Kvöldþankar frá byggðarlaginu Mattmar, Jämtland í Svíþjóð

Ég sit norður í Jämtland hjá nágrönnum sem ég hef ætlað að heimsækja lengi. Þessir nágrannar eiga hér sumarhús sem líka gæti vel verð heilsárs hús. Að heimskja þetta fólk hingað var komið upp þegar á síðustu árum Valdísar en það bara varð ekki. Ég var líka búinn að vera með það í huga að ferðast norður til héraðs sem heitir Härjedalen. Ég hafði lesið talsvert um þetta hérað og hreifst af ýmsu þar sem mig langað að sjá með eigin augum. Ég bloggaði fyrir sjö árum um áhuga minn fyrir Härjedalen og eiginlega gerði ég heil mikið mál af þessum áhuga mínum. Við Valdís, Rósa og Pétur skoðuðum árið 2007 Härjedlashús á Skansinum í Stokkhólmi. En ég fór aldrei norður þangað.
 
Það var um miðjan vetur sem við Susanne byrjuðum að tala um ferð norður í land. Hún er dálítið kunnug í Jämtland og því byrjaði umræðan fljótlega að snúast um ferð þangað og þá kom þetta upp á ný með að heimsækja nágranna þar sem við erum núna.
 
Ferðin að heiman og hingað upp er um 550 km og meira en helmingur hennar liggur gegnum gríðarleg skógarlönd. Ég hef heyrt sagt að maður sjái ekki skóginn fyrir trjánum en slíkt truflar hvorugt okkar. Við vitum bæði að skógur gerir veðráttu mildari og að búa við gott veður er okkur mikilvægara en að sjá langt til allra átta. En það er líka svo víða sem hægt er að sjá langt til og útsýni yfir skógi vaxin fjöll og fyrnindi er mikið fallegt útsýni.
 
 
Þessi útsýnisturn er rétt hjá stað sem heitir Rättvik og er við norðausturhorn vatnsins Siljan í dölunum. Turninn er 28 metra hár og býður upp á mikilfenglegt útsýni. Ég kom þangað upp í fyrsta skipti sumarið 1996.
 
 
Þessa mynd tók ég frá útsýnisturninum Vidablick á leiðinni upp í Jämtland á mánudaginn var. Fjöllin fjærst við sjóndeildarhring eru í 60 km fjarlægð. Á myndinni sést hluti af bænum Rättvik og smá horn af vatninu Siljan. Allt land sem sést á þessari mynd er grænt og mest af því er skógi vaxið. Þegar ég kom þangað upp í fyrsta skipti árið 1996 varð ég klökkur af að sjá allan þennan gróður. Ég hafði aldrei áður gert mér í hugarlund að svo óslitinn gróður á svo stóru svæði væri til.
 
 
Þessa mynd tók ég einnig frá turninum Vidablick og þarna sjáum við suðurströnd Siljan. Allt land er gróið og grænt og það heillar mig.
 
 
Þessi mynd er líka tekin frá útsýnisturni sem er upp í Jämtland, stutt frá þar sem við dveljum núna, langt norðan við Rättvik og Vidablick. Fjall eitt sem ég get ekki bent á á þessari mynd en sést vel frá turninum með berum augum er í 91 km fjarlægð. Hér erum við komin það langt norður að skógurinn vex ekki lengur yfir hæstu fjallatoppana, en mörg þeirra eru um og yfir 1000 metra. Að öðru leyti er allt skógi vaxið sem ekki er byggðir eða akurlönd.
 
 
Þar sem ég sit núna og skrifa þetta hef ég þetta útsýni frá suðurglugga. Á föstudagsmorgun förum við norðvestur á bóginn þar sem land liggur hærra. Mig grunar að þar fái ég að sjá skóga sem líkjast þeim skógum sem mig dreymdi oft um að ættu að klæða Ísland. Við sjáum hvað setur, hvort ég get birt myndir af því. Skógi vaxið land er gott land og fer vel með íbúana sína.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0