Ef þú værir hundurinn minn

Eftir rökkurbyrjun í gær gekk ég með járnkallinn út að efnisstæðu sem liggur á lágum búkkum sunnan við húsið. Yfir þessu byggingarefni hefur verið segl undanfarið sem áður var tjald á brauðfótum sem þoldi ekki sænska sumarveðráttu og féll um koll í vestan stinningsgolu. Seglið sem síðan lá yfir efninu sleppti vatni í gegnum sig og var engan veginn í lagi. Ég ákvað að byggja duglega yfir efnið. Með járnkallinum gerið ég fjórar holur í beinni línu innan um efnið, rak mannhæðarháa staura niður í holurnar og setti svo slá ofan á staurualínuna sem skyldi verða nýr tjaldmænir. Að þessu loknu fór ég inn að borða og þar með var komið myrkur.

Klukkan sjö í morgun gekk ég út að þessu nýja framkvæmdasvæði mínu og ætlað að halda byggingunni áfram. Þá féllust mér algerlega hendur og ég varð bara alveg rosalega þreyttur. Hvern fjáran sjálfan var ég að gera með þetta blessað tjald. Bara bull og vitleysa og mikið nær að ég sneri mér bara að húsamíðinni. Ég var bara einn millimeter frá því að ganga á staurana með járnkallinn aftur og nú til að losa þá upp áður en nokkur sæi til mín. En þá sá ég fyrir mér gereftin sem Valdís hafði málað í vikunni og voru inni í nýju viðbyggingunni. Ég var búinn að ákveða að bera þau út um helgina þar sem við Anders smiður vorum aftur búnir að ákveða að setja gólfin í herbergið og forstofuna á mánudag eða þriðjudag. Hvar átti ég að setja gereftin? Kannski bara að kasta þeim út á bera jörðina og láta svo rigna á þau. Ég hélt áfram við tjaldið.

Ég vann við þetta af miklum þráa og elju en losnaði ekki við þreytuna. Hins vegar var ég svo þrár að verkinu miðaði vel áfram og þegar ákveðin grind mundi verða komin upp skyldi ég verðlauna mig með því að fara inn og borða alveg gríðarlega mikinn og góðan morgunverð. Og svo varð. Eftir morgunverðinn varð ég ennþá þreyttari og settist í djúpa stólinn minn og slappaði af. Ég nálgaðist að hrotubylgjulengdina og svo hvarf þreytan.

Sannleikurinn var held ég sá að þegar ég kom út í morgun fannst mér þetta bara svo fáránlegt að mér féll allur ketill í eld. En eftir morgunverðinn og hvíldina var ég svo himinlifandi yfir framkvæmdinni að ég réði varla við dugnaðinn. Mér gekk rífandi vel og Valdís sem var komin út og tíndi rusl á kerruna sá sér ekki annað fært en taka myndir af þessum ánægða byggingariðnaðarmanni á fullu. Þá auðvitað kom montið upp í mér og ég sló tíu aukahögg á ákveðinn nagla til að hún skyldi örugglega ná af mér mynd í ákveðinni stöðu. Nú var gaman.


Undir hádegi á morgun verður þetta fínt en þá verður búið að taka til. Síðan förum við með aðra kerru í endurvinnsluna og kaupum svo plötur á gólfin.


Myndin er af ellilífeyrisþega

Um hádegi fórum við inn til Örebro. Valdís ætlaði að hitta nokkrar vinkonur á kaffihúsi en ég ætlaði hins vegar í endurvinnsluna og losa kerruna og eftir það að fara í tvær byggingavöruverslanir. Mér finnst alveg arfaleiðinlegt að fara í fata- og gjafavöruverslanir með Valdísi en einn í byggingarvöruverslunum er ég nokkuð góður með mig, alla vega ef ég á erindi þangað. Ég reyni hins vegar að æfa svona verslunarferðir með Valdísi og ég viðurkenni fúslega að ef ég nyti ekki hennar atgervis væri lítið keypt af jólagjöfum á þessum bæ.

En nú var ég kominn í endurvinnsluna. Ég er því mjög fylgjandi að sortera vel og ég segi aftur: sortera vel. Ég byrjaði upp á rampi þar sem aðgangur er að fjölda mörgum gámum fyrir hinar ólíku tegundir. Síðan færði ég mig að hólfi fyrir grjót, steypu, gólf- og veggflísar og svo framvegis sem er neðan við rampinn.

Við þetta hólf var ungt par og það var greinilegt að þau höfðu kastað hlutum hingað og þangað af ástæðu sem ég ekki skildi. Konan var með álskóflu upp í kerrunni og reyndi að moka múrsteinum, grjóti og sementsafgöngum af kerrunni og inn í þetta hólf. Henni var um megn að nota skófluna og kastaði inn á milli hinu og þessu með höndunum. Maðurinn var við hliðina á kerrunni og rembdist við að brjóta harðnaða múrblöndu úr svörtum, stórum bala. Honum sóttist verkið illa og það var greinilegt að það fór í skapið í honum. Smám saman birtust tvær múrskeiðar og fleiri verkfæri í múrbrotunum sem féllu að lokum úr balanum og þá hófst barátta hans við að brjóta sem mest af harðri múrblöndunni af verkfærunum. Skap hans virtist fara versnandi og svipurinn var mjög óvingjarnlegur þegar hann af og til gjóaði augum til mín. Ég færði mig ögn nær og hélt svo áfram að bíða.

Hinu megin við þetta par sá ég upp á rampinn þar sem fólk gekk í rólegheitum milli gáma og kastaði í þá viðeigandi drasli og afgangsefni ýmis konar. Það var mikill munur á aðförunum í rólegheitunum þar uppi og aðförum parsins. Að lokum rauk maðurinn upp í kerruna og sveiflaði skóflunni gríðarlega til höggs og keyrði svo niður í hauginn á kerrunni. Ekkert fékk hann á skófluna með þessari aðferð og að lokum fann hann upp á því að ryðja beint aftur af kerrunni með því að ýta á skófluna með maganum og ryðjast svo áfram. Því síðasta mokaði hann til beggja hliða út af kerrunni.

Nú var mér farið að blöskra gersamlega og svo virtist líka með konuna. Ég gat ekki annað en hugleitt hamingju hennar í sambandinu. Hún var nú byrjuð að draga til baka plastdræsur, rafmagnsrör og fleira úr haugnum sem maðurinn var búin að slefa út úr kerrunni. Þau höfðu auga á mér og maðurinn var ljótur. Mig langaði að blanda mér í þetta og segja þeim að sortering þeirra væri engum sæmandi. Það var þá sem ég fékk snögga löngun; að ganga fram til mannsins og segja honum að ef hann væri hundurinn minn mundi ég skjóta hann. Einhvern veginn greip þetta mig og ég varð svo stein hissa. Svona hundahugmynd hefur aldrei áður orðið til í mínu höfði. Hins vegar voru allar þessar aðfarir skötuhjúanna viðbjóðslegar og afskaplega óvistvænar, eða öllu heldur ætti ég að segja aðferðir mannsins.

Að lokum gekk maðurinn um all stórt svæði og tíndi saman alls konar drasl sem þau, eða hann, höfðu þeytt í kringum sig og tróð í stóra fötu, drasl sem hann fékk sig þó ekki til að skilja eftir. Svo sveiflaði hann fötunni til að kasta henni inn í básinn en leit snöggt til mín, hætti við og setti fötuna á kerruna. Ég sá þau svo fara aðra ferð upp á rampinn.

Hér með hef ég gert syndajátningu, það greip mig ljót hugsun í dag en ég skellihló að henni þó að ég væri einn í bílnum.


Kommentarer
Rósa

Það er greinilegt að það er nóg að gera í bústaðnum. Ekk komið ný blogg í marga daga!



Kveðja,



R

2010-10-13 @ 10:44:15
Guðjón

Já Rósa, ég hef nú ekki gefið mér tíma til að blogga í fleiri daga og ástæðan er að ég hef ekki tíma til þess sem stendur. En það á eftir að breytast, síðar ætla ég að gefa mér betri tíma.



Kveðja, GB

2010-10-13 @ 13:20:59
URL: http://gudjon.blogg.se/
Bára

Sæll

Rakst á þessa vefsíðu og langar að forvitnast, ertu búsettur í Fjugesta? Dvaldi þar í ágúst og vissi ekki að þar byggi önnur íslensk fjölskylda.

kveðja

Bára

2010-10-16 @ 22:48:03
Guðjón Björnsson

Komdu sæl Bára



Já, við búum í Fjugesta eða nánar til tekið í þeirri kommúnu. Það er 14 km akstur heiman að frá okkur til til Fjugesta. Við búum mitt á milli Marieberg í Örebro og Fjugesta.



En svo er aftur annað mál, hver ert þú Bára. Við þekkjum nokkrar Bárur en getum ekki áttað okkur á hver þeirra þú ert.



Kveðja,

Guðjón

2010-10-16 @ 23:22:49
URL: http://gudjon.blogg.se/
Anonym

Sæll Guðjón

Við þekkjumst ekki neitt en ég rakst bara á þessa síðu fyrir tilviljun. Enn það sem vakti forvitni mína var Fjugesta. Ég bý á Íslandi en á föðursystur sem er búsett í Fjugesta og hefur búið þar yfir 40 ár. Ertu með tölvupóstfang?

kveðja

Bára

2010-10-17 @ 20:30:31


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0