Þokkalegt skal það verða

Það eru nokkrar vikur síðan. Það var kominn pappi á þakið á viðbyggingunum á Sólvöllum og vindpappi utan á veggina. Ég var í verðandi forstofu að smíða upp undir þaki og missti eitthvað verkfæri niður á botninn undir húsinu. Gólfbitarnir í forstofunni voru óklæddir en á þá var ég búinn að hlaða mörgum sekkjum af steinull. Ég brölti niður á milli sekkjanna og fór niður á milli bitanna niður á botninn undir húsinu. Þegar ég kom þangað niður var þar þurrt og kyrrt og ótrúlega notalegt. Ég hálf lá á hliðinni og virti þurra og hreina hleðslusteinana í grunninum fyrir mér og minntist orða Anders smiðs eftir einn heitasta dag sumarsins og þegar hann var var búinn að hlaða upp 150 steinum í grunninn; þú ættir nú að útbúa múrblöndu í fötu og fylla í stærstu holurnar svo að þetta líti þokkalega út áður en við lokum gólfinu.

Daginn eftir var álíka heitt og sólin sendi heita geisla sína niður í grunninn þar sem ég vann við að fylla í stærstu holurnar með múrblöndu. Þegar ég var búinn að því voru all margar minni holur eftir og nú fannst mér þetta skemmtilegt verk svo að ég blandaði í aðra fötu og fyllti í holur þangað eitt af mestu þrumuveðrum sem við höfum upplifað hér í Svíþjóð dundi yfir.

Anders hafði sagt; svo að þetta líti þokkaþega út áður en við lokum gólfinu. Nú lá ég þarna á hliðinni nokkrum vikum seinna og minntist þessara orða hans og ég minntist líka heimsóknar árið 2002 í fyrsta bústaðshús mömmu og pabba í Kálfafellskoti í Vestur-Skaftafellssýslu. Þau byggðu það hús á fyrstu búskaparárum sínum um 1930, um það bil 70 árum áður en ég kom í þessa heimsókn. Þau fluttu svo þaðan að Kálfafelli árið 1942 eftir að hafa búið þarna í nokkur ár og það var árið sem ég fæddist.

Það vakti athygli okkar sem tókum þátt í þessari heimsókn að húsið hafði greinilega verið byggt af alúð. Við komum niður í steinsteyptan geymslukjallara sem er undir húsinu og þar urðum við undrandi. Þessi 70 ára kjallari var svo ótrúlega þurr og þrifalegur. Þeir hlutu að hafa drenað frá kjallaranum niður í hallann sem er nokkra metra sunnan við húsið. Sem steypumót höfðu verið notaðar bárujárnsplötur og það þarf ekki mörg orð um það að ef bárujárnsplötur mætast ekki alveg hárrétt eða halla misjafnlega verður það mjög áberandi í steinsteypunni. Þarna örlaði ekki á neinu slíku. Allt var jafnt og beint og steypuáferðin ótrúlega falleg. Þetta unnu þeir pabbi og Jón Sigurðsson á Maríubakka var eflaust yfirsmiður. Þórarinn móðurbróðir minn á Seljalandi var með í þessari húsbyggingu líka. Verkið sem þeir skiluðu þarna til framtíðarinnar var unnið af vandvirkni og alúð og það leyndi sér ekki enn svo löngu seinna.


En nú aftur til sólvalla. Það var komið að því að við Anders færum í að klæða gólfið. Það var einhvern veginn óskrifuð ákvörðun að ég yrði búinn að ganga frá öllu þannig að það væri bara eftir að klæða gólfið þegar hann kæmi. Þegar ég gekk til verks horfði ég yfir vetvanginn og hikandi hugsaði ég um hversu löngum tíma ég ætti að eyða í að skríða þarna niðri. Ég ákvað að taka þann tima sem þyrfti og svo sótti ég myndavélina til að geta síðar séð hvað ég hefði verið að gera. Svo sótti ég verkfæri; handkúst, stóra plastfötu undir rusl og garðhrífu með styttu skafti. Síðan vann ég þetta verk af vandvirkni og alúð. Ekki einn boginn nagli fékk liggja eftir, ekki tréflísar, steinullarlagðar eða þakpappabitar sem lágu lítið hingað og þangað.


Eftir nokkra klukkutíma var þetta var árangurinn. Ég byrjaði á að jafna úr sandinum sem við settum ofan á drenlagið í sumar og síðan jafnaði ég einangrandi leirkúlum yfir botninn þannig að hann yrði hæstur á miðjunni. Síðan lagði ég plastdúk yfir og og síðan leirkúlur ofan á plastið og þá mest út við sökkulinn. Að hafa plastið hæst á miðjunni er gert með það fyrir augum að "ef" svo skyldi fara að einhvern tíma komi vatn inn í grunninn á það að renna út af plastinu, niður með sökklunum og niður í drenlagið undir öllu saman. Inni í svona grunnum, ef þeir eru vel gerðir, verður aldrei frost, þeir verða vel þurrir og það heldur byggingunni þurri og sparar kyndingarkostnað. Aðferðin er ævagömul og hefur þróast með nýjum efnum en eiginlega er kunnáttan alveg sú sama og áður. Hæðin þarna er 70 til 75 sm en hefði verið höfð einni steinahæð meiri ef við hefðum getað lagt frárennslisrörið frá grunninum út á lægra svæði en við höfum.

Ég hefði getað gert þetta á einhverjum klukkutíma, látið ruslið eiga sig, ekki sópað af syllunum meðfram veggjunum og bara hent borðinu upp á einhverja sylluna og sleppt svo leirkúlunum og plastinu. En nú er það svo að ég vil að eftir 70 ár geti einhver farið inn undir húsið og hugsað; hér hefur fólk sem ekki lifir lengur unnið af vandvirkni og alúð. Það er nefnilega skilyrði að það sé hægt að komast undir húsið og ég er búinn að leysa það mál en ennþá bara í huganum. Framkvæmdin bíður trúlega vors.

Þannig byggir maður hús. Maður sullar ekki með gauragangi upp húsi sem á að vera mannabústaður, margir segja hús með sál. Maður gefur því alúð og hlýju og þá verður gott að búa í því. Maður á að njóta þess að byggja hús og þá verður maður ónýskur á handtökin. Að hugsa sér, ef það væri hægt að gera það alls staðar í heiminum að njóta þess að byggja í stað þess að það sé grundvallarskilyrðið að einhver eða einhverjir verði skuggalega ríkir á því að byggja hratt -og jafnvel illa. Ég get heldur ekki neitað því að mér finnst það skipta máli að eftir minn dag geti fólk séð á húsinu að það hafi verið byggt með þessari hugsun. Þessi hugsun heitir dyggð og gefur lífinu gildi.

Grunnurinn í Kálfafellskoti er hugsaður og gerður á sama hátt þó að hann sé steyptur en ekki hlaðinn úr eingangrandi steinum og auðvitað fleiri grunnar á Íslandi. En ég man ekki eftir því að slíkir grunnar hafi nkkuð sérstakt nafn og ekki heldur að þeir hafi öðlast svo þróaða byggingaraðferð. Hér heita þeir torpargrunnar. Torp er ákveðinn byggingarstíll. Sólvellir er ekki torp, stíllin er ekki sá rétti til þess, en Sólvellir geta hins vegar staðið á torpargrunni.

Allir sem lögðu hönd á plóginn við að byggja húsið í Kálfafellskoti eru framliðnir. En ég get séð þá í anda, pabba og Þórarinn á Seljalandi, þegar þeir tóku burtu bárujárnsplöturnar af steinsteypugrunninum og sáu að verkið hafi tekist vel. Ég efast ekki um að þá urðu þeir ánægðir þó að þeir hafi nú kannski ekki beinlínis hrópað upp að mikið væri þeir glaðir. Ég býst ekki við að það hafi verið stíllinn í harðri lífsbaráttunni á Íslandi um 1930. Hins vegar get ég ímyndað mér að þair hafi lagt hönd á veggina og haft orð á því að þetta hafi tekist vel.


Anders dró mig uppi. Ég setti til þess gerðar masonítplötur sem heita trossbotn milli bitanna og einangraði með 20 sm ull og vann botninn undir öllu saman á eftir mér. Anders kom svo með gólfplöturnar og festi niður. Plöturnar eru þungar og Anders er sterkur. Honum finnst kannski að ég gangi full langt með alúðina en hann virðir það. Hann sagði líka á sínum tíma; "svo að þetta líti þokkalega út áður en við lokum gólfinu".

Trackback
RSS 2.0