Vor í lofti

Það er full mikið að segja að það sé vor í lofti en það er alla vega veruleg breyting á veðri. Veðurfræðingur orðaði það þó þannig í gær eða fyrradag að það væri breyting í þá átt. Snjór er farinn að sjatna og þegar ég kom á Sóvelli eftir hádegi var þar jafnfallinn 20 sm snjór. Gömlu þakpönnurnar voru orðnar mikið veðraðar og héldu vel í snjóinn en þær nýju eru hálf glansandi og hálar. Snjórinn hafði því að mestu runnið af þakinu og lá í grjóthörðum, blautum og þungum haugum kringum húsið en lá þó ekki upp að veggjunum. Ég ætlaði að fara að moka þessu burtu en þegar ég var búinn að moka vel frá dyrunum nennti ég ekki meiru og þótti vinnan með hamarinn og sögina mikið meira áríðandi. Annars þetta með snjóinn, þá er ég feginn að hann rennur niður. Ef það skyldi snjóa meira yrði þakið óþarflega þungt þó að það sé traustlega byggt. Ég þarf samt að styrkja gamla þakið betur með fleiri stífum milli skammbita og sperra. Þá þarf ég að skríða fram og til baka uppi í risinu og verð þá gjarnan haltur. Einn góðan veðurdag kem ég samt til með að drífa mig þangað upp og gera þetta og kemst þá að því að það klárast ef ég byrja.

Menningarviðburður kvöldsins var Så skall det låta og þar var meðal annars hún Sanna Nielssen. Hún er nú meiri snillingurinn hún Sanna. Þessi 22gja ára kona syngur sig auðveldlega inn í hjörtu fólks og hún á auðvelt með að leggja mig að velli og gera mig að aðdáanda, öllu heldur okkur Valdísi bæði. Við höfum tvisvar hlustað á hana á jólatónleikum hér í Örebro og það sést svo vel að hún er ekki hrokafull yfir velgengni sinni. Það er frábært að svona fólk finnst meðal okkar.

Vetrarælupestin (eins og sagt er hér) er búin að ná hámarki og er víst á niðurleið. Hins vegar er flensan ekki búin að ná hámarki eftir því sem mér skilst. Valdís er bólusett en ekki ég. Það var ekki nægjanlegt bóluefni til að bólusetja alla. En ég segi bara sjö, níu, þrettán og er ekki sérstaklega hræddur við flensufaraldurinn. Ég er ekki sérlega næmur fyrir umgangspestum. Sérstklega yngri vinnufélagar mínir eru hins vegar næmir fyrir bæði vetrarælupest og flensu og ófáar aukagrúppur og fyrirlestra hef ég fengið í minn hlut vegna þessa. Ég sem er elstur í mínum hópi. Þar með verð ég aðeins að skrifa um heilsu. Mér finnst að á síðustu mánuðum hafi ég orðið frískari en lengi, lengi áður og hvað getur valdið því? Ég er mikið úti að vinna á Sólvöllum í alls konar veðrum og það hlýtur að vera mjög hollt. En við breyttum líka mataræðinu fyrir nokkrum mánuðum. Við erum farin að borða mat sem líkist mjög því sem við borðuðum fyrir svo sem 20 til 50 árum síðan. Svínakjötið höfum við því sem næst alveg hætt að borða, en við erum í staðinn dugleg við að borða lambakjötið sem við kaupum í Ali Baba. Grænmetisátið hefur líka breytst og nú borðum við mikið af grænum baunum, rauðkáli og rauðbeðum, nokkuð sem var nær eina grænmetið fyrr á árum. Svo nota ég líka glukósamín en heilsa mín hafði breytst löngu áður en ég byrjaði á því.

Nú hætti ég þessum þönkum og það er komið mál til að ég stingi upp í mig tannburstanum. Ég þegi alla vega á meðan hann er upp í mér.

Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0