Grautur úr grjónum með hýði

Við smíðuðum í dag ég og Anders. Hann kom klukkan hálf átta í morgun og þá hafði ég verið í gangi svolitla stund. Við unnum saman stóran hluta úr deginum en það er ekki svo oft sem við gerum það. Við erum gjarnan hvor við sitt verkið en réttum hvor öðrum hjálparhönd eftir þörfum. Hann vinnur hratt þessi maður eins og ég hef oft sagt og í dag hef ég þurft að halda í við hann. Svo fór hann um klukkan þrjú og þá var eins og vindurinn færi úr mér. En ekki datt mér í hug að hætta nánast um miðjan dag. Ég fór því að sinna hálfgerðu leiðinda verkefni, en það var að saga burtu gömlu þakbrúnina sem lenti inn í nýju forstofunni. Svona þarf að gera þegar byggt er þvert á eldri byggingu. Það væri sjálfsagt betra að gera þetta um leið og nýja þakið er byggt og klætt en á þeim tíma sem verið er að byggja nýtt þak er erfitt að gefa sér tíma til að sýsla við svona dót.

Svo sagaði ég við vondar aðstæður, boraði og sagaði meira, hjó sundur gamlan þakpappa, braut borinn, hjó brotið burt með sporjárni, hjó í borinn og sporjárnið hætti að bíta, sagaði meira, braut annan bor, en hvað sem öllu líður komst ég áleiðis og sá fram á að þetta tæki enda. Eftir góðan áfanga þarna tók ég fötu, losaði poka af hænskaskít í hana og tók ausu eins og þá sem notuð var í mjölið í kaupfélaginu í Hrísey í gamla daga. Svo hélt út í skóg. Síðan gaf ég hverju beykitré eina og hálfa svona ausu af skítnum og dreifði honum við útjaðra trjákrónanna þar sem tré taka upp mest af næringu sinni. Þetta gerði ég einmitt núna vegna þess að ég vildi enda daginn á einhverju virkilega notalegu. Hænsnaskítur lyktar kannski ekki svo sérstaklega notalega en við hverja ausu sem ég fyllti fékk ég tilfinningu fyrir því að þessi tré muni þakka vel fyrir sig að vori.

Þegar ég var búinn að þessu fór ég inn og færði mig úr vinnugallanum. Þegar ég var sestur niður leit ég út og hafði orð á því að það væri of bjart til að hætta. Þá varð Valdísi að orði hvort ég væri eitthvað bilaður. Þú sem ert búinn að vera að síðan hálf átta í morgun sagði hún. Já, einmitt. Og ég reiknaði út að ég hefði verið að í tíu tíma með smá pásum. Ég er ekki að monta mig með því að segja þetta, en hins vegar er ég að þakka fyrir þá heilsu sem ég hef með því að skrifa það niður.

Á morgun eftir rólegan morgunverð byrja ég á öðru verkefni sem ég gjarnan vildi losna við, en það er að opna gólfið stutt frá eldhúsinnréttingunni. Þar undir ætla ég að grafa drjúga holu og steypa síðan í holuna vænan steypunökkva. Hann á að verða undirstaða undir súlu sem á að halda uppi öðrum enda á límtrésbita sem á að koma undir stærstan hluta af þakinu yfir gamla húsinu. Þessi aðgerð er liður í því að gera gamla húsið líka sem nýtt.

Ertu eitthvað bilaður sagði Valdís í dag. Um daginn sýndist henni að ég væri eitthvað slæptur og þá sauð hún kjötsúðu með aragrúa af grænmeti í. Svona matur gerir mig frískan. Hún er nösk á að vita hvenær mest þörf er á þessu. Við töluðum um það í hádeginu í dag við Valdís og smiðurinn hvernig maður geti best haldið heilsu á efri árum. Niðurstaðan var að halda sig ekki of mikið í sófanum og gera flest það sem fólk þarf að gera og borða svo fjölbreyttan mat. Meðan við töluðum um þetta vorum við að borða grjónagrautinn sem Valdís sauð úr hrísgrjónum með hýði. Anders leist svo vel á þetta að hann ýtti nestisfötunni sinni til hliðar og borðaði grautinn með okkur. Svona grautur er hollur grautur.

Það eru komnir svefnórar í mig og þá ætti ég að hafa vit á því að þagga niður í mér. En svefnórar eru nefnilega þannig að maður hefur ekki vit á því að þegja. Ég nefndi tvö verkefni sem ég gjarnan vildi losna við að gera. Samt eru þau eiginlega skemmtileg líka því að það er svo rosalega gaman þegar þau eru búin.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0