Dagur laufsins

Eftir hádegið fórum við Valdís út og ég horfði á eftir henni ganga með hrífu að lóðarmörkunum að norðan á móti Elísabetu og þeim hjónum frá Örebro. Þau eru hérna í næsta húsi, sem er sumarbústaður, jafn mikið og þau eru heima hjá sér í Örebro og þau halda öllu alveg sérstaklega snyrtilegu i kringum sig. Þegar Valdís var komin að lóðamörkunum hjá þeim byrjaði hún að raka. Þá var mér nóg boðið. Ég sem var búinn að ætla í marga daga að taka eitthvað af öllu þessu laufi og bera út í skóg hafði ekki komið því í verk og því var Valdís að raka að hluta sama laufinu hvað eftir annað í haugana. Ég stakk tommustoknum aftur í vasann, sótti tvo hvíta plastpoka sem notaðir eru undir dekk og tók svo með mér stóra álskóflu. Nú skyldi Trassi bæta svolítið fyrir syndir sínar. Svo spurði ég Valdísi hvort hún vildi halda í pokann eða moka. Hún vildi halda í pokann.


Hér var komið að verklokum á suður hluta lóðarinnar. Ég hef nokkrum sinnum tekið myndir af Valdísi við að raka. Ég hef náð myndum af henni þar sem hún virðist vera að taka dansspor með vinstri fæti akkúrat þegar hún er búin að draga hrífuna á leiðarenda. Mér tókst ekki að ná svona mynd í dag en þó held ég að vinstri fóturinn sé að komast í danssporið akkúrat þarna og ég hefði þurft að vera hálfu augnabliki seinni að taka myndina. Þá hefði stíllinn verið fullkominn.


Hálf er ég lúðalegur þarna þar sem ég er að leggja af stað í ferð númer fjórtán út í skóg. Ég sé að ég er orðinn ljóshærður, ljóshærðari en ég var sem stráklingur á Kálfafelli. En hvað laufið varðar, þá setti ég það kringum eftirlætisvini mína út í skógi. Ég var mjög hlutdrægur hvað þetta varðaði og flestir vina minna fengu ekki neitt en 21 beykitré fékk lauf til að njóta skjóls af í vetur. Allra bestu eftirlætisvinir mínir tveir fengu þrjá laufpoka, nokkrir tvo en flestir bara einn. Ég er svolítið misjafnlega ástfanginn af þeim. Svo þarf ég að fara með hrífu og jafna úr þessu laufi og nú þegar dylst næringarríkur hænskaskítur kringum þessi tré og laufinu skal jafnað yfir hann. Það verður yndislegt líf í vor að fylgjast með vextinum sem þessi umönnun mun koma af stað.


Mér sýnist sem ég sé að koma utan úr skógi þarna á miðri mynd með tóma pokana. Ég sagði áðan að ég hefði lagt lúðalegur af stað með fulla pokana og ég sé að þarna kem ég ósköp eitthvað álútur til baka. Ég verð að taka á þessu máli og rétta úr mér og verða reffilegri. Ég vil gjarnan vera ellilífeyrisþegi með stíl og það er þá bara að annast það. Kannski það lagist með laufi og hænsnaskít. -:) En ég er reyndar mjög ánægður með ástand mitt eins og ég tala oft um og á ekki að vera að grínast svona.


Og sjáið bara. Þarna sá ég myndavélina og greikkaði sporið. Núna var bara ein ferð eftir, sú fimmtánda og pokarnir urðu 30 og á að giska fimmtán eru eftir sem bíða einhverja daga. Þarna var ég búinn að fá alveg nóg, laufið var rennandi blautt, og þegar við vorum búin að moka í síðustu pokana sagði Valdís: Nú hita ég kaffi.


Já, hvað er nú þetta? Það er ótrúlegt hvað sumir hlutir verða einfaldir þegar einhver hefur komið með góða uppástungu. Ég man eftir því að í gamla daga hugsaði ég stundum sem svo að hvers vegna í fjáranum gat mér ekki dottið þetta eða hitt í hug. Þessir þríhyrningar eru sagaðir úr tveggja tommu þykkum planka og þeir eru 35 sm langir og 12 sm háir.

Saga þessara kubba er sú að við ræddum um það í gær hvernig best yrði að láta sperrurnar hvíla á límtrésbitanum sem á að lyfta upp í þakið á gamla Sólvallahúsinu í næstu viku. Hvernig litist þér á útbúa þríhyrninga og negla upp í kverkina í toppnum spurði Anders. Og þá kom upp þessi hugsun í kollinum á mér; rosalega var þetta einfalt. Svo útbjó ég þríhyrningana tíu í dag og skrúfaði þá upp í kverkarnar á sperrunum og það sér hvert barn sem lítur á þetta að frágangurinn hefði eiginlega aldrei getað orðið neinn annar. Traustur og alveg pottþéttur frágangur. Svo einfalt er það.

Hefði þetta komið upp fyrir svo sem 30 til 40 árum hefði ég verið líklegur til að svara; já, mér datt það líka í hug. Svoleiðs  barnaskap hef ég lagt af með í dag og það kalla ég að vera orðinn fullorðnari. Mér líður mikið betur með það og ég reikna með að í því þekki margir sjálfan sig. Það er alls ekki slæmt að verða eldri og eiginlega hefur mér bara einu sinni fundist að ég hafi orðið eldri þegar ég hef átt afmæli. Það var þegar ég varð þrítugur.

Eftir nóttina í nótt verður bara einnar klukkustundar munur á tímanum hér í Svíþjóð og á Íslandi.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0