Það er líklega ekki sama mold og mold

Ég varð svo montinn þegar ég var búinn að gera rabarbarasultu um daginn að mér fannst ég verða að auka út rabarbaragarðinn. Ég ákvað að bæta við tveimur hnausum og tók mér skófluna í hönd og byrjaði að grafa fyrir þeim. Það má alltaf vona það besta og það gerði ég líka þegar stakk niður spaðanum og það gekk vel. En það var bara ein stunga sem gekk vel, síðan tók við grjót. Ég hef ekki hugmynd um hvað þessir steinar vega en þeir vógu alla vega of mikið fyrir mig. Ég varð mér úti um planka og notaði vogaraflið. Þetta var í rúmlega tuttugu stiga hita í dag en mér fannst hitinn vera upp undir þrjátíu. Þetta er að verða tilbúið eins og sjá má á myndinni en eiginlega eru það pokarnir lengst í burtu sem ég er að hugsa um.
 
Ég gat farið í byggingarvöruverslun og fengið kúaskít fyrir 22 krónur pokann ef ég keypti fjóra í einu. Ég fór hins vegar til hans Ingemars skrúðgarðameistara í Adolfsberg, mannsins sem fékk Íslandsferð í afmælisgjöf frá konunni sinni fyrir nokkrum árum, og þar kostaði pokinn 56 krónur ef ég keypti þrjá í einu. Allir sem þekkja til Ingemars treysta því sem hann segir og það geri ég líka. Ótal sinnum hef ég farið þangað bara til að fá góð ráð og þau gefur hann með glöðu geði. Ég verð líka að kaupa eitthvað hjá honum þó að það sé dýrara.
 
Pernilla afgreiddi mig og ég spurði hana hvers vegna þessi feikna verðmunur væri á kúaskítnum. Hún hugsaði sig fyrst um en svo ypti hún öxlum og sagðist ekki vita það. Svo borgaði ég fyrir þrjá poka. Þegar ég var búinn að borga sagði hún mér frá því að ábyrgur aðili sem ég man ekki hver var hefði gert könnun á gæðum innihalds sekkjanna. Í verslunum sem hún nefndi sagði hún að það hefðu verið þungmálmar og fleiri varasöm efni í innihaldinu en við vorum alla vega ekki á þeim lista sagði hún ennfremur.
 
Ég sá alls ekki eftir verðmuninum þegar ég var búinn að heyra þetta. Ég bloggaði um það um daginn að ég keypti dýrari matvöru ef ég væri viss um að ég væri að kaupa betri vöru. Það er best að gera það sama með jarðveg sem ég framleiði matvöru í. Ég vil ekki hafa þungamálma í rabarbarasultunni sem ég geri. Ég vildi endilega koma þessu á framfæri. Það er búið að bjóða mér að taka skít úr haugum hjá hestamönnum. Ég læt það eiga sig. Ég veit ekkert um hvaða lyf er hugsanlega búið að gefa hestunum.
 
 
 
Ég er búinn að byggja bráðabyrgðaskýli yfir sambýlinginn minn. Það er spáð nánast linnulausri rigningu næstu daga og eggið verður svo þunnt á diskinum hans ef það rignir mikið á það. Þessi úrkoma á að byrja á morgun. Ég þarf svo að byggja vandaðra húsnæði fyrir hann, húsnæði sem dugir fyrir hann til vetursetu.
 
Ég sé svo til í fyrramálið hvað hefur orðið úr þessari rigningu. Ef spáin gengur eftir er kannski kominn tími á innanhússverk hér á Sólvöllum.


Kommentarer
Björkin

Held bara að Broddi sé að fitna.Góða nótt.

2014-06-27 @ 00:47:20


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0