Nýr áfangi

Í dag upplifi ég minn fyrsta dag sem ellilífeyrisþegi. Þó er það ekki alveg rétt. Ég er nefnilega í sumarfríi. Á fyrstu árum mínum í Vornesi safnaði ég upp sumarfrísdögum og þó að ég hafi reynt að eyða þeim aftur eftir að við keyptum Sólvelli, þá átti ég eftir sumarfrísdaga sem duga mér í frí til 30. apríl. Eftir það er ég í raun og veru löglegur.

Áður en ég held áfram vil ég segja að ég kíkti á blogg annarra til að sjá hvað þau skrifa um í sínum bloggum. Og viti menn; það eru margir sem bara segja frá sínu lífi á einfaldan og svo fínan hátt. Mér líkar það vel og vil gjarnan skipa mér í lið með þeim.

Í gærmorgun glaðvaknaði ég klukkan hálf fjögur. Það kom samstundis upp í huga mér að nú væri ég í síðasta skipti á leið í fasta vinnu. Ég fann óvissuna smjúga inn í hugarheim minn og ég fann að hjartslátturinn varð hraðari. Framundan voru ókunnar lendur á ferðalagi mínu gegnum lífið og svo hefur það verið áður og ég þekki til þess að jafnvel þó að ég sé viss um að nýjar, ókunnar lendur séu af hinu jákvæða, þá getur hið nýja vegval samt sem áður valdið mér óöryggi og hræðslu.

Enn aftur að þessu í gærmorgun þegar ég vaknaði aldeilis óþarflega snemma og varð órólegur. Mér varð hugsað til föstudags eins fyrir einum sjö til átta mánuðum. Það var sumar í Svíþjóð og sumarfrístími, á þeim árstíma þegar fólk gengur á stuttermaskyrtu, ljósum buxum og sandölum og er gjarnan berfætt. Þegar sólin er hátt á himni umhádegisbil og allt þetta græna haf drekkur í sig sólarljósið. Eikarnar, lindarnar, aspirnar, askarnir og tígullegar norrænar bjarkir ásamt fleiri trjátegundum teygðu laufkrónur sínar svo ótrúlega hátt mót himninum. Ég sat ásamt þremur öðrum í ákveðnu fundarherbergi á annarri hæð í Vornesi og horfði út um stóran glugga móti spegilsléttu vatninu Geringe sem glitraði milli trjákrónanna. Með mér var hann Tommy, svo góður 34 ára strákur, sem þá var lærlingur og hann vildi verða góður ráðgjafi sem hjálpar fólki sem hefur villst af leið. Þar var líka hún Annette, 54 ára kona sem hafði nýlega skrifast út úr ráðgjafaskóla, og hún hafði líka unnið hjá okkur áður. Annette er sprikklandi glöð manneskja sem hefur hjálpað mörgum sjúklingnum að finna vonina um betra líf. Með okkur var líka hún Helena, 47 ára gömul og fyrrverandi lögregluþjónn. Helena lítur svolítið gamaldags út en það klæðir hana ákaflega vel og ég hef svo oft séð hana ganga móti fólki sem á í erfiðleikum og mæta því á frábæran hátt. Öll þessi þrjú áttu það sameiginlegt að hafa enga ráðningu og enga trygginu um fast starf en þrá þeirra eftir þessu öryggi og að vera nytsamir samborgarar leyndi sér ekki. Við áttum mjög góða stund þarna saman og mér fannst að þau væru öll jafn gömul og væru 34 ára, en það var bara Tommy sem var á þeim aldri. Svo kvöddumst við og ég hélt heim á leið í helgarfrí en þessar tvær afleysingarmanneskjur og einn lærlingur áttu að sjá um húsið það sem eftir væri dags. Ég treysti þeim afar vel. Þegar ég ók út trjágöngin frá Vornesi hugsaði ég sterkt til þeirra, var þakklátur fyrir að þau voru til og fann allt í einu fyrir sterkri þörf fyrir að segja upp starfi mínu og þar með stuðla að því að þetta fólk fengi sitt tækifæri í lífinu. Þetta með að segja upp starfinu hugleiddi ég í fullri alvöru á leiðinni heim.

Ekki sagði ég upp starfi mínu þá þrátt fyrir allt, en þarna í gærmorgun þar sem ég lá órólegur í rúminu og hugsaði um þetta allt saman áttaði ég mig allt í einu á þvi að nú var stundin frammi fyrir okkur öll. Ég var að hætta vegna aldurs þó að ég hefði raunar getað unnið lengur. Annar yngri ráðgjafi tók við mínu starfi og þetta allt saman stuðlaði að því að þau sem mér fannst öll vera svo ung og einn undurfagran sumardag í fyrra, þau höfðu fengið ráðningu. Annette í fullu starfi og Helena og Tommy á hálfu starfi. Allt var eins og það átti að vera og sallarólegur fór ég á fætur og lagði svo af stað í vinnuna.

Það er mikið með þessi tímamót í lífi mínu og margt er ósagt.

Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0