Þar með hallar að nóttu

Það er laugardagskvöld og ég er heima. Á mogurn fer ég aftur í vinnu og verð einn sólarhring í vinnu frá og með hádegi á sunnudag. Á mánudagsmorgun lýkur einhverri stífustu vinnuviku minni í átján og hálfs árs sögu minni á þessum besta vinnustað á öllum vinnuferli mínum. Þar hef ég fundið eitthvað mikilvægt sem ég hef viljað hlú að og ég hef þar af leiðandi helgað mig því, ekki bara sem tekjulind til framfærslu, heldur líka að stórum hluta sem köllun til að verða að liði þar sem liðveislu er þörf.
 
Heima hjá mér var fólk sem tók mér opnum örmum og matur var framreiddur án liðveislu minnar. Ég hins vegar kom við í matvöruversluninni Cityhallen í Vingåker á leiðinni heim. Framan við verslunina sat stúlka bak við snyrtilega tafla af jarðarberjum frá Skáni. Að vera á leiðinni heim í blíðviðri eftir sólarhrings vinnutörn á meðferðarheimilinu og sjá þennan girnilega varning, fékk mig að sjálfsögðu til að kaupa mér slatta af berjum til að verðlauna mig fyrir framlagið til samfélagsins og til að bjóða gestunum mínum upp á eitthvað girnilegt. Ég vissi líka að þau myndu sjá til þess að það yrði góður kvöldmatur þegar þar að kæmi. Svo varð það líka.
 
Á myndinni er hann nafni minn að borða jarðarber í ís, nokkuð sem honum líkaði mjög vel.
 
Svona geta þrjár tegundir af ís fá sænskum mjólkurbúum litið út og fersk og falleg voru jarðarberin. Það er nú einu sinni Jónsmessuhelgi sem Svíar kalla miðsumar og hér er það helgi sambærileg við verslunarmannahelgina á Íslandi.
 
 
Hann vekur talsverða eftirtekt þessi skemmtilegi ábúandi á Sólvöllum. Myndina tók ég núna í kvöld og það er merkilegt hvað hann sækir í að hafa afturendan í diskinum sem honum er skenkt vatnið á. Hann hefur sína siði sem við mundum ekki vilja hafa sem okkar borðsiði. En það er ekkert skrýtið, hann mundi væntanlega alls ekki vilja verða eins og við þó að honum biðist það.
 
 
Myndirnar af Brodda eru líkar frá degi til dags og útsýnið móti vestnorðvestri til Kilsbergen er einnig líkt frá degi til dags. En birtan er fjölbreytileg og gefur þessu útsýni misjöfn blæbrigði. Þessi bælbrigði voru með allra fallegasta móti nú fyrir stundu. Á því augnabliki sem ég er að skrifa þetta eru blæbrigðin allt önnur. Kannski hvorki fallegri eða minna falleg, en allt öðru vísi.
 
Þar með hallar að nóttu og gott fyrir vinnandi ellilífeyrisþega að fara að undirbúa samveruna með Óla Lokbrá.


Kommentarer
Björkin

Fæ vatn í munninn við að sjá jarðaberin.Góða nótt mágur minn og góða nótt.

2014-06-21 @ 23:39:49
Guðjón

Og góð voru þau, því get ég lofað. Nú er kominn dagur hér svo að ég segi góðan daginn.

2014-06-22 @ 08:34:11
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0