Gróðrarsumar

 
 
 
 
Ætli þð hafi ekki verið árið 2006 sem við Valdís fórum í skrúðgarðaverslunina Vexuset eins og það hét þá og var í vesturbænum í Örebro og sóttum þetta tré. Það var pantað fyrir okkur því að við vorum dálítið sein á sumrinu með innkaupin. Þá var þetta planta í potti sem var mjög meðfærileg að halda á út um venjulegar dyr. Ég giska á einn og hálfur til tveir metrar. En sem planta var þetta tré mjög fallegt og fólk sem við mættum í dyrunum og við þær sagði "wow" og sneri ser við til að horfa á eftir okkur. Okkur þótti það svo sem ekkert leiðinleg.
 
Þetta er hestkastanía og er orðin talsvert hærri en húsið. Að vísu er það svolítið falskt að myndin er tekin hérna megin frá. Hæðarmunurinn er ekki eins mikill og ætla mætti samkvæmt myndinni, en það er verulega mikið hærra en húsið sem er 4,2 metrar þarna við suðurgaflinn. Ekkert ár hefur brugðist hjá þessu tré, það hefur vaxið mikið öll árin. Fyrstu árin vorum við líka dugleg að vökva það. Þegar það var gróðursett þarna var aldrei meiningin að byggja húsið fimm metra í átt að trénu. Kastaníutré verða afar breið, en það verður kannski ekki mitt áhyggjuefni hvernig fara eigi að þegar það fer að vaxa inn yfir húsið. Þó veit maður aldrei. Mig grunar að það ráð verði tekið að stytta einhverjar greinar og láta það svo vaxa inn yfir þakið þar til ekki verði undankomu auðið að grípa til sorglegra aðgerða. En þá verða líka einhverjir aðrir verðandi risar stignir fram á Sólvallalóðinni get ég ímyndað mér, verðandi arftakar. Næsta sumar verður kastanían farin að vaxa inn yfir veröndina.
 
 
Þetta er stóra Sólvallaalparósin. Hún er í miklum blóma núna. Þegar ég tók þessa mynd í gær hafði ég stóru Sólvallaeikina skammt frá mér til vinstri. Það verður margt stórt á Sólvöllum þessar vikurnar þegar það skiptast á heitir sólardagar og hlýir rigningardagar. Nú er klukkan hálf tíu að kvöldi og það er talsverð rigning og fjórtán stiga hiti eftir 22 stiga heitan sólskinsdag. Á sunnudag og dagana þar á eftir á dagshitinn að verða 22 til 27 stig. Það mun vaxa svo að augað eygir það eins og sagt var um landbúnaðarguð ásanna.
 
 
Í dag meðan sólin skein suðaði flugnamergðin svo í þessum blómum að ég hef líkt því við þotuhljóð í fjarska. Ekki alveg það sama en ég hef ekkert annað á þessari stundu sem getur sagt það betur. Hins vegar er of lítið af flugum eins og ég hef ábyggilega sagt áður og það rekur á eftir mér með býflugnaræktina. Þá mun mikið frjógvast á Sólvöllum og nágrenni, epli, plómur og margs konar ber munu þá vaxa sem aldrei fyrr. Það er hægt að hafa áhrif til góðs. Ég þarf að klippa alparósina mikið um mánaðamótin mars apríl næstkomandi. Mikil snjóalög fyrir fáeinum árum brutu hana mikið og hún er mjög ójöfn í sköpulagi. Þar verð ég að fá liðveislu reynds fólks og þá mun fara vel.
 
 
Beykið þarna fyrir miðri mynd var pínulítið tré eða stór planta þegar ég kom með þar frá lýðháskólanum við Vingåker árið 2006.  Það er ártal sem ég veit upp á hár. Ég get ekki mælt hæðina nema fá hjálp, en í dag mældi ég breiddina sem reyndist tæpir fimm metrar. Mikið hef ég gaman að svona þróun -það er lífið. Ég hef gaman af að horfa á þetta tré af veröndinni móti skóginum og einnig út um gluggann sem Valdís sat svo oft við. Ég hef líka gaman af að fara út i skóg og horfa heim með þetta tré í forgrunni.
 
Ég er sjálfsagt mesti einfeldningur en mín skemmtilegheit eru alltf nærri mér og kosta lítið.
 
 
Ég átti erindi heim til þessara granna í dag, en þau búa í neðsta húsinu í brekkunni við hliðina á veginum hingað upp. Þau heita Annie og Lennart. Það er líka grænt kringum þau eins og sjá má út um gluggana á sólhúsinu þeirra. Lennart hefur stundum smíðað með mér þegar mér hefur legið á eða þegar ég hef ekki getað gert hlutina einn. Þau eiga bústað upp í Jämtland skammt frá bæ sem heitir Östersund og þangað eru um 600 km. Í dag, eins og oft áður, skoruðu þau á mig að koma í heimsókn í bústaðinn þeirra seinna í sumar. Þau eru með heilt gestahús með öllum nauðsynjum og ég má bara koma og vera og láta fara vel um mig. Já, það er nokkuð að hugsa um.
 
Ef þið klikkið á hlekkinn hér fyrir neðan "Sólvellir" munið þið sjá niður á Sólvelli á gerfihnattamynd. Klikkið líka á "flygfoto" upp í horninu til hægri þegar kortið er komið á skjáinn og þá birtist sjálf myndin. Sólvellir eru undir pílunni með tölunni 3. Lennart og Annie eiga heima undir pílunni lengst til vinstri af þeim fjórum pílum sem sjást.
 


Kommentarer
Björkin

Mágur minn,held að fræin sem eru að koma til hjá okkur séu af HESTKASTANÍUNNI sem er fyrst á blogginu.Við systir teygðum okkur í 3 kúlur sem eru núna 20 -30 litlir laukar.Spennandi hvað verður.Rosa fegurð er á Sólvöllum og gróskan mikið.Góða nótt.

2014-06-07 @ 00:05:37


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0