Öðruvísi

Ég hef undanfarið litið á blogg bæði á Dagens nyheter og Morgunblaðinu og sé að þar blogga menn um pólitík og heimspekilega hluti og hvað það nú heitir allt saman. Við Valdís bloggum í fyrsta lagi um okkur sjálf. Kannski við séum bara svona ári montin. Nei, það var nú bara della að skrifa svona en ég eyði því nú samt ekki.

Ég vann heilan sólarhring í Vornesi um þessa helgi eins og fram er komið áður. Ég uppgötvaði að það er þræl gaman að vinna um helgar. Ég vissi það áður en var bara búinn að gleyma því. Það geta að vísu komið fyrir hlutir sem ekkert er gaman að en þannig er það á ölum sviðum. Einhvern tíma nefndi ég það þegar það rigndi svo mikið að holurnar sem ég hafði grafið á Sólvöllum háf fylltust aftur af aur og leðju. Það var heldur ekki svo mikið gman að því. En aftur um Vornes. Það er mikið af veiku fólki í húsinu núna og þetta fólk á það sameiginlegt að vera allt alkohólistar og eða eiturlyfjaneytendur. En það á fleira sameiginlegt. Það vill heils hugar breyta lífi sínu og verða að betra fólki, þetta er þakklátt fólk, samvinnuþýtt og auðvelt að þykja vænt um. Öll þessi atriði, og mörg fleiri mætti nefna, eru óvenju sterk um þessa helgi. Þess vegna var svo gaman að vinna frá hádegi í gær fram að hádegi í dag.

Það er skrýtið að hafa ekkert gert á Sólvölllum um helgina og jaðrar við samviskubit. En um næstu helgi getum við verið það og um þá helgi byrjar helgi sem stendur bara hversu lengi sem helst. Þó að ég ætli að vinna eitthvað eftir að ellialdurinn byrjar verður það ekki ráðandi í framtíðinni. Hingað til hefur það verið ráðandi að stunda vinnuna en nú á það að verða ráðandi að stunda svo margt sem hefur verið látið bíða síns tíma. Nú er þessi tími að ganga í garð.

Ég má til með að segja frá draumi sem fjallar um að hafa nógan tíma. Mig dreymdi að við Valdís vorum á Arlanda flugvelli og hvað við gerðum þar vissi ég ekki almennilega. En svo mikið er víst að ég vissi að Valdís sat inni í hinum stóru byggingum á vissum stað og drakk kaffi og las en ég var á rölti úti við og leitaði að bílnum okkar. Við vorum orðin mun aldraðri en við erum í dag og okkur lá ekkert á. Ég hafði á tilfinningunni að við værum um áttrætt. Ég fann fyrir mikilli innri ró og amstur heimsins olli mér ekki minnstu áhyggjum. Það ríkti mikill friður innra með mér. Ég vissi ekki hverrar sortar bíllinn okkar var, ekki hvernig hann var á litinn eða í útliti. Ég hafði heldur ekki minnstu hugmynd um hvar á þessum víðáttumiklu bílastæðum bíllinn var eða á hvaða hæð ef hann væri inn í bílastæðahúsi. Ég hafði ekki minnstu áhyggjur af þessu. Ég vissi að Valdís mundi bíða þangað ég kæmi til baka og í hendinni hafði ég lyklakippu. Það var svo einfalt að bara ganga með þessa lyklakippu um bílastæðin og þrýsta öðru hvoru á ákveðinn hnapp á einum lyklinum þangað til það myndi klikka í bíl. Þá væri bíllinn okkar fundinn og vandamálið leyst. Svo hélt ég áfram röltinu en velti því fyrir mér að það væri dálítið skrýtið að ég skyldi ennþá halda ökuskýrteininu mínu. Með þetta vaknaði ég og fann þá fyrir sömu innri ró og ég hafði haft í draumnum.

Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer
Rosa

Það er sko allt í lagi að tala um sjálfan sig! Svo sérð þú líka hvað allir eru ánægðir að geta lesið um hvað er að gerast hjá ykkur.

2007-03-21 @ 10:24:35


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0