Þriðjudagurinn 13. mars 2012

Ekki er hægt að horfa á sjónvarpið allt kvöldið fannst mér og því stóð ég upp, hálf stirðnaður í stólnum, og hugsaði eitt augnablik hvað ég ætti að gera við kvöldið. Nóg hef ég að lesa, mikið sem ég hef lagt til hliðar til að lesa seinna, en mér fannst ekki taka því að byrja á því núna. Enn er of mikið á verkefnalistanum til að ég geti eingöngu helgað mig ellilífeyrisþeganum sem mig langar að kynnast, eða öllu heldur því lífi sem hann kemur til með að lifa.

Ég heyrði mjög skemmtilega umfjöllun í sjónvarpi í morgun og þá kem ég upp um strákinn Tuma. Að horfa á sjónvarp á morgnana! Það er að vísu ekki daglegt brauð af minni hálfu, en oft er það svo að ef kveikt er á sjónvarpinu fyrir hádegi, þá kemur í ljós að þar býðst upp á mjög athyglisvert efni. Í morgun var viðtal við hann Jan Eliasson sem ég talaði um fyrir stuttu þar sem hann hefði verið ráðinn næst æðsti maður Sameinuðu þjóðanna frá 1. júlí næstkomandi. Við ákváðum strax að horfa á þetta viðtal til enda áður en við snerum okkur að verkefni dagsins.

Fyrirspyrjandinn spurði þennan sjötíu og eins árs gamla mann hvort hann teldi að möguleikar internetsins væru nægjanlega nýttir af Sameinuðu þjóðunum sem baráttutæki til að koma á framfæri hvernig hægt væri að vinna mannkyni til friðar, heilla og framfara. Þessu svaraði Jan á svo frábæran hátt sem gladdi mig svo sannarlega. Hann sagði nefnilega að hann gæti ekki svarað þessu þar sem hann ætti svo margt ólært á þessu sviði.

Mikið var skemmtilegt að heyra þetta. Hann sagði að hann ætti eitthvað ólært og það lá í orðunum að hann ætlaði að læra það. Hann er að vísu fullvinnandi maður en ég meira ellilífeyrisþegi, en mér fannst þetta staðfesta að ég gæti líka lært margt af því sem mér finnst ég eiga eftir að læra -og vil læra.

En ef ég kem mér nú niður á jörðina aftur, þá er það svo að ennþá erum við að vinna í skóginum. Það er ekki nóg að fella tré til að grisja í skógi. Það þarf að búta niður, flytja heim það sem fellt er og ganga frá þeim haug greina sem fellur til. Grisjun sem hófst fyrir alvöru árið 2004 stendur enn yfir. Áfanganum núna ætlum við að ljúka á morgun. Þá á allur viður að vera kominn í stæður heim undir húsi og svo er eftir að kljúfa og raða í geymslu. Það má bíða en þó ekki hversu lengi sem helst. Hann Kjell, fyrrverandi vinnufélagi minn og vinur, sagði þegar hann gekk með mér um Sólvallaskóginn fljótlega eftir að við keyptum, að hér væri svo mikil vinna eftir við grisjun að það væri best að tala ekki um það. Þetta hefur verið mikil og góð vinna og venjulega skemmtileg.

Við fórum líka til Fjugesta í dag, Valdís til að versla en á meðan fór ég á heilsugsæluna til að láta bólusetja mig móti heilahimnubólgu. Festingar (fästing) sem nóg er af í miklum gróðri geta smitað fólk af heilahimnubólgu og bórelíu. Þar sem eitthvað á annað hundrað festingar hafa fest sig í húð minni er í raun tími til kominn að ég láti bólusetja mig. Bórelíu fékk ég líklega í fyrra og ég fékk fúkalyf við því. Það er ekki hægt að bólusetja við bórelíu enda er hún að því ég best veit ekki hættuleg ef hún uppgötvas í tíma. Heilahimnubólga er dálítið annað mál en líka hægt að bólusetja við henni.

Ég sá á FB í fyrra að einhver talaði um að lítil en ægileg ófreskja væri komin til Íslands, sem bæri með sér ógnvekjandi sjúkdóma. Mig minnir að þessi ófreskja hafi verið nefnd skógarmítill og ég taldi það vera það sem við köllum festing. Þetta er svo sem ekki hættulegri ófreskja en svo að það er bara að læra að lifa með henni. Það er svo margt sem er hættulegt. Það er hættulegt að fara á skíðum, að drekka sig fullan, að ferðast á bíl og bara nefndu það. Ekki hikar fólk við að gera þetta allt saman og ekki hikar maður við að fara út í guðsdgræna náttúruna af þvi að þar gætu fundist skógarmítlar.


Hér er mynd af þessu dýri, mikið stækkuð, og hér fyrir neðan er slóð á björgunaraðgerðir fyrir þá sem verða fyrir biti. Skógarmítillinn stingur höfðinu inn í húðina og festir sig þar. Síðan nærist hann á blóði og stækkar ört. Sumir segja að það sé betra að láta hann stækka svolítið því að þá er betra að ná taki á honum. Ég bið Valdísi að fjarlægja hann strax og ég verð hans var.

Að fjarlægja skógarmítil

Nú ætla ég að snúa mér frá þessu leiðindatali um skógarmítil. Ef ég fer með rangt nafn vil ég gjarnan vita hvað hið rétta, íslenska nafn er. Það er kominn tími til að bursta og pissa og leita svo félagsskapar Óla í draumalandinu undir ullarfeldinum. Fyrst lít ég kannski í bók. Það er þó ekki víst að mér takist að líta í bók því að ég er svo undur snöggur að komast í draumalandið eftir að ég leggst á koddann. Það er góður eiginleiki eða náðargáfa að sofa vel á nóttunni. Alla vega um langt skeið hef ég verið þessarar náðargáfu aðnjótandi. Nýi mjaðmaliðurinn færði mér til baka svefninn og þökk sé þeim sem fundu leið til að bæta lífsgæði svo margra með því að finna upp mjaðmaliði úr málmi. Málmur lætur svo sem ekki vel sem hluti af líkamanum svona á blaði, en gerir svo sannarlega sitt gagn.

Hann Jan Eliasson sagði í morgun að það væru þrjú megin atriði sem gott samfélag byggðist á: friður, framfarir og mannréttindi. Þegar maður vissi það væri hægt að fara að vinna.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0