Ekki svo vitlaust að vera til þegar dagarnir eru góðir

Klukkan hálf átta var ég utan við aðalinnganginn með sóp í hendi og baukaði við að fá steinmjölið til að fara niður í fúgurnar á milli gangstéttarhellanna. Þá var ég búinn að vera úti og taka góðan daginn myndina mína og birta hana. Veðrið var indælt, mér fannst ég vera úthvíldur og það var almennt gott að vera þarna. Svo kom Ívar nágranni röltandi norðan veginn með hendur aftan við bak og bauð glaðlega góðan dag. Fáein orð fóru okkur ámilli og svo héldum við báðir áfram, ég með sópinn og hann á leið til annarra nágranna. Allt virtist vera í góðu lagi og það var almennt gott að vera til
 
Svo lagði ég af stað til Volvó í Örebro til að fá nýju sumardekkin sett á felgurnar. Nýskupúkinn í mér gerði vart við sig, vældi svolítið innan í mér, en það var ekkert að fást um. Ég gat fengið helmingi ódýrari dekk en ég hafði beðið um verð á góðum dekkjum og þrátt fyrir verðið þá valdi ég þau dekk. Þannig var það bara. Svo þegar ég hitti þetta vingjarnlega fólk þarna útfrá hugsaði ég ekki meira um peninga. Meðan ég beið hitti ég Nikulás bílasalann minn og sagði honum meðal annars hvað dekkin kostuðu. Já sagði hann, það er alveg ótrúlegt hvað gúmmí getur orðið dýrt.
 
 
En ég svo sem veit það ekki. Þetta er reynar enginn gúmmíhaugur beinlínis, þetta er vönduð vara og háþróuð, og ef það heitir Continental skilst mér að það kosti. Svo borgaði ég með glöðu geði og lagði af stað til annarra verkefna í Örebro. Ég ók niður hraðbrautina móti Gautaborg og niður til Marieberg. En bíddu nú við! Hvaða bíll er þetta sem þau létu mig hafa til baka á Volvó. Ég vissi að ég hafði verið á góðum dekkjum en núna vissi ég hvernig ennþá betri dekk voru. Það var eins og ég væri ekki á sama bíl. Ég var mjög ánægður. Rallýbílstjórar hafa sagt mér að það séu dekkin sem gefa okkur samband við vegin og þess vegna skipti þau öllu máli. Ég hlýt að vera sammála. Í næstu viku kem ég til með að vinna all mikið og fyrir þá vinnu fæ ég greitt það sem ég gæti keypt næstum tvo ganga af gæðadekkjum. Ég verð orðinn gamall maður þegar ég þarf að kaupa dekk næt.
 
 
 
 
Ég byrjað daginn við aðalinnganginn og vesturvegginn og þar byrjaði ég svo aftur þegar ég kom heim. Ég að vísu gat ekki neitað mér um að heimskja plöntur og tré inn á milli og vökva þyrsta berjarunna. Svo fór ég að vinna sunnanvið húsið og svo austan við og verkin runnu ljúflega gegnum hendur mínar og inn á milli var ég með garðkönnur á lofti.
 
 
Broddi hafði birst undan veröndinni allt í einu og byrjaði á þvi að skoða undirskálina sína eftir krókótta ferð að henni. Þá var ég ekki búinn að skammta honum kvöldverð en gerði það um leið og ég varð hans var. Svo baukuðum við þarna hljóðir báðir tveir og skiptum okkur ekki hvor af öðrum. Samt vorum við óneitanlega félagar. Við búum sama stað. Það eina sem styggði hann var ef ég talaði við hann, þá rölti hann burtu. Að hugsa sér, hann þoldi ekki að hlusta á mig.
 
Svo gáði ég á klukkuna. En heyrðu! korter í níu að kvöldi og ég þurfti endilega að vökva meira. Svo gerði ég það og ennþá var kyrrðin sú sama og ennþá var dagurinn notalegur. Ég hafði litið á textavrp nokkru fyrr og þar voru óvenju ljótar fréttir. Það var ekkert að hafa og ég hef ekki litið mneira á sjónvarp og ekki kveik tá útvarpi. Bara ef allir gætu lifað jafn einföldu lífi í sátt og samlyndi eins og við Broddi; ja!, þá væri ekki margt að í heimi hér. Og þrátt fyrir einfaldleikann á sambýli okkar vorum við báðir  ánægðir.
 
 
 
Á morgun ætla ég á Kvarntorpshauginn. Þar uppi er mikilfenglegt útsýni og þar er kaffihús. Ég er búinn að lofa að halda tal í bæ í Södermanland á laugardag og ég hef ekkert gert til að undirbúa það. Því ætla ég upp á þennan skógi vaxna haug til að fá innblástur og skrifa nokkra minnispunkta á blað. Þessir punktar eru þegar á stjái í kollinum á mér en ég þarf að koma skipulagi á þá. Ég ætla að fá mér kaffi á Kvarntorpshaugnum og bestu brauðsneiðina sem boðið verður upp á. Svo reikna ég með að ég fái mér ábót og hver veit nema að það laumist tertubiti á brauðdiskinn minn með kaffiábótinni. Ég ælta ekki að vera nýskur á morgun, ég ætla að halda mér smá veislu og reyna að láta hugsanirnar þeysa um huga minn á jafn hljóðlátan og einfaldan hátt og sambandið milli okkar Brodda var þegar kvölda tók.
 

Eiginlega þarf ég við tækifæri að gefa skýringu á Kvarntorpshaugnum. Merkilegt fyrirbæri.


Kommentarer
Dísa gamli granni

Gerðu það Guðjón minn. Lofaðu okkur að heyra hvað þetta fyrirbæri er

2014-06-13 @ 00:29:44
Guðjón

Það kemur um helgina Dísa.

2014-06-13 @ 21:15:15
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Björkin.

Svo mikill dugnaðarforkur,sem þú ert.

2014-06-14 @ 13:25:47


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0