Dugnaður eða ... jú víst er það dugnaður

Ég sagði frá því á Facebook í morgun að ég ætlaði að grafa holu fyrir undirstöðu undir gólfinu í gamla hlutanum á Sólvöllum í dag. Hún Þórlaug stórvinkona okkar kom þarna með innlegg og sagði "Dugnaðurinn í þér Guðjón". Ég horfði á þetta innlegg og hugsaði; eða bilun í mér.

En hvað sem því líður færði ég í dag um 400 kg af urð og grjóti undan gólfinu í gamla Sólvallahúsinu í svartri öflugri plastfötu
og helti í hjólbörur sem stóðu utan dyra. Kannski var hægt að segja að verkefnið væri ekki mönnum bjóðandi en samt sem áður er greftrinum lokið. Við erum líka búin að sækja þurra steypublöndu í Bauhaus í Marieberg ásamt steypustyrktarjárni og smá fleiru í verkefnið og á morgun eftir messu verður steypudagur á Sólvöllum. Steypan verður borin inn í fötu úr hjólbörunum þar sem ég bleyti upp í henni og hræri eftir þörfum. Síðan legg ég gólfborðin yfir aftur til bráðabyrgða.

Á miðvikudag kemur svo Anders smiður með Lars félaga sinn með sér og þeir ætla að setja upp trésúlu á sökkulinn sem á að bera uppi límtrésbitann sem þegar liggur uppi á gamla loftinu og bíður uppsetningar. Anders kemur með mann með sér þar sem hann vill ekki láta ellilífeyrisþegann bjástra við þungan bitann. Hann er gætinn með slíkt enda sagði hann eitt sinn; farðu gætilega og ekki vinna þig í hel. Ég get samt ekki fullyrt að ég hafi farið gætilega í dag. En þannig líkur einum áfanganum af öðrum og ég harma ekki þegar þessir erfiðu eru að baki. Síðar koma tímar sem hægt verður að gera skemmtilegra í lífinu en að liggja á hnjánum milli gólfbita og skrapa upp möl og grjót úr djúpri ferkantaðri holu.

Ég horfði á klukkutíma dagskrá í sjónvarpinu milli klukkan átta og níu og þar var höfuðpersónan Lasse Berghagen sem eitt sinn leiddi Fjöldasöng á Skansinum. Lasse er að nokkru úr Dölunum, frá Svärdsjö þar sem við Valdís bjuggum í árdaga, og því spunnust Dalirnir dálítið inn í þessa dagskrá. Þarna sat ég með hálf vot augu og var inn á milli kominn upp í Dali. Ég sá fyrir mér lág skógi vaxin fjöllin kringum Borlänge, gekk í huganum eftir Holmgatan og Åsgatan í Falun, ók veginn til Svärdsjö þar sem akurlöndin mæta vatnasvæðunum á hægri hönd og skógi vaxnir ásar og hnjúkar taka við á vinstri hönd. Rétt þegar komið er til Svärdsjö er svo sumarbústaður Lassa til vinstri með útsýni yfir eitt af þessum mörgu vötnum sem gefa Dölunum ógleymanlega fegurð. Ég kom einnig við á vissum stöðum við Siljan og það var bara að nefna það. Það var af nógu að taka.

Ég vona bara að skaparinn láti okkur þetta eftir þegar ég hef gert hér heima hjá okkur það sem þarf að gera. Sjónvarpsþátturinn var góður og mér fannsta hann sem svolítil umbun eftir þennan dag. Ég get ekki neitað því að mér finnst umbunin oft vera á ferðinni en að ég þurfi líka að vinna fyrir henni. Ég veit til dæmis að þegar búið verður að breyta loftinu í gamla Sólvallahúsinu, sem stefnt er að með vinnu dagsins, þá mun ég glaður líta þar til lofts og finnast sem ég eigi þetta með réttu. Ég vann fyrir því og það var ekki svo erfitt þegar umbunin hefur skilað sér. Ég hlustaði líka á hann Bjartmar systurson minn syngja á www.bjartmar.is eftir að sjónvarpsþættinum áðurnefnda lauk. Ég veit að það var barátta fyrir hann að komast þangað en sú barátta skilaði sér. Hann vann fyrir því.

Að lokum. Ég er giftur konu sem heldur vel í mér lífinu. Hún bakaði lummur úr afganginum af grjónagrautnum frá í gær og mikið voru þær góðar eftir gröftinn. Þær kúrðu líka ljúflega í maganum á leiðinni til og frá Örebro þegar við skruppum eftir steypunni. Nú heyri ég að Óli Lokbrá er kominn í félagsskap aftan við mig og ég ætla að koma mér í þann félagsskap einnig. Þakka þér líka fyrir lambakótiletturnar í kvöld Valdís mín.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0