Að byggja sterkt hús

Það hefur verið leyndarmál um tíma hvernig Sólvallahúsið lítur orðið út og við líklega höldum því bara leyndu enn um sinn. En eins og ég hef oft sagt áður hef ég skrifað og skrifa enn mikið um þessa byggingu eins og um mjög sögulegar byggingarframkvæmdir sé að ræða. En þó að það sé leyndarmál hvernig byggingin lítur út í dag er auðvitað mikið hægt að skrifa. Smiðurinn var hér í dag og það var eins og vant er þegar hann kemur að þá tekur allt verkefnið gríðarlegan sprett og hann gerir á einum degi það sem ég geri á kannski þremur dögum. Svo þegar við leggjum saman verður dagsáfanginn mjög veglegur. Við vorum með myndavélina á ferðinni í dag eins og síðustu daga og ég ætla nú að bregða fyrir mig nokkrum myndum.


Þegar við keyptum Sólvelli var húsið auglýst sem einfaldur sumarbústaður. Það var orð að sönnu en einhvern veginn var þokki yfir öllu þessu húsi og frágangi þess og sjálft húsið reglulega fallegt. En ef sólvellir eiga allt í einu að geta kallast einbýlishús er ekki nóg að bæta við það. Gamla húsið verður þá líka að fá vissar endurbætur og styrkingar. Á laugardaginn var var mér búið að vera ljóst lengi að ég þyrfti að grafa talsverða holu undir eldhúsinu og steypa þar heil mikinn nökkva sem undirstöðu undir súlu sem á að halda undir veglegan límtrésbita sem aftur á að halda uppi stærstum hluta af gamla þakinu. Síðan ætlum við að hækka til lofts í þessum hluta. En nú var komið að þessu verki, það var ekki umflúið en ég get ekki sagt að ég hafi hlakkað til. Á myndinni fyrir ofan, verkið er hafið, þrjár fjalir farnar og það verður ekki aftur snúið.


Það svo sem sést ekki mikið á þessari mynd en alla vega er ég þarna búinn að moka um 400 kg upp úr þessari holu, bera út í fötu og hella þar í hjólbörur. Það versta var að yfir holunni var gólfbiti sem ekki sést á myndinni. Bitinn sem sést á myndinni er langband sem gengur þvert undir alla gólfbitana. Daginn eftir þegar ég ætlaði að fara að undirbúa steypinguna kom í ljós að ég þurfti að grafa út nokkrar fötur í viðbót. Og hvað gerir maður þá? Jú, grefur það sem á vantar.


Það var kominn sunnudagur og sjónvarpsmessunni var lokið. Þá var ekki beðið boðanna og uppsláttur úr einangrunarplasti hófst, að vísu eftir að hafa grafið út svolítið í viðbót við gröft gærdagins. Svo hófst steypuvinna og járnbending og það var sami háttur hafður á og daginn áður utan það að nú bar ég steypu inn í fötunni. Ég veit ekki hvort ég á að segja að þetta hafi verið gaman en alla vega þótti mér skemmtilegt að geta framkvæmt þetta sjálfur og þurfa ekki að skæla yfir því. Svo vissi ég líka að þetta var þáttur í því að gera Sólvallahúsið þannig úr garði að það verði sterkt einbýlishús og ekki lengur einfaldur sumarbústaður. Rúmlega 400 kg steypuhnallur sem ég gerði þarna er þáttur í því.


Þarna er annar steypuhnallur sem ég gerði fyrir nokkrum vikum og hann er líka þáttur í þessari styrkingu. Á þessari mynd til hægri sést upp í gólfbita sem áður var endabiti en er nú fimm metra inn undir húsinu. Þetta minnir mig á eina af ferðum mínum á Sólvelli áður en við keyptum húsið þegar ég tók með mér hamar og nagla og negldi upp í bitana til að athuga fúa. Niðurstaðan var; enginn fúi. Það sést líka vel þegar unnið er svona við húsið eins og við höfum gert undanfarið; enginn fúi.


Ég var viss um það að þegar ég var búinn að gera tilbúinn þennan seinni steinnökkva, að þá væri öllum slæmum verkum lokið vegna þessara byggingarframkvæmda okkar. En ég komst að því þegar ég var að rífa burtu þakfótinn sem lenti inn í nýju forstofunni að það var engu þægilegra verk en að grafa fyrir og steypa steypuklumpa inn undir húsi.


Og að saga með vinstri hendi 20 sm sperruenda út í horni og saga bæði í fjögurra tommu nagna og stóra skrúfu, það krafði þolinmæði og að taka nokkrar pásur. En nú er það búið líka og um helgina verða bara skemmtileg verk að vinna á Sólvöllum.

En er þá ekki best að halda upp á þetta með því að ljóstra upp leyndarmálinu og þá legg ég til að litið verði á næsta blogg hér fyrir neðan.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0