Fallinn í valinn

Ég hefði átt að láta það vera að monta mig af því hversu hraustur ég væri og hraustari en þeir yngstu á mínum vinnustað. Hver haldið þið að verðlaunin fyrir þetta mont hafi verið? Ég er heima á öðrum degi og er með vetrarælupestina. Reyndar leitaði innihaldið í hina áttina en mér sýnist að best sé að lýsa sjúkdómsástandi mínu ekkert frekar. Ég fór í vinnu á þriðjudaginn en hefði ekki átt að gera það. Ég var lélegur til heilsunnar þá með innvortis óþægindi á byrjunarstigi og lélegur launþegi þann dag, en það voru bara þrír aðrir veikir og einn var langt upp í landi og ekki um margt að velja. Ég var greinilega frískastur allra veikra í Vornesi þennan dag.

Og talandi um veikindi, þá geta þau orðið svo mikið alvarlegri en þetta. Um tíuleytið í gærmorgun hringdi hann Kjell vinnufélagi  minn. Ég vissi að hann hafði verið kallaður skyndilega í læknisviðtal eftir rannsókn sem fram fór nýlega og var hann nú að koma þaðan. Ég er með magakrabba sagði Kjell. Nú ber þess að geta að hann var ekki einn þessara veiku sem ég hef þegar talað um þar sem hann var í venjulegu fríi eftir að hafa verið á næturvakt. Kjell var búinn að tala mikið um hvað læknirinn vildi honum og grunaði hann sterklega um hvað var að ræða. Svo var það staðfest. Og hvað gat ég sagt þegar svona boðskapur gekk inn í eyra mitt gegnum símann? Ég sagði að ég hefði haldið að hann hefði þegar gengið í gegnum sinn hreinsunareld. Fyrir um tveimur árum var nefnilega ristillinn fjarlægður og það tók Kjell langan tíma að koma til heilsu á ný eftir það, og eftir að hafa líka verið lengi lélegur áður en þessi stóra aðgerð var framkvæmd. Ég er oft þakklátur fyrir heilsu mína og er það svo sannarlega núna þrátt fyrir smá helti við viss tækifæri. Kjell er einhver besti vinur minn í þessu landi. Hann var skráður í Íslandsferð seinna í mánuðinum en er nú búinn að afpanta þá ferð. Hann er vongóður og hefur fengið vitneskju um að horfur séu góðar, en létt er það ekki hvernig sem á það er litið.

Ég sit við suðurglugga og horfi móti Suðurbæjarbrekkunni sem er skógi vaxin. Það er þoka og ég sé aðeins daufar útlínur furu- og grenitoppanna upp á brekkubrúnunni. Niður á sléttunni undir brekkunni sést skógurinn betur. Þar er mest birki en ein og ein smávaxin fura stingur upp toppnum inn á milli. Birkið er þegar farið að vakna af vetrarsvefninum. Á hverju það sést get ég ekki svarað en það er breyting í gangi alla vega. Veðurspáin gerir ráð fyrir tíu stiga hita um helgi og enn meiri hita í næstu viku. Þar með mun lífið ganga móti vordögum og vexti með óstöðvandi krafti. Það krefur vinnu á Sólvöllum, ekki bara við byggingarframkvæmdir, heldur í skóginum líka. Ef draumurinn á að rætast um vel hirtan laufskóg á Sólvöllum verður að sinna því. Eftir nokkur ár vil ég geta setið ásamt Valdísi í tréstólum undir bústnum krónum lauftrjáa sem ég er meðvitaður um að við höfum hjálpað til að verða til. Það gerum við með því að útrýma villigróðri og með því að grisja. Að baki Sólvallaskóginum er nokkuð gamall greniskógur blandaður einstaka furu. Þess vegna getum við fellt grenitrén í okkar skógi og með því sleppt enn meiri birtu inn í laufskóginn. Ég vona að það geti átt sér stað fljótlega eftir næstu áramót og svo skal saga þessi grenitré niður í borð og planka sem síðan verða notuð til að byggja gestastuguna  ?ef Guð lofar. Og meðan engin öllur teikn eru á lofti höldum við okkar striki.

Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer
Rosa

leiðinlegt að heyra þetta með kjell. kveðja, r

2007-03-08 @ 12:54:54
Alvar og Guðrun

Heill sé þér meistari.
Okkur þykir leitt að heyra með veikindi þín en erum jafnframt viss um að þú verður kominn á fætur innan tíðar.
Okkur þykir gaman að sjá Sólvelli stækka og lesa lýsingar þínar af samskiptum þínum við skóginn. Það læðist um mann sælu tilfinning, vitandi að við komum til með að geta skroppið í heimsókn til ykkar á Sólvelli í sumar byrjun. Það verður dásamlegt að geta leyft stelpunum, Þóru Laufeyju og Sigrúnu Birnu, að hlaupa um og skoða sig í skóginum. Finna skógarilminn og njóta kyrrðarinna í sveitinni.

Við hlökkum mikið til að hitta ykkur Valdísi í sumar.

kv. Alvar, Guðrún og stelpurnar.

2007-03-13 @ 22:57:19
Rosa

halló pabbinn minn. er ekki kominn tími til að uppdatera? ég er orðin leið á að forðast lýsingar þínar á vinterkräksjukan...

2007-03-15 @ 17:31:24


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0