Haustvindar

Í dag hefur verið þessi kaldi haustvindur, kaldur þó að hitamælirinn væri nálægt tíu gráðum. Var einhvers staðar laus endi eða horn á plasti slóst það til með hljóðum sem minna á haust. En það er bara að muna að það er ekki nema hálft ár þangað til ég fer í ferðir út í skóg á ný til að fylgjast með brumum og nýlaufi, þessu vorlaufi sem er svo viðkvæmt og hrokkið þegar það opnast mót hækkandi sól og nýju vaxtarskeiði. Sérstaklega falleg eru beykilaufin og að auki virðast þau svo viðkvæm en sannleikurinn er þó sá að þau spjara sig aðdáunarlega vel, jafnvel þó að á móti blási. Karin Boye bar oft saman líf manneskjunnar og líf trésins og í einni af sínum ljóðlínum segir hún "og lífið sýður bakvið börkinn". Þessi ljóðlína er trúlega á níræðis aldri en að vori mun lífið þó sjóða bakvið börkinn á ný.

Ég fór út í framanverðan skóginn í dag og þar gekk ég á þykku lagi af laufi. Mest áberandi var laufið af hlyninum, þessi blöð sem verða á stærð við undirskálar. Laufið í skógarbotninum eykst frá ári til árs eftir að við grisjuðum grenið svo um munaði og lauftrén gripu tækifærið svo sannarlega og byrjuðu að vaxa um allt juku þar að auki vaxtarhraðann. Næsta vor og sumar hverfur þetta lauf og sameinast jarðveginum sem það óx upp af árið áður. Þegar ég gekk þarna í laufinu í dag velti ég því fyrir mér að jarðvegurinn hlýtur að verða meira frjór frá ári til árs þegar hann fær árlega allt þetta lauf sem rotnar og verður að nýrri næringu. Ég varð ögn skáldlegur í þessum hugleiðingum og hefði kannski átt að setjast við tölvuna þá en ég valdi smíðarnar. Núna er ég kominn of langt frá upplifuninni til að geta komist í þá snertingu við hana sem ég ætlaði

Fram á lóðinni var Valdís og rakaði þykku lagi af laufi í stóra hauga. Ég er búinn að segja henni að ég taki höndum um þetta lauf. Ég ætla nefnilega að fara með það út í skóg og jafna því kringum eftirlætistrén mín þar. Og áður en ég geri það ætla ég að setja hænsnaskít kringum þessi tré sem laufið á svo að leggjast yfir. Það verða þakklát tré að vori sem fá svo að njóta þessara kræsinga.

Við höfum verið eitthvað hljóðlát í dag en komið lítið í gang núna undir kvöldið. Við höfum ekki verið önug og ekki í fýlu og ekki kastað skít hvort á annað. Ég held hins vegar að þetta sé hausttregi sem þessi áþreifanlegi haustvindur setur í gang. Svo tók Valdís grjónagrautinn sem gekk af í gær og setti út í hann svolítið af spelthveiti. Síðan hafnaði þessi grautur í rapsolíu á pönnu og úr urðu þessar fínu lummur. Ég held að það hafi verið þá sem hausttreginn gaf sig. Svo fór ég aftur út að smíða en skynjaði skömmu síðar að kvöldrökkrið sest fyrr og fyrr að fyrir hvern dag sem líður, en ég var svo ánægður með afrakstur dagsins að það hafði ekki svo mikil áhrif á mig.

Á miðvikudag fer ég í vinnu um hádegi og verð fram á fimmtudagsmorgun. Þetta var ákveðið í mars síðastliðnum og núna seinni partinn í dag fékk ég hugmynd. Ég hringdi í Vornes og var pínulítið að vona að þetta væri fyrnt og ég þyrfti ekki að koma. En nei, það var alls ekki fyrnt, ég á að koma. Þá það. Einhver leti greip mig en ég veit að sem vant er verður það allt í lagi þegar ég er farinn af stað. Hins vegar er mér ekkert vel við það, 68 ára gömlum manninum, að skilja Valdísi eina eftir þegar dagurinn er orðinn svona stuttur. En hún er dugleg fiskimannsdóttirin og bifast ekki þó að ég skreppi að heiman næturlangt.

Nú er komið mál fyrir ellilífeyrisþegann að fara til fundar við Óla Lokbrá. Á morgun kemur rafvirkinn og hann verður hér væntanlega um hálfátta leytið. Þá vil ég vera orðinn sprækur því að ég vil ekki sýna mig hrukkóttan í andliti og með stóra poka undir augum. Valdís flettir bók hérna bakvið mig, að öðru leyti er hljótt. ég held bara að haustvindurinn sé genginn niður.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0