Gestirnir mínir ásamt ýmsu öðru

 
Leif og Ingibjörg Sik. Ingibjörg er íslensk, er Pétursdóttir frá Siglufirði. Ég hef nefnt þessi hjón áður en það skemmir ekki að gera það aftur. Þau heimsóttu mig á Sólvelli í dag. Ég hef fengið hjá þeim margan kaffisopann og heimabakað kaffibrauð sem þau luma á, ég held alltaf. Ég held að það sé Ingibjörg sem annast að það sé til kaffibrauð í frystiskápnum. Leif er duglegur við kaffið og að bera fram veitingarnar þegar ég kem til þeirra. Það var kominn tími til að ég bæri á borð fyrir þau og það var frekar íslenskt borð sem ég bauð upp á.
 
Sem ungur maður var Leif til sjós og þá meðal annars meö ungum íslenskum manni og þeir urðu vinir. Eftir að þeir hættu til sjós hafði Íslendingurinn samband við Leif og stakk upp á að hann kæmi til Íslands. Svo gerði Leif og þá hitti hann Ingibjörgu og eftir það var ekki aftur snúið. Það er ekki hægt að kalla þetta ástarsögu hjá mér en þó er það nú svo að fleiri áratugum seinna deila þau ennþá lífinu með hvort öðru og hafa búið í meira en fjörutíu ár í Fjugesta.
 
Leif talar reiprennandi íslensku og hann er mjög fróður um Ísland og getur frætt mig um margt sem ég veit ekki um föðurland mitt. Frænka Ingibjargar fann bloggið mitt og áttaði sig á því hvar ég bý, hafði samband við mig og gaf mér upp símanúmerið hjá þeim. Þannig geta hlutirnir gengið fyrir sig.
 
 
*          *          *
 
 
 
Ætli það séu ekki þrír dagar síðan ég startaði þessari verksmiðju inn í skógi eina 20 metra að baki húsinu. Það er kannski ekki í frásögur færandi en mér þykir þó að það sé gott framtak hjá mér að hafa gert það. Þetta er moltukerið mitt. Ég veit ekki hvernig moltukerin líta út á Íslandi en ég veti að þau eru í notkun þar. Öllu rusli sem sett er í ruslatunnurnar í sveitarfélaginu er brennt í Fjugesta. Ég get ekki séð ástæu til að vera að flytja matrafgangana mína þangað þegar ég get gert gagn úr þeim hér heima. Umhverfisvænna hlýtur það að vera.
 
 
Hlynurinn er farinn að fella fræin og vegurinn er þakinn af þeim. Þau eru auðvitað yfir allt en sjást ekki svo vel í skóginum eða á grænni lóðinni. Frábær náttúran að sjá um sitt. Fuglarnir éta reyniberin og skíta þeim svo út um allt og þess vegna má segja að reyniviður sé að vissu leyti illgresi. Hlynurinn er hins vegar útbúinn með fræum sem fljúga og það nálgast nú stundum að mér geti fundist hann líka vera illgresi, en málið er bara að hann er svo fallegur með sínum stóru blöðum, blöðum sem geta verið á stærð við tvær hendur sem lagðar eru hlið við hlíð. Vænghaf þessa fræs er 8,5 sentimetrar.
 
 
 
 
Ég gaf honum Brodda í kvöld, egg frá vistvænu hænsnabúi. Broddi hefur ekki látið sjá sig í marga daga og ég veit ekki hvort hann kemur til að éta eggið frá mér. Ég svo sem kann skýringu á því. Hann varð fyrir smá slysi hér heima, nokkuð sem er of langt mál að blogga um seint að kvöldi. Ég er líka búinn að vita lengi að hann heldur framhjá mér. Hann stillir sér fyrir framan nágranna minn þegar hann situr á kantinum á veröndinni heima hjá sér. Svo horfast þeir í augu og tala blíðlega saman. Þetta hefur nágranninn sjálfur sagt mér. Þó að mér mislíki þetta, þá þykir mér vænt um Brodda og ég verð bara að sætta mig við það sem er í gangi :)
 
Ps. Núna liður mér mikið betur. Klukkan er 23,40 og út í kvöldrökkrinu er Broddi að éta vistvæna eggið frá mér. Honum er allt fyrirgefið á þessari stundu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0