig þegar hann var búinn að vera úti í smá stund og fékk pulsu :-)



Kveðja,



R

2012-03-15 @ 11:03:13
Guðjón

Ég var feginn að heyra það. Það var eins og við hefðum svikið hann svo illa. Ég vona að hann treysti okkur þegar við hittum hann næst.



Kveðja,



pabbi/afi

2012-03-15 @ 12:22:15
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0