Að berjast fyrir landið sitt

Við Susanne vorum á leið norður á bóginn frá Orsa í Dölunum til Sveg í Härjedalen þar sem við áttum pantað lítið huggulegt hús til að gista í eina nótt. Susanne er góður bílstjóri, hefur gaman af að keyra bíl og mér er ljúft að láta hana um að keyra. Svo hvíli ég hana inn á milli. Í þessum áfanga er farið um 125 km langan veg sem svo sannarlega liggur óslitið í gegnum skógi vaxið landssvæði. Staður einn sem líklega liggur nokkuð miðja vega á þessari leið heitir Noppikoski. Þetta eru einungis fáein hús mitt í skóginum og að koma þangað er alls ekki að koma út úr skóginum. Þar stoppuðum við vegna þess að þar eru snyrtingar sem eru mikilvægar fyrir þá sem eru á langri ferð.
 
Nokkra kílómetra norðan við Noppikoski sagði Susanne snögglega; nei, þarna er orkuver. Þá var hún þegar komin framhjá skiltinu. Langar þig til að sjá það spurði ég og hún hafði áhuga fyrir því. Endilega sagði ég, en ég veit varla hvers vegna ég fékk allt í einu svo sterkan áhuga fyrir að sjá sænskt raforkuver. Hún sneri við við næsta mögulega tækifæri og svo fórum við inn á þriggja kílómetra langan malarveg sem liggur að uppistöðulóni þar sem stendur á skilti "Nappikoski kraftverk".
 
Það má segja að þegar við komum þangað hafi við orðið þess áskynja að þar væri ekki svo mikið að sjá. Sjálft stöðvarhúsið var einhverjum kílómetrum neðar. Steinsteypta stífluna sáum við varla vegna þess að hún var mikið til hulin undir brú sem liggur yfir árgljúfur sem hefur verið gert að uppistöðulóni. Við röltum yfir brúna eins og af rælni og svo til baka. Þá sá ég nokkuð sem vakti áhuga minn.
 
 
Stuttu neðan við stífluna var dálítill pollur eða tjörn, kannski á stærð við fáein íbúðarhús, og þar eftir tók við uppþornaður árfarvegur þar sem rauðbrúnir steinar lágu næstum eins og einir og yfirgefnir. Þetta vakti upp minningar.
 
Þegar ég var um tvítugt og árin þar á eftir var mikið um fréttir í íslenskum fjölmiðlum um mótmælaaðgerðir i Svíþjóð. Mótmælin þá fólust í því að trufla sem allra mest framkvæmdir við byggingu nýrra orkuvera. Fólk safnaðist saman og njörvaði sig fast við vinnuvélar, stórgrýti og hvaðeina það sem þurfti að hreyfa við þegar vinna hæfist. Fólk raðaði sér og lá þar sem tæki furftu að fara um og gerði sem sag allt sem það mögulega gat til að vera fyrir og trufla.
 
Ekki man ég gerla hvaða áhrif þessar fréttir höfðu á mig en ég er viss um að ég var undrandi. Ég er líka viss um að mér þótti það mikil dirfska að gera þetta og ég held að ég hafi sveiflast milli þess að telja að orkuverin væru mikilvægari, en líka að þetta fólk berðist fyrir mikilvægum málstað sem ég skildi ekki. Þar sem við Susanne stóðum þarna á brúnni fann ég mig knúinn til að segja henni frá þessu, en hún er það mikið yngri að hún man ekki eftir þessu virkjanastríði. Og eitt er víst að við það að segja henni frá þessu og að vera þarna á staðnum og sjá með eigin augum aðstæðurnar, það fékk mig að skilja til fullnustu hvað málið snerist um. Gamla laxveðiáin hafði verið þrrkuð upp.
 
Þetta minnti mig líka á frétt sem ég sá í sjónvarpi fyrir nokkrum árum þar sem sýnt var hvernig eldri menn á vöðlum upp að mitti króuðu laxa af neðan við stíflu við uppistöðulón. Þeir böxuðu við að handsama laxana og setja þá í plastkör með vatni í. Síðan fluttu þeir laxana upp fyrir stífluna, hversu langt man ég ekki, en þar áttu þeir að hrygna og sjá til að það yrðu til seiði ofan mannvirkjana. En þeir vissu líka að flest seiðin sem mundu komast á legg mundu enda líf sitt í túrbínum raforkuversins þannig að þessi vinna þeirra mundi ekki skila svo markverðum árangri. Kannski voru þar á ferðinni einhverjir mannanna sem áratugum áður létu keðja sig fasta við risastórar skurðgröfur vegna þess að þeir vildu að landið ætti áfram fossa og flúðir og að laxinn fengi að halda áfram að hrygna í sænskum ám.
 
En hvað sem öllu líður og hversu veikt eða sterkt minni mitt er um þessa atburði, þá er eitt víst að hugarfar Svía breyttist svo mikið við aðgerðirnar að mönnum dettur ekki í hug í dag að reyna að virkja hvernig sem er og hvar sem er. Samt er til mikið af vatni og fallhæð sem hægt er að virkja og það finnast líka kraftar sem gjarnan vilja virkja.
 
Morguninn eftir heimsóknina til uppistöðulónsins fékk ég sendan hlekk á Feisbókinni frá íslenskri konu sem býr í Svíþjóð, henni Evu, og hafði ekki hugmynd um hvað ég hafði aðhafst eða hugsað daginn áður. Þessi hlekkur leiddi mig svo fram til greinar sem höfundurinn Árni Snær kallar "Í landi hinna klikkuðu karlmanna". Mikið varð ég hissa þegar ég las þessa grein svona alveg í kjölfar upplifana minna og hugleiðinga daginn áður.
 

Ferðast þar sem skógurinn virðist endalaus.
 
 
Þetta var útsýnið meðan ég skrifaði og ég undi glaður við það. Það rigndi og það var notalegt, annars hefði ég verið meira á ferðinni. Ég lærði í brúarvinnu á sjötta áratugnum að regnið er róandi og gefur tilfinningu fyrir að ég hafi allt lífið framundan. Þannig er það líka í dag.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0