Óli er nefnilega góður

Upp úr klukkan fimm í gærmorgun fór ég að bæra á mér, teygja úr mér í bólinu og búa mig hugarfarslega undir að dagur væri að hefjast. Ég nennti ekki í vinnuna í Vornesi en vissi að ég yrði viljugri þegar ég kæmi mér á ról. Þegar ég svo lagði af stað var alls ekki full bjart en það birti að fullu á leiðinni. Hálf átta var ég frammi í Vornesi og hitti þar marga alkohólista og finnska ellilífeyrisþegann Jorma sem vann fyrri hluta helgarinnar. Mér var vel tekið af öllum.

Síðan hófst 16 klukkutíma vinnudagur fylgjandi af stuttum nætursvefni og svo í gang aftur klukkan hálf sex í morgun. Þetta eru sleitulausir dagar, aleinn með alla innskrifaða sem um þessa helgi voru 23. Kona kom í eldhúsið um tíuleytið og var í fimm klukkutíma. Ekki vantar góðan matt í Vornesi og sjúklingarnir eru þakklátir og nánast hrærðir yfir öllum þeim góða mat sem þeir fá. Ég þrífst vel með þessu fólki og þau eru mörg fallegu gullkornin sem hrjóta af vörum þeirra þegar þau eru að stíga fyrstu sporin móti nýju lífi.

Af þessu sést að það er bara fyrir mig að koma mér í gang og svo verður dagurinn góður. Hins vegar verð ég að viðurkenna að þegar ég er á leiðinni heim eftir svona vinnutörn, milli klukkan tíu og ellefu fyrir hádegi, að þá verð ég þreyttur. Svo var það líka í dag og eftir svolitla hressingu við heimkomuna var alveg makalaust notalegt að hníga svolitla stund niður í mjúkan stólinn í stofunni. Ég veit að ég er kannski ekki svo líflegur eða skemmtilegur að fá mig heim en það verður víst bara að hafa það.

Eftir einhvern hálftíma í stólnum var ekki til setunnar boðið og við fórum út til ólíkra verka. Ég hélt áfram að smíða gerefti á hurðir og glugga, gerefti sem ég var langt kominn með áður en ég fór í Vornes en Valdís tók til hrífunnar og fór að raka lauf. Ég get lofað að það er nóg af laufblöðum á grasflötunum hér núna. Síðan fór Valdís að grunnmála það sem kom tilbúið úr handavinnunni minni. Ég er auðvitað svo sérvitur að gereftin verða að vera svolítið öðru vísi en fólk almennt gerir þau, vera svolítið betri. Anders smiður neitar því heldur ekki að með því að vinna þau sem ég geri býður upp á mjög vandaðan frágang. Það er líka heila málið.

Mamma er enn í eldhúsinu / eitthvað að fást við mat. Meðan ég seig dýpra og dýpra niður í stólinn eftir heimkomuna var Valdís eitthvað að sýsla við eldhúsbekinn. Svo eftir að hún byrjaði að mála þreif hún af sér vetlingana kannski tvisvar sinnum og skaust inn. Svo fór að berast matarlykt út í haustblíðuna og ég þekkti lyktina. Mmmmmm kjötsúpa. Ég hlakkaði til. Að lokum var farið að kólna frá þeim 15 stiga hita sem hafði verið um há daginn og það var bara að taka saman og hætta. Svo var veisla -þvílík veisla.

Hugsið ykkur kjötsúpu með hvítkáli, blómkáli, brokkólíi, gulrófum, palsternökkum (rófum), grænkáli, lauk, sætkartöflum, grænmetisteningi, salti, pipar og nokkrum lambakjötsbitum. Ég er þegar farinn að hlakka til að borða vislumatinn á morgun líka. Ég var "botnlaus" og á fjórða skammti varð ég hræddur um að ég væri að borða yfir mig og hætti á miðjum diski. Mikið held ég að ég verði hraustur af þessu. Þakka þér kærlega fyrir matinn Valdís. Ég er alveg viss um það að þó að fólk hafi hóstað beint í andlitið á mér í Vornesi kem ég ekki til með að verða veikur eftir að hafa borðað svona hollan mat. Við vitum líka að svona matur er ekki fitandi.

Klukkan er að nálgast tíu að kvöldi og ég er ánægður með vinnutörnina í Vornesi í gær og í morgun og ég er líka ánægður með það sem við komum í verk heima í dag. Einhvern tíma á morgun kemur smiðurinn og þá verður eitt og annað tilbúið til að geta tekið góða vinnutörn. Við erum að byggja bara svo að það gleymist ekki. Um miðjan dag hélt ég að ég mundi verða sofnaður fram á borðið um þetta leyti eða siginn langt niður í hægindastólinn. En nei, lífið ólgar hér á Sólvöllum. Nú veit ég að ef ég fer ekki að leggja mig fer Óli Lokbrá að kasta sandi í augun á mér. Hins vegar veit ég þegar ég legg mig að hann kastar aldrei neinum sandi. Hann bara platar mig svolítið. Óli er nefnilega góður og notar enga hrekki. Hann lokkar og ég reyni að taka hann til fyrirmyndar.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0