Gott fólk

Í nokkrum fráttaþáttum seinni partinn í dag voru fréttir frá eggjakasti við Austurvöll. Í skemmtiþætti eftir aðalfréttirnar var sýnt myndband með Ómari Ragnarssyni þegar hann var ungur maður og söng og tvistaði á bryggju í Reykjavík og mér er ómögulegt að muna hvað þetta agtriði er kallað. Þetta er í annað skipti sem við sjáum þetta gamla skemmtiatriði Ómars í sjónvarpi hér þannig að Svíarnir virðast hrifnir af því. Sem sagt; tvö íslensk atriði á sjónvarpsskjáum hér í dag.

Það er enn verið að byggja á Sólvöllum þó að ég hafi farið lágt með það undanfarið. Ég hef ekki mátt vara að því að skrifa um þetta stórverkefni þar sem ég hef verið að vinna svo mikið að því sjálfur ásamt fagmönnum. Það er ekki sjaldan sem sagt er að fagmenn í byggingariðnaði séu óttalegir fúskarar og skilji eftir sig lélega vinnu. Ég verð nú að ganga í vörn fyrir þessa menn, alla vega þá sem við Valdís hittum vegna okkar framkvæmda. Anders smið hef ég oft talað um og ítreka bara að hann er harðduglegur, hugmyndaríkur, með góða þekkingu, smekklegur og heilmikill arkitekt. Hann er líka prúðmenni og mjög góður í allri samvinnu og vill svo gjarnan að ég geti gert sem mest sjálfur ef ég vil og nenni.

Það barst í tal á mánudaginn var þegar hér hittust þrír aðkomumenn að hann hefði verið að hlaða grunninn hjá okkur í sumar í 32 stiga hita í skugga og einhvern tíma meðan á verkinu stóð hefði hann haldið að hann væri að verða veikur, hann varð svo einkennilegur. Þá hefði hann sest niður og drukkið mikið af vatni og litlu siðar hvarf af honum þetta einkennilega. Ekki höfðum við hugmynd um að honum hefði orðið ómótt meðan á þessu verki stóð en hitt fór ekki framhjá okkur að það var mikill hiti þennan dag og hann vann með ólíkindum ötullega. Ég man líka eftir vatnspásunni þó að mig grunaði ekkert.

Ég held að ég ætti að láta einhverjum öðrum eftir að vinna blikksmíðavinnuna sagði Anders um daginn, þú hefur blikksmið er það ekki? Ég hringdi umsvifalaust í blikksmiðinn hér í nágrenninu en hann gat ekki komið fyrr en eftir að minnsat kosti þrjár vikur. Þá hringdi Anders í annan blikksmið og þeir voru greinilega kunnugir. Sá kom daginn eftir, á fimmtudaginn var, og mældi þakrennur, niðurföll gafla og kverkarnar þar sem forstofuþakið mætir aðalhúsinu. Daginn eftir kom hann með allt tilheyrandi og hóf vinnuna. Ég sagðist vera hér ef hann þyrfti handlang en hann sagðist vera allra bestur ef hann ynni einn og í næði.

Það gat ekki dulist okkur Valdísi að þessi maður, Göran, vann sitt verk af miklum dugnaði, hann var mjög vandvirkur og hann gekk léttstígur og glaður til verks. Um tíuleytið fór ég inn og fékk mér kaffi og brauðsneið og bauð honum með. Hann afþakkaði kurteislega og sagðist þurfa að vera búinn með þetta um þrjúleytið. Svo drukkum við Valdís okkar kaffi einsömul. Strax eftir hádegið fór ég til Fjugesta og vonaði að Göran mundi gefa sér tíma til að fara aðeins í nestiskrúsina á meðan en treysti því þó ekki. Ég hringdi því til Valdísar og bað hana að smyrja nokkrar brauðsneiðar ríkulega og hita kaffi.

Þegar ég kom til baka sagði ég Göran að það væri smurt brauð og nýtt kaffi á borðinu þannig að það tæki hann sáralítinn tíma að fá sér aðeins hressingu. Þá sneri þessi góði fagmaður sér að mér og sagðist vera svo rosalega stressaður að hann bara treysti sér alls ekki til að gera þetta þó að hann svo gjarnan vildi. Ég hef líka svo gaman af að spjalla við fólk, sagði hann, að ég veit af reynslunni að kaffitíminn verður lengri en ég mundi vilja. Svo vann hann áfram af sömu elju en það var erfitt að sjá að hann væri svona stressaður.

Tuttugu mínútum eftir áætlun var Göran búinn með sitt verk og þá byrjaði hann að tína saman smá blikkbúta og dót sem hann hafði dreift kringum húsið. Ég sagðist taka þetta og hann skyldi alls ekki hafa áhyggjur af því. En ég geri þetta alltaf og losa fólk við að fara með það í endurvinsluna sagði hann. Svo kláraði hann þetta og að því loknu gaf hann sér tíma til að spjalla í fáeinar mínútur. Við erum nokkrir sem hjálpum hver öðrum og við Anders erum í þeim hópi. Ég mátti alls ekki vera að því að taka þetta að mér en þegar Anders hringir og þarf einhvers með, þá er ég ekki frjáls maður fyrr en því er lokið. Þannig er samstarfið í hópnum og svo fæ ég aðstoð hinna þegar ég er í neyð.

Það var bráð skemmtilegt að tala við þennan mann og hann sagðist vera 63 ára og ætla að vinna eftir ellilífeyrisaldurinn en minnka þó við sig. Svo þegar hann fékk að vita hvað ég ynni við sagðist hann vita heil mikið um mig bara við að heyra það. Síðan spjölluðum við um það en það verður bara okkar á milli. Þegar panell verður kominn á húsið á ég að láta hann vita og þá kemur hann til að setja niðurfallsrörin og ákveðna blikkkanta á vindskeiðarnar á göflunum. Þetta er blikksmiðavinna hér í landi. Þá ætla ég að biðja Göran blikksmið að koma þegar hann getur fengið sér kaffi og við getum látið eftir okkur að spjalla mikið meira saman. Hann nefndi þetta líka áður en hann fór

Allir sem hafa komið hingað til að vinna við þetta hús eru afbragðsmenn. Valdísi finnst það líka og bakar gjarnan vöfflur eða pönukökur til að verðlauna þá fyrir góð dagsverk. Þeir meta það mikils og borða af veitingum Valdísar af góðri lyst. Göran mátti bara ekki vera að því. Hann átti að hitta viðskiptavin á réttum tíma og hann var búinn að lofa konunni seinni einhverju, líka á réttum tíma, og þetta að svíkja konuna var honum þyngra í skauti en að mæta of seint á fundinn með viðskiptavininum.

Það er til mikið af góður fólki.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0