Hon er merkileg kona hún Sofia

Ég get alveg boðið fólki upp á að hlæja að mér, sérstaklega ef ég býð upp á það sjálfur. Ég er hins vegar ekki eins ánægður með það ef aðrir nota mig til að fá fólk til að hlæja.
 
Í morgun fór ég á stjá fyrr en ég vildi þar sem ég þurfti að fara með bílinn í skoðun. Ég hefði viljað hvíla mig lengur eftir vinnuvikuna síðustu og mér fannst ég líka eiga það skilið en svona var það bara. Tíminn hjá bifreiðaeftirlitinu var þegar ákveðinn. Ég dreif mig á fætur. Á leiðinni fram á bað fékk ég verk aftan á hægri fótinn á smá punkti rétt ofan við hásinina og ég hugsaði eitthvað á þá leið; kemur þetta nú einu sinni enn. Ég hef orðið var við þetta öðru hvoru á síðustu misserum og svo hef ég bara gleymt því og svo hefur það horfið.
 
Ég snyrti mig til, rakaði og drakk vatn og ákvað að borða vænan morgunverð þegar ég kæmi heim. Svo dreif ég mig af stað og byrjaði á því að  þvo bílinn. Svo var ég kominn að bifreiðaeftirlitinu klukkan hálf tíu, tuttugu mínútum fyrr en ég þurfti. Ég stillti mér upp á bílastæðinu við hliðina á rauðum bíl þar sem kona sat undir stýri og lék sér mikið við pínulítið barn. Ég gekk inn í andyrrið til að slá inn skrásetningarnúmerinu á bílnum og gekk svo til baka. Þá sá ég að fuglar himins höfðu verið yfir rauða bílnum og ekki höfðu þeir skitið á bílinn, þeir höfðu hreinlega drullað á hann á tveimur stöðum, stórum hvítum klessum eins og súrmjólk hefði verið skvett yfir hann. Svo settist ég inn í minn bíl.
 
Verkurinn ofan við hælsinina hvarf ekki, heldur dreifði hann sér upp eftir kálfanum og varð þyngri. Að lokum kom mitt númer upp á stórt ljósaskilti og mér var boðið að aka inn. Þægilegur miðaldra maður tók höndum um minn bíl og vann sitt verk af öryggi og á einhvern þægilega öruggan hátt. Við spjölluðum saman. Maður sem fór inn næst á undan mér drakk kaffi við lítið borð og kona sem fór inn aðeins á undan honum var úti með tvo stóra hunda til að láta þá skíta á grasblett stutt utan við gluggann.
 
Rauðhærð kona með annan vangann nauðrakaðan upp undir mitt höfuð og í einkennisklæðum bifreiðaeftirlitsins gekk í salinn. Hún var mikið tattúeruð, falleg var hún, á að giska 25 ára og ég gerði ráð fyrir að hún væri á skrifstofunni. Hún heilsaði vingjarnlega þegar hún gekk hjá. Svo var minn bíll færður lengra inn eftir skoðunarbandinu og þá kallaði hún næsta bíl inn. Svo gekk hún í að skoða hann af sama öryggi og sá sem skoðaði minn bíl. Hún vann sem sagt ekki á skrifstofunni.
 
Viltu sitja í? spurði skoðunarmaðurinn minn. Ég vildi það og svo keyrði hann all hratt kringum stóru graseyjuna sem hundarnir höfðu skitið á og síðan sagði hann að bíllinn væri í góðu lagi. Þetta var fyrsta skoðun á þessum bíl eftir rúmlega þrjú ár á götunni og 73 000 km akstur. Ég á að koma aftur eftir tvö ár. Svo lagði ég af stað heim.
 
Verkurinn í fætinum náði nú upp undir hné og alveg umhverfis fótlegginn. Þetta var enginn þjáningaverkur en þungur malandi verkur sem ég var orðinn hissa á. Hann náði líka niður undir ylina. Ég var að tína saman gögn til að senda til Tryggingastofnunar ríkisins og verð að viðurkenna að mér var ekkert skemmt við það verk. Ég skrifaði líka bréf vegna atriðis sem ég tel að sé rangt reiknað og ég fann vel að ég var of þreyttur fyrir þetta og þetta var mér allt öfugsnúið. Síðan bar ég fjóra poka út í bíl sem ég ætlaði með á endurvinnsluna í Fjugesta um leið og ég færi á hreppsskrifstofuna til að láta ljósrita slatta af pappír sem ég þurfti að senda til Íslands.
 
Það nálgaðist lokun á heilsugæslunni þegar ég hringdi þangað og hjúkrunarfræðingur sagði mér að koma fljótt svo að ég næði. Bráðamóttökuhjúkrunarkonan ætti að skoða þetta sagði hún. Sú hjúkrunarkona hét Sofia og var trúlega nokkuð innan við þrítugt. Hún lá á hnjánum á gólfinu fyrir framan mig og bar saman fótleggina, þreifaði á báðum samtímis og sagðist ekki sjá neitt athugavert og að þeir væru nánast jafn heitir báðir. Taktu eina ípren og hvíldu þig í kvöld sagði hún og ef þér versnar skaltu fara á bráðamóttöluna á USÖ. Svo fór hún höndum um auma fótinn, stakk fingrunum inn í kálfann neðan frá og upp úr og aftur niður og sagðist ekki finna neitt athugavert.
 
Ég þakkaði henni fyrir þægilegar móttökur og hennar mjög svo vingjarnlega hátt á að athuga mig og tala við mig. Ég meinti þetta og hún hafði virkilega unnið fyrir því. Hún varð svolítið hissa og sagði að mikið væri gaman að heyra þetta. Þegar ég gekk fram ganginn fann ég allt í einu að ég gekk allt öðru vísi, að eitthvað hafði gerbreytst. Ég stoppaði -og jú, verkurinn var svo gersamlega horfinn. Ég sneri við og mætti þá Sofia og sagði: Heyrðu, þetta hefur allt verið í höfðinu á mér, verkurinn er horfinn. Ja du! sagði hún, kannski það hafi eitthvað dularfullt hlaupið á þráðinn hjá okkur.
 
Nafnið Sofia þýðir vísdómur á grísku ef ég skil rétt og eitthvað tengist merking þess kristinni dulspeki.
 
Það er hægt að gera eitthvað merkilegt úr flestum dögum. Ég er kominn með skýringu á verknum og brotthvarfi hans. Ég er líka búinn að vera á námskeiði hjá yfirbýflugunni núna í kvöld. Ég hef að vísu ekki hvílt mig eins og Sofia ráðlagði mér en ég ætla að sofa út í fyrramálið bara eins lengi og mig lystir.
 
 
 
 
Björn stórbýfluganbóndi til hægri gefur góð ráð og Agneta yfirbýfluga til vinstri hlustar af athygli.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0