Að kvöldi þann 15. mars 2012

Í gærmorgun var fyrsti morguninn sem við kveiktum ekki upp í kamínunni. Við kveiktum hins vegar upp í henni undir kvöldið. Þetta, ásamt vaxandi fuglasöng og krókusunum sem Valdís fann í skógarjaðrinum í gær, er vorboði. Hins vegar var ekkert um annað að ræða en að kveikja upp í morgun. Það er kannski ekki hægt að kalla það bakslag, heldur bara það að það var ekki jafn hlýtt í dag og í gær. Það var líka svolítill golukaldi hluta úr deginum í dag. Það er spáð hlýindum.

Svanirnir eru farnir að safnast saman á og við grunnt vatn skammt vestan við Örebro. Að lokum verða þeir þar í tugþúsunda tali áður en þeir dreifast um svæði mjög langt fyrir norðan og norðaustan. Í gær sá ég eina fimmtán svani í oddaflugi hér yfir Sólvöllum á leið til norðurs. Trönur hef ég ekki séð ennþá. Þær koma til með að safnast í tugþúsunda tali við annað vatn all nokkurn spöl sunnan við Örebro áður en þeir dreifast um sænskar sveitir og landshluta til að verpa og koma upp ungum.

Fyrir einum tveimur vikum sá ég græna brumhnappa á víðiplöntu sem er hér út í skógi. Nú hef ég ekki fundið þessa plöntu aftur en hins vegar eru brumin á birkinu farin að fá á sig grænan lit en alls ekki að opnast. Ég er búinn að vera mikið í skóginum síðustu daga og er búinn að stoppa hjá mörgum kunningjum og sjá fyrir mér að þeir dafni vel á þessu sumri.

Eina 20 metra austan við húsið er skítahrúga sem elgurinn hefur skilið eftir sig. Nokkrar litlar eikur þar í nánd hafa tapað vaxtarsprotum síðasta árs. Merkilegt að þær skyldu ekki vera fleiri. Kannski hefur elgurinn orðið fyrir styggð og ekki gefið sér tíma til að taka fleiri eikur. Þetta mikla og virðulega skógardýr getur gert mikinn usla ef það röltir í næði milli smáeikanna. Samt er það svo að ef fólk sér elg á stuttu færi, þá er það mikilfenglegheitin sem eru fyrstu áhrifin en ekki að hann éti ungplöntur.

Vorið er á næsta leyti og við erum með náttúruna við húsvegginn. Þetta eru stórkostlegir tímar og verðmætir. Á morgun heimsækjum við Valdís töfrakonuna í Vingåker með það í huga að gera okkur í besta mögulega stand fyrir vorið og sumarið svo að við getum á besta hátt tekið þátt í veislunni. Við munum gera meira af slíku á næstunni en á morgun er það Vingåker.

Hér eru svo nokkrar línur teknar úr speki Hopi-indíána:

Andaðu að þér ferskum blæ dögunarinnar
svo að hún verði hluti af þér.
Það færir þér styrk.

Þetta passar vel fyrir vorkomuna með björtum morgnum, snemma, sólina sindrandi gegnum laufríkar krónurnar í háum skóginum móti austri. Fuglarnir uppteknir við söng og annir, dögg á jörðu og ilm af jörð og gróðri. Að ganga út á svona morgnum er að vera með í lífinu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0