Enn einn dagur í lífi ellilífeyrisþega

Í kvöld var ég í rúmlega þrjá klukkutíma á námskeiði fyrir býflugnaræktendur. Um það leyti sem við komum þangað byrjaði að rigna, en það var ekki vel þegið af Agnetu býflugnabónda og námskeiðshaldara. Hún ætlaði að láta okkur vinna í býkúbunum sínum en í smá golu og rigningu var það ekki til umræðu. Við fengum þess í stað fræðslu innanhúss. Af minni hálfu var rigningin hins vegar vel þegin. Ég hugsa eins mikið um að gróðurinn hér á Sólvöllum hafi rakan jarðveg og líði vel eins og Agnetu er annt um að býflugurnar hennar hafi hlýju þessa allra síðustu daga sem haustsánu repjuakrarnir eru gulir og gefa af sér hunang.
 
Meðan ég var þarna var mér einmitt hugsað til þessa að óskir um veðurfar eru mismunandi eftir því hvað fólk er að fást við. Á þessu námskeiði eru þrjár manneskjur sem eru grónir býflugnabændur, að sjálfsögðu Agneta og svo tveir menn sem eru hennni til stuðnings. Í augnaráði þeirra allra er vel hægt að greina glóð býflugnaræktandans. Þau brenna fyrir þessu áhugamáli sínu. Ég hins vegar spyr mig hvort ég hafi nóg af þessum brennandi áhuga sem býflugnaræktanda og hvort ég sé reiðubúinn að fórna í það þeim tíma sem til þarf. Eftir því sem þau segja er hversu einfalt sem helst að smitast af þessu. Ef vel gengi hjá mér gæti þetta líka verið smá efnahagsleg viðbót við ellilífeyrinn, en það er annað sem í mínum huga vegur meira, en það er að það þurfa að vera flugur í ríkum mæli til að annast frjógvun á þeim ávaxta og berjarunnum sem ég hef verið að grafa fyrir og gróðursetja hér heima. Alltaf öðru hvoru bregst nefnilega frjóvgunin og í fyrsta lagi vegna þess að það vantar bý og aðrar flugur sem eru góðar í sínu fagi.
 
 
 
Annars hef ég haldið áfram illgresishreinsun minni í dag þar sem frá var horfið í gær jafnframt því sem ég hef verið í almennri snyrtingu þar sem skógur og grasflatir mætast. Það er nokkuð sem mig hefur langað að fara í nokkur síðustu árin en fundið mig of upptekinn af öðru. Ég var mjög ánægður í dag þegar ég var að hreinsa innan um gömlu bláberjarunnana við bláberjabekkinn. Ég elti hvað eftir annað langar, sterkar og hvítar rætur einhverrar hraðvaxinnar jurtar sem ég þekki ekki og gaf mig ekki fyrr en mér fannst sem ég væri kominn fyrir endan á þeim. Í dag fannst mér sem ég hefði allan tíma í heiminum til að gera þetta þar sem engin önnur mikilvægari verkefni biðu mín. Ég var svo sæll með þetta og að allt er að taka svo miklum breytingum í rétta átt. Sólvellir eru farnir að bera vott um gott hugarfar og hirðusemi, ekki bara húsin, heldur umhverfið líka. Þegar ég hef reist mig upp í gær og í dag og litið yfir verkin mín hef ég hugsað  -"loksins".
 
Klukkan er farin að halla í tólf, kvöldrökkrið er sest að og hæglát og ljúf rigningin hnígur góðlátlega til jarðar. Stóru blöðin á hlyninum fá greinarnar til að svigna undan þunga vætunnar en birkikrónurnar virðast bara vera safaríkar og glaðar. Hvernig trén að baki húsinu hafa það sé ég ekki fyrir rökkrinu, en einhvern veginn dylst mér samt ekki að þar ríkir líka velsæld. Hæglátt regnið á að halda áfram fram undir morguntímana, lognið er nú algert og hitinn er ellefu stig. Það heyrist vætuhljóð undan skónum þegar stigið er til jarðar. Á morgun á að verða nokkuð hlýrra og svo hlýnandi áfram með skúrum inn á milli. Fyrir mig er veðurfarið og útlitið hreinlega eins og allra best verður á kosið. Síðan koma hlýir dagar á rakann jarðveginn og allt verður fallegra en nokkru sinni áður á þessu sumri. Mér þykir líklegt að ég kveiki upp í kamínunni í fyrramálið þegar ég stíg undan ullarfeldinum mínum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0