Býflugur

Ég var á býflugnanámskeiði í kvöld. Það er alveg makalaust hvað þær eru margar þessar flugur. Eruð þið þreytt? spurði yfirbýflugan Agneta þegar við vorum búin að fá okkur kaffisopa í lok námskeiðsins. Já, við vorum öll þreytt og mér finnst núna eftir að ég er búinn að vera svolitla stund heima að ég sé eins og með flugu í höfðinu.
 
Svona getur það litið út ínni í býflugnakúpunni. Það er ein og önnur fluga þarna og það mætti ætla að þarna sé allt skipulagslaust en því fer fjarri. Ekki ætla ég að reyna að útskýra það en eitt er víst að þegar eitthvað vantar eða ef eitthvað fer úrskeiðis þarna inni, þá er gengið til verka og þá eru það engar tilviljanir sem ráða för.
 
 
Þetta kannski segir ekki svo mikið meira en fyrri myndin og þó; svona lítur innréttingin út í býflugnabúi. Það er langt frá því að þarna sé um dýraníð að ræða. Þarna er bara búið að útbúa kjörheimili fyrir þessar flugur og þær geta farið út og inn að vild. Þær eru líka algerlega meinlausar vil ég segja og það er ekki nema býfluga lendi í einhverri klemmu eða áreiti sem þær stinga.
 
 
Við sjáum þarna aftan á yfirbýfluguna sem er þessi þarna með svart barð á hattinum sínum. Björn stórbýflugnabóndi er að taka upp rammana úr einni kúpu og segja okkur hvað geti verið að eða hvað þurfi að varast.
 
 
Þegar ég kom heim gekk ég beint að alparósinni og hún er hreinlega engu líka núna. Þetta er blómlegasti dagurinn hjá henni. Ég held að blómadýrðin á henni getir ekki orðið meiri. Og inn í þessu blómahafi var mikið um að vera. Það var ábyggilega meiri háttar veisla þar fyrir stórar og loðnar hunangsflugur.
 
 
Svo horfði ég norður eftir veginum og síðan suður eftir en enginn var á ferð sem ég gat beðið að taka mynd af mér með alparósinni minni þannig að ég prufaði að gera það sjálfur. Ég skoðaði og sá þar afar alvarlegan mann, bara yfirþyrmandi alvarlegan og ég henti myndinni. Hvernig átti ég að fá sjálfan mig til að brosa í myndatöku hjá sjálfum mér.
 
Ég fann að ég hafði skógarmýtil aftan á lærinu og fór að hugsa um hvernig ég ætti að ná honum. Ég mundi nú leysa það fyrst ég gat leyst vandamálið þegar ég hafði skógarmýtil aftan á rasskinninni um daginn. Ég sá sjálfan mig í anda þegar ég bakkaði boginn í baki og nærbuxurnar á hælunum upp að speglinum á skáphurðinni inn í herbergi með sprittblauta bómull í annarri hendinni og flísatöng í hinni. Síðan lagði ég mig allan fram um að hitta með físatöngina yfir kvikindið, svo kleip ég og ég hafði mýtilinn á valdi mínu. Hann var ekki lengur fastur í húð minni. En ég get látið ykkur vita að áður en ég bakkaði með rassinn upp að speglinum, þá dró ég niður rúllugardýnurnar. Í gær hafði ég þrjá fasta á mér og  náði þeim öllum.
 
Þegar ég hugsaði um þetta fékk ég aðeins léttara yfirbragð. Annars finnst mér sem hiti dagsins sé fastur Í andliti mínu á þessari mynd. Ég veit að hitinn í dag fór yfir 25 stig. Í gær var ég á endurvinnslunni í Fjugesta og þá stóð mælirinn í 28 stigum. Eldra par kom á bíl og lagði bílnum neðan við rampinn. Roskinn maður gekk síðan þungum skrefum upp rampinn með eitthvað frekar létt í poka. Þegar hann kom á móts við mig heilsaði ég og sagði að notalegt væri góða veðrið. Maðurinn stundi upp að svo væri. Ég sá hins vegar að honum fannst annað. Hann var sveittur og virtist eiga fremur erfitt. Áður en hann var alveg kominn framhjá sagði hann: en það er nauðsynlegt að vera með einhvers konar hatt á höfðinu. Svo henti hann pokanum í einn gámanna og gekk heldur léttari skrefum niður rampinn, hvarf inn í bíl hjá kellu og þau hurfu á braut. Satt best að segja var hann ekki yfir sig hrifinn. Það vr auðvelt að sjá.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0