Dagur í lífi ellilífeyrisþega

Dagur illgresisins sagði ég á feisbókinni í morgun. Eiginlega er þetta öfugmæli því að þó að ég væri að hreinsa illgresi vítt og breitt á Sólvallalóðinni, þá var dagurinn góður, enginn illgresisdagur. Dagur í lífi ellilífeyrisþega hefði ég frekar átt að segja.
 
Ég lá á hnjánum sunnan við hús og hreinsaði kringum rifsberjarunna. Eitthvað fékk mig allt í einu til að líta upp og ég leit inn í skóg. Þar með stóð ég upp og gekk inn í skóg. Ég horfði á tignarlega trjátoppa, góndi upp þangað mig fór hálfpartinn að svima. Hálsinn er orðinn eitthvað stirðari en á yngri árum. Ég sá tvö lítil tré sem ég ætti að setja band á til að rétta þau. Ég lagði á minnið að kaupa gamaldags snæri þegar ég kæmi við í versluninni Nágrannabænum í Fjugesta seinna í dag. Svo kom ég heim á lóð og byrjaði þá að reita á allt öðrum stað.
 
Svo tók ég mótororfið og sló burtu hávaxið gras kringum stubbinn af stóru, gömlu Sólvallabjörkinni sem við felldum fyrir all mörgum árum. Svo reitti ég þar sem ég hafði farið frá þegar ég fór inn í skóg. Svolítið var ég óskipulagður en ég var bara eins og mér fannst best að vera. Það er merkilegt hvað margt getur komið upp í hugann þegar ég þarf ekki að einbeita mér. Allt í einu datt mér í hug frétt frá því fyrr nokkrum vikum. Þar sagði að traust til sænskra stjórnmálamanna væri mikið og vaxandi. Það hefði ekki verið eins mikið og nú síðan á áttunda áratugnum.
 
Eiginlega af gefnu tilefni datt mér líka í hug umræðuþáttur frá því fyrir einhverjum misserum. Þar voru meðal annars sagnfræðingar með í umræðunni. Þeir sögðu að framfarir og velgengni í sænsku samfélagi hefði gegnum aldirnar alltaf verið mestar um og eftir mikið aðstreymi fólks frá öðrum löndum. Í framhaldi af því datt mér í hug ræða skólastjóra upp í Falun fyrir einum átján árum þegar Valdís var að ljúka sænskunámskeiði, sænskunámskeiði sem eingöngu var fyrir innflytjendur.
 
Allir sem höfðu verið á námskeiðinu komu með eitthvað matarkyns með sér á skólaslitin, eitthvað sem var einkennandi fyrir þeirra land. Það var afar skrautlegt hlaðborð og skólastjórinn sagði að svona væri það þegar ólíkir menningarheimar legðu sitt af mörkum í sátt og samlyndi, þá yrði fjölbreytnin mikil og gæði samfélagsins tæki líka framförum. Hann sagði þetta á sinn hátt sem ég get ekki farið rétt með svo löngu seinna, en ég hreifst af frjálslyndi hans og víðsýni.
 
 
 
Svo fór ég til Fjugesta og kom pakka í póst. Ég fór líka í kaupfélagið en gleymdi að kaupa rjómann þannig að það verður rjómalaus hafragrautur á morgun. Það er þó bót í máli að ég fékk vistvænu apríkósurnar sem mig hefur vantað síðan í síðustu viku. Ég hef haldið því fram í mörg ár að það þurfi ekki alltaf allt að vera til. Það verður því í lagi með rjómalausan hafragraut í eina tvo daga eða fram að næstu verslunarferð. Snærið fékkst hins vegar ekki í Nágrannabænum og konan sem var mér til góðrar aðstoðar vissi hreinlega ekki hvað gamaldags snæri er. Ég veit að það fæst í K-rauta í Marieberg. Trén verða því að bíða eftir stuðningi í einhverja daga.
 
Svo eftir heimkomuna fór ég aftur út á lóð, nú norðan við húsið. Þá datt mér allt í einu í hug hann Hallgrímur Indriðason skógfræðingur á Akureyri. Mér fannst svo gott að koma við í gróðrastöðinni Kjarna þegar ég skrapp til Akureyrar í gamla daga. Hallgrímur, þessi mikli gæðamaður, tók mér alltaf jafn vel og allt fólk sem ég hitti þarna fannst mér þægilegt fólk. Ég var nefnilega alveg viss um það að þeir sem ynnu við skógrækt og annan gróður væru alveg sérstakar gæðamanneskjur. Stuttu áður en við Valdís fluttum út heimsótti ég Hallgrím og Kristínu konu hans á þeirra fallega heimili í því frábæra umhverfi sem Fjaran á Akureyri er.
 
Ég nefndi þetta þá við þau. Þau hlógu ekki að mér en brostu kankvíslega ef ég man rétt. Hallgrímur hafði aldrei velt þessu fyrir sér og ég fékk ekki neina sérstaka staðfestingu á þessari skoðun minni. Þegar ég var í Skógum kom  fólk frá gróðrarstöðinni á Tumastöðum til að aðstoða við gróðursetningu í Skógum og mér fannst líka að þar hitti ég sérstakt fólk, ég sem þá var nánast barn. Það var kannski þess vegna sem mér var boðin vinna á Tumastöðum eftir síðasta veturinn minn í Skógum. Ég afþakkaði en þó með miklum trega.
 
Já, það var mikið meira í dag sem flaug um hugann en heimurinn kemst af þó að ég sé ekki að setja það allt á blað.
 
 
Ps. Þess má líka geta að þegar við Hallgrímur töluðums við sagði hann gjarnan "Guðjón minn".


Kommentarer
Svanhvit

Fint skrifað, og víst er gott að vera ellilífeyrisþegi. 😍

2014-06-03 @ 15:12:54


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0