Kvöldkyrrð

Ég sat áðan á bláberjabekknum og gerði ekki neitt. Ég var á leiðinni til að gera eitthvað en þegar ég var að ganga framhjá bekknum saknaði ég þess að hafa ekki setið á honum lengi. Rigning hefur það verið, annríki sem hefur kannski í fyrsta lagi verið í höfðinu á mér en svo skiptir það bara engu máli hvers vegna ekki. Það sem skipti máli var að núna sat ég þar. Svo þegar ég kom inn ætlaði ég að muna hvað ég var að fara að gera en ég var þá búinn að gleyma því. Kannski ætlaði ég bara að gá hvernig einhver planta eða lítið tré hefur vaxið í rigningunni. Erindi mín út í skóg snúast oft um eitthvað svoleiðis.
 
Svo þegar ég var setstur á bekkinn var ég ánægður með lífið. Þeir höfðu talað um bardaga niður í Írak og að rússi hefði verið drepinn í Úkraínu. En ég sleppti því alveg. Ég mun bara gera eins og ég er vanur að biðja fyrir framtíð mannkynsins í morgunbæninni minni í fyrramálið ásamt því að biðja fyrir stjórnmálamönnunum sem okkur finnst að séu að leika sér að eldinunm.
 
Svo horfði ég á bláberin á bláberjarunnum og fannst að það væri best að flytja þá að nýju bláberjarunnunum sem ég gróðursetti í vor. Þar yrði bjartara á þeim og ekki síst eftir að búið yrði að fella bjarkirnar þrjár sem standa í vegi fyrir útfærslu matjurtagarðsins. Svo leit ég upp eftir þessum björkum og fannst synd að fella þær. Þær eru næstum himinháar. Þær eru búnar að vera nágrannar mínir svo lengi. En það var líka fáránlegt að hafa ekki pláss fyrir matjurtirnar fyrir skógi. Svo gerði ég samning. Bara fella tvær bjarkir en ekki þrjár. Eftir það hugsaði ég ekki neitt. Ég lét bara fara vel um mig og var grafkyrr og hljóður eins og trén í kringum mig og það var notalegt.
 
 
Ég fer í vinnu um klukkan hálf tíu í fyrramálið, þriðjudagsmorgun, og kem heim eftir sólarhrings fjarveru frá Sólvöllum. Það sem ég hef gert til undirbúnings gestakomu verður að duga eins og það er. Ég get gert svolítið eftir að ég kem heim á miðvikudag, en svo fer ég aftur af stað um hálftíu leytið á fimmtudag og verð annan sólarhring. Ég fann á leiðinni heim frá bláberjabekknum að ég nennti þessu ekki. Ég veit hins vegar af fleiri ára reynslu að þegar ég verð lagður af stað, þá verð ég mjög sáttur við að vinna. Svo þegar ég kem í Vornes verður það köllun. Ég þarf heldur ekki að vinna eins mikið og í vikunni þar á undan. Það var kannski ekki skynsamlegt en ég lifði það vel af. Ég veit að jasmínan á myndinni verður búin að fella blómin þegar ég kem í Vornes á morgun.
 
 
Ég man svo vel eftir því fyrir mörgum árum að ég stóð álengdar frá þessu angandi blómahafi og ákvað að fá mér svona runna sem ég gerði. Gallinn var bara sá að hann var á þannig stað við innganginn heim til okkar í Örebro að við urðum að klippa hann á hverju ári. Þess vegna bar hann svo lítið af blómum. Nú ætla ég að fá mér svona runna og gróðursetja hann þar sem ekki þarf að klippa hann. Þá mun hann blómstra eins og Vornesjasmínan. Anganin af runnanum í Vornesi var stundum svo mögnuð að mér fannst sem það væri hægt að taka lyktina í krukku og færa Valdísi.
 
Um daginn hitti ég mann sem vann eldhúsinu í Vornesi fyrir einum fimmtán árum. Hann sagðist muna eftir ýmsu varðandi mig en eitt stæði þó upp úr. Þá var runni í bakgarðinum, hinu megin við húsið, sem var í ótrúlega miklu hvítu blómahafi. Ég hafði verið að vinna nótt og fór heim nokkru fyrir hádegi. Svo sagði hann að ég hefði komið einhverjum klukkutímum seinna og með Valdísimeð mér til að taka mynd af henni standandi upp við þetta ótrúlega blómahaf. "Þessu gleymi ég aldrei" sagði maðurinn. Smám saman fór ég að minnast þessa líka. Það eru margar myndirnar í möppunum sem Valdís raðaði samviskusamlega inn í á árunum sem myndir komu á pappír. Í tímans rás mun ég finna þessa mynd. Það verður gaman að því.


Kommentarer
Björkin

Gott blogg mágur minn.Farðu varlega.Krammmmmm.

2014-06-30 @ 22:05:57
Guðjón

Takk mágkona, ég mun fara varlega.

2014-06-30 @ 22:09:38
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0