Vorverk 4. mars 2012

Í gær, laugardag, fórum við Valdís út í skóg. Ég hafði mótorsögina með mér en Valdís kom með til að gæta mín sem hún gerir alltaf þegar ég felli tré. Það er eiginlega síðustu forvöð að fella þau tré sem á að fella áður en birkið fer að draga safann upp í stofnana. Við felldum svo sem ekki mörg tré en við byrjuðum líka á því að hreinsa greinar af trjám sem fuku í vindunum um áramótin. Einnig að brytja þau niður í hæfilega langa eldiviðarbúta. Svo verða hjólbörurnar teknar í gagnið og ferðirnar farnar svo lengi sem þarf þangað til allur viðurinn verður kominn á athafnasvæði Valdísar þar sem hún klýfur, klýfur og klýfur, þangað til hver einasti kubbur verður tilbúinn til þurrkunar. Málið var bara að byrja þetta verk í gær, því að þegar verk er hafið er eins og það kalli á að því verði haldið áfram. Hann Arnold bóndi kemur líka á morgun, mánudag, til að fella með mér tré sem verða að falla mjög nákvæmlega á fyrirfram ákveðna staði.

Svo þegar útiloftið var byrjað að streyma út í líkamann þarna í gær vildum við halda áfram. Ég tók góða sög og tröppu og sagaði all margar neðstu greinarnar af eikum hér næst húsinu. Við ræddum um hvert tré fyrir sig og ég byrjaði ekki að saga fyrr en við vorum sammála. Svo fór ég allt í einu að hugsa út í það að ég hefði átt mína drauma um skógarlendur allt frá bernsku, en að ég mundi upplifa það að laga til eikartré heima hjá mér, það var alveg örugglega aldrei með í draumunum. Í gær var það hins vegar staðreynd. Ég tel að ég hafi álitið að eikur væru suðlægari tré en svo að þau gætu vaxið hér.

Og svo kom sunnudagur með Vasagöngu sem ekki er spurningin um að horfa á, það er bara að horfa á. Svo var það sjónvarpsmessan og þá var Vasagangan komin svo vel á veg að það var svo sem ekkert sérstakt fyrr en þeir fyrstu færu að nálgast strikið í Mora. Þó að það sé þessi ótrúlegi fjöldi sem tekur þátt í þessari 90 km löngu göngu finnst mér það afrek að ljúka henni. Einn maður sem talað var við er búinn að taka þátt í Vasagöngunni 54 sinnum. Honum lá ekkert á. Það eru svo margir þátttakendur sem ekki eru að keppa. Markmiðið er bara að vera með.

Að þessum dagskrárliðum loknum tók ég klippur og sög og hélt út í skóg en Valdís tók að sér að þrífa bílinn innan. Hún lítur á það sem sitt verk, enda líklega eins gott. Ég heimsótti einar 70 eikur af stærðinni 1,5 metrar til 3 metrar. Ég spjallaði svolítið við þær og snyrti margar þeirra. Það er réttur tími til að snyrta eikur núna, ef nokkuð þá full snemmt. Þær sem voru minni verða að vaxa eitt ár og meira til að fá að njóta þess að verða snyrtar og teknar í viðtal. Eftir fáein ár kemur svo ásteningartíminn, það er að segja þegar lélegri einstaklingarnir og þeir sem standa of þétt eða á öfugum stað verða fjarlægðir en úrvalið fær að lifa í rýmra plássi.

Það er kominn nýr ábúandi á Sólvelli. Það er fasani. Hann spígsporar hér fram og til baka á hverjum degi, en hann fer all hratt yfir þannig að við höfum ekki náð mynd af honum. Fasani er fjölkvænisfugl og hver veit hvað verður úr þessu. Við höfum hengt mikið af tólgarboltum fylltum með einhverju fuglakorni í tré hér næst húsinu. Árangurinn er mikilll fuglasöngur sem er af okkur vel þeginn. Svartur köttur lámast mikið hér í kring og hann er ekki eins vel þeginn gestkomandi. Helst mundi ég vilja gefa honum eitthvað svo ógeðslegt að éta að hann kæmi aldrei aftur. Ég meina þó ekki að eitra fyrir hann. Ég er oft búinn að hvæsa ógnandi að honum og þá hleypur hann burtu með ógnar hraða, en hann er fljótur að gleyma og kemur jafnan aftur.

Þetta er ekki fasaninn okkar, ég fann þessa mynd á wikipedia og ljósmyndarinn var ekki nafngreindur. Þetta stél á hananum hlytur að vera um hálfur metri á lengd. Ég bara verð, áður en mars er liðinn, að smíða slatta af fuglahólkum til að hengja upp í tré hér í kringum okkur. Ekki fyrir fasana, heldur fyrir þá fugla sem hafa verið að éta tólgarboltana sem við höfum hengt út.


Þarna næstum á miðri mynd gefur að líta fasanann okkar á leið yfir á lóð grannanna. Hann er örugglega að leita að stelpum sem hann ætlar að búa með á landinu okkar.


Fyrst að saga svolítð frá stofninum.


Síðan upp við stofninn en þó ekki of nærri. Þessi eik verður orðin mjög tígulleg eftir 60 ár. Ég hlakka til.


Þetta beyki sem var flutt úr skógi nálægt Vingåker fyrir fjórum árum en nú á hæð við tvær og hálfa Valdísi grunar mig. Það verður gaman að fylgjast með laufkomunni í vor. Þá fellur gamla laufið sem ekki er þegar fallið.


Við vorum búin að sækja eik inn í skóg frekar seint að vori fyrir fjórum árum, eins og á fyrri mynd, og gróðursetja þarna. Í byrjun júlí sáum við að hún var hreinlega með allt of grannan stofn og mundi aldrei standa sig á þessum stað. Um miðnætti þetta júlíkvöld rifum við hana upp og sóttum aðra mikið sterkari og skiptum um tré. Að gera þetta um miðnætti var vegna þess að við vildum ekki láta nokkurn mann sjá að við værum að flytja eikartré um mitt sumar. Það var bara fáránlegt. Seinna sagði ég nágranna í næstnæsta húsi norðan við frá þessu. Hann hafði þá gert þetta líka, móti öllu sem á að vera hægt. Svo hlógum við að þessu. Tré nágrannans, tréð sem við fórum með aftur út í skóg og tréð sem við sóttum þangað þetta júlíkvöld -þau lifa öll og virðast hraust.


Kommentarer
Guðmundur

Sæl verið þið kæru hjón.

Gaman að lesa pistilinn þinn, Guðjón, eins og endra nær. Alveg er ég hissa hve mikið lauf er á beykitrénu á myndinni ennþá. Það blása greinilega ekki mjög kröftugir vindar um það, sem betur fer. Í dag var ég að ríða út hér á Álftanesinu og skiptust á glampandi fallegt veður sem fyllti mann vorhug, og svo, eins og hendi væri veifað, koldimm él, svo að maður setti undir sig hausinn í veðrið og lét klárinn um að rata, því ekki var viðlit að horfa í élið, svo beitt voru kornin. En, eins og öll él, stytti þessi upp fljótlega.

Bestu kveðjur til ykkar Valdísar,

Mummi

2012-03-04 @ 22:48:38
Guðjón

Takk fyrir línurnar Mummi. Öll él styttir upp um síðir og ég kemm líka til með að blogga meira um skóginn.



Með bestum kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2012-03-05 @ 20:30:10
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0